Flinkar Katie Buckley hörpuleikari, Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran og Una Sveinbjarnardótti fiðluleikari í Kok eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur við texta Kristínar Eiríksdóttur sem Kolfinna Nikulásdóttir leikstýrir.
Flinkar Katie Buckley hörpuleikari, Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran og Una Sveinbjarnardótti fiðluleikari í Kok eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur við texta Kristínar Eiríksdóttur sem Kolfinna Nikulásdóttir leikstýrir. — Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Það er dásamlegt að fá loksins tækifæri til að klára þetta ferli, enda löngu kominn tími til – þótt manni finnist á sama tíma að maður sé aldrei tilbúinn, sem er auðvitað ákveðin þversögn,“ segir tónskáldið Þórunn Gréta Sigurðardóttir um óperuna Kok sem frumsýnd verður á Nýja sviði Borgarleikhússins í kvöld kl. 20.

Óperan er byggð á samnefndri ljóðabók Kristínar Eiríksdóttur sem kom út 2014. „Ljóðin fjalla á óvenjulega beinskeyttan hátt um samband og sambandsleysi, ást og andúð, þrá og skeytingarleysi þar sem mannlegt eðli er afhjúpað í öllum sínum dýrlega breyskleika,“ eins og segir í kynningartexta um verkið.

Spurð um tilurð óperunnar segist Þórunn Gréta hafa fengið hugmyndina á aðventunni 2014. „Á þeim tíma bjó ég fyrir austan og lagði leið mína á Seyðisfjörð til að hlusta á rithöfunda lesa upp úr nýútkomnum verkum sínum. Texti Kristínar kveikti strax í mér og ég keypti bókina á staðnum,“ segir Þórunn Gréta og rifjar upp að stuttu áður hafði Hanna Styrmisdóttir, fyrir hönd Listahátíðar í Reykjavík, pantað hjá henni verk fyrir Kristin Sigmundsson bassasöngvara, Laufeyju Sigurðardóttur fiðluleikara og Elísabetu Waage hörpuleikara.

„Ég var því að leita mér að texta til að semja við. Til að byrja með sá ég ekki hvernig ég ætti að leggja textann karlkyns söngvara í munn, en svo gat ég ekki hætt að hugsa um Kok þannig að ég ákvað í samráði við Kristínu að búa til verk með völdum ljóðum úr bókinni sem tæki um 15 mínútur í flutningi fyrir bassa, sem var frumflutt á Listahátíð 2015. Það var auðvitað biluð nálgun að snúa kynhlutverkunum við þótt það væri samt ýmislegt flott við það. Ég vann verkið út frá ljóðlínunum: „En svo stóð ég upp /alltíeinu / þess vegna brá þér“ sem kallaðist vel á við það að á Listahátíð 2015 var verið að minnast 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hérlendis. Þetta er verk um það að standa upp gegn einhverju, eins abstrakt og það er sett fram í bókinni. Mér finnst því texti bókarinnar endalaust aktúel og talar sífellt við samtímann,“ segir Þórunn Gréta og rifjar upp að meðan hún skrifaði verkið hafi fyrst brjóstabyltingin #FreeTheNipple og síðan #MeToo gengið yfir.

Hún bendir á að samsetning raddar og hljóðfæra sé mótuð af upphaflegu beiðninni. „Í samráði við Kristínu samdi ég verk með völdum ljóðum úr bókinni sem tæki um 15 mínútur í flutningi. Þegar það hafði verið flutt á Listahátíð fannst mér það ekki nóg og langaði að tónsetja alla bókina. Þegar ég fór í það að stækka verkið byrjaði ég þess vegna á því að taka fyrstu útgáfuna í sundur, nýtti þá búta og prjónaði við þá þannig að ég væri að vinna mig skipulega í gegnum alla bókina.“

Byggist mjög á hinu sjónræna

Flytjendur að þessu sinni eru Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran, Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari og Katie Buckley hörpuleikari, en Kolfinna Nikulásdóttir leikstýrir uppfærslunni. Sigurður Möller Síverstsen hannar vídeó, Steinunn Eyja Halldórsdóttir hannar leikmynd og búninga og Pálmi Jónsson lýsingu. Hljóðstjórn er í höndum Garðars Borgþórssonar og framleiðandi er Ragnheiður Maísól Sturludóttir. „Ljóðabókin sjálf er mjög sjónræn en Kristín blandar saman ljóðum og myndlist. Sviðsetning óperunnar byggist mjög á hinu sjónræna en stór hluti frásagnarinnar í verkinu er vídeóvörpun sem kallast á við tónlistina,“ segir í kynningarefni frá sýnendum.

„Ég reyni að fanga andrúmsloft sem mér finnst þjóna og undirstrika anda bókarinnar. Óperan rúmar lagræna kafla í bland við ágengari,“ segir Þórunn Gréta og tekur fram að tæknilega geri hún töluverðar kröfur til flytjendanna. „En þær eru reyndar svo flinkar að þær fara létt með það, enda hafa þær sérhæft sig í samtímatónlist og því fátt sem kemur þeim á óvart. Það er heldur ekkert kappsmál hjá mér að gera þetta sem erfiðast í flutningi, þótt það geti í sjálfu sér orðið ákveðið leikhús.“

Aðspurð segist Þórunn Gréta hafa tekið virkan þátt í æfingaferlinu meðan til stóð að frumsýna verkið í október í tengslum við Óperudaga, sem þurfti síðan að fresta vegna kófsins. „Þegar æfingaferlið byrjaði voru ákveðnir kaflar sem voru enn í mótun og þeir urðu til á fyrstu æfingunum. Það studdi flytjendurna að ég væri til taks meðan þau voru að átta sig á því hvað það væri sem ég vildi ná fram,“ segir Þórunn Gréta og tekur fram að uppfærslan sé í ákveðnum skilningi frumraun fyrir bæði hana sem tónskáld og Kolfinnu Nikulásdóttur sem óperuleikstjóra.

Ég er hrifin af röddum og texta

„Við erum báðar í fyrsta skiptið að vinna í svona miklu samstarfi við svona marga með höfundarverk. Við vorum báðar að læra hvenær rétt væri að sleppa tökum og treysta öðrum fyrir því að grípa þráðinn. Niðurstaðan var gott og áhugavert samtal, enda treysti ég hópnum fullkomlega. Mér hefur fundist einstaklega gaman að mæta á æfingar. Það er bæði áhugavert og skemmtilegt að fylgjast með sköpunarferlinu þegar kemur að uppsetningu verka sinna. Ég tek mikinn lærdóm með mér út úr þessu ferli.“

Spurð hvort hún gæti hugsað sér að semja meira fyrir söngvara svarar Þórunn Gréta því játandi. „Það er engin spurning. Mér finnst gaman að vinna með raddir og texta. Um tíma, sérstaklega meðan ég var í námi, skrifaði ég enga söngtónlist heldur var fremur að vinna með tónlistina sem abstrakt miðil án orða. Um leið og þú setur orð inn þá tapar þú abstraktinu. En ég er hætt að vera hrædd við orð og nú orðið finnst mér ofsalega gaman að vinna með söngvara, raddir og texta.“

Ekki er hægt að sleppa Þórunni Grétu án þess að forvitnast hvort líklegt sé að óperan fái framhaldslíf hvort heldur er innanlands eða utan. „Við þorum eiginlega ekki að gera nein plön út af kófinu, en okkur langar auðvitað að fara með uppfæsluna á flakk þannig að hún nái fleiri eyrum og augum,“ segir Þórunn Gréta.