Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna Sigrún Baldursdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skilað Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra minnisblaði vegna hertra aðgerða á landamærum. Eitt kórónuveirusmit greindist innanlands í fyrradag og var viðkomandi í sóttkví við greiningu. Nokkrir nemendur í...

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skilað Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra minnisblaði vegna hertra aðgerða á landamærum. Eitt kórónuveirusmit greindist innanlands í fyrradag og var viðkomandi í sóttkví við greiningu.

Nokkrir nemendur í 6. bekk Laugarnesskóla greindust með veiruna í gær og voru þeir allir í sóttkví við greiningu. Áður hafði einn nemandi og kennari við skólann greinst með veiruna.

„Ég held að við séum ekkert komin út úr þessu. Ég held að við getum ekkert fullyrt um það hvort við fáum einhver fleiri smit eða hvernig það verður, við verðum bara að sjá hvernig þetta þróast frá degi til dags,“ sagði Þórólfur í samtali við mbl.is í gær.

Enginn fengið nóg bóluefni

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, segir að skortur sé á bóluefni gegn Covid-19 hjá spítalanum eins og annars staðar. Enn á eftir að bólusetja einhverja starfsmenn sem eru mjög framarlega í þjónustu spítalans. Um helmingur starfsfólks Landspítala hefur fengið bólusetningu gegn Covid-19. Enn á eftir að bólusetja um 2.500 starfsmenn spítalans sem starfa í klínískri þjónustu.

„Eftir því sem bóluefnið hefur borist er reynt að koma þessu eins hratt út og mögulegt er,“ sagði Anna Sigrún í samtali við mbl.is í gær.

Spurður hvort Landspítalinn hefði fengið nægilega mikið magn af bóluefni sagði Þórólfur:

„Ég held að enginn hafi fengið nóg bóluefni, ég held að allir myndu vilja fá meira bóluefni. Það gildir um Landspítala eins og aðra. Takmarkandi þátturinn er magnið af bóluefni sem við fáum fyrir þá sem eru í framlínunni og vilja bóluefni.“