Jóna Guðný Jónsdóttir fæddist í Skálholtsvík í Hrútafirði 24. janúar 1923. Hún lést á Landspítalanum 15. mars 2021.

Foreldrar hennar voru Guðrún Lýðsdóttir frá Skálholtsvík, f. 5. september 1886, d. 23. janúar 1984, og Jón Andrésson frá Valdasteinsstöðum, f. 25. mars 1863, d. 11. október 1935.

Hálfsystkini hennar voru: Ágúst Sigurjón Jónsson, f. 1893, dó fyrir tvítugt; Guðlaug Stefanía Jónsdóttir, f. 1894, d. 1978; Páll Jónsson f. 1897, d. 1973; Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1899, d. 1983.

Hinn 1. desember 1946 giftist Jóna Guðný Benedikt Finnboga Þórðarsyni frá Klúku í Miðdal, Steingrímsfirði. Foreldrar hans voru Þórður Þórðarson bóndi á Klúku, f. 9. desember 1883, d. 17. ágúst 1954, og kona hans Guðrún Finnbogadóttir, f. 10. febrúar 1885, d. 26. nóvember 1972. Jóna Guðný og Benedikt eignuðust fimm börn, barnabörnin eru átta og barnabarnabörnin 12. 1) Jón Ágúst, f. 29. september 1947, d. 5. mars 1948. 2) Aðalheiður, f. 31. janúar 1951, gift Herði Árnasyni. Sonur þeirra a) Guðlaugur Ingi, í sambúð með Lilju Eggertsdóttur, börn þeirra Aðalheiður Fríða og Hlynur Elís, látinn. 3) Jón Ágúst, f. 18. september 1954, kvæntur Jónínu Sigurðardóttur, börn þeirra a) Sigurður Ásgeir, börn hans Kristófer Páll og Elísabet Nína Mary. b) Benedikt Freyr, kvæntur Guðrúnu Theódóru Hrafnsdóttur, börn þeirra Grímur Ingi, Hrafn Darri, Embla Rún og Nína Björg. c) Jóna Guðný, í sambúð með Kristófer Kristóferssyni, barn þeirra Nökkvi Snær. d) Fyrir átti Jón, með Ástu Mörtu Sívertsen, Jenný Maríu, gift Þorsteini Sigurvinssyni, börn þeirra Ársól, Axel Ingi og Emilía. 4) Guðrún Þóra, f. 14. apríl 1957, gift Hirti Erlendssyni, sonur a) Erlendur Magnús, í sambúð með Eydísi Sigrúnu Jónsdóttur. 5) Þórður, f. 27. apríl 1961, maki Kristín Unnur Þórarinsdóttir, börn þeirra a) Benedikt Finnbogi, í sambúð með Rakel Önnu Knappett. b) Erla Guðrún, kærasti hennar er Pálmi Guðmundsson.

Jóna Guðný ólst upp í Skálholtsvík með móður sinni. Hún var í farskóla og síðar fór hún í Reykjaskóla. Á unglingsárum sínum var hún í kaupavinnu víða í Hrútafirði og í Húnavatnssýslum. Hún var í vist í Reykjavík og síðar kaupakona í Heiðarbæ í Steingrímsfirði. Á þeim tíma kynntist hún eiginmanni sínum og giftust þau 1946. Þau hófu búskap á Akranesi og fluttu síðan til Reykjavíkur 1948 og bjuggu þar upp frá því. Guðný vann við afgreiðslustörf í mjólkurbúðum sem þá voru, á barnaheimilinu Barónsborg og barnaheimilinu Hamraborg og við ræstingar hjá Landsímanum auk hefðbundinna húsmóðurstarfa. Benedikt Finnbogi lést árið 1994.

Útför Jónu Guðnýjar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 24. mars 2021, og hefst athöfnin klukkan 15. Athöfninni verður streymt á:

https://liveestream.com/luxor/jona

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku mamma, nú er komið að kveðjustund og við erum svo þakklát fyrir að hafa verið hjá þér þegar þú kvaddir og nú hugsum við um allar minningarnar sem við eigum um þig, sem við munum aldrei gleyma.

Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur og alla umhyggjuna fyrir okkur, barnabörnum þínum og barnabarnabörnum.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hvíldu í friði, elsku mamma.

Þinn sonur og tengdadóttir,

Jón og Nína.

Elsku besta amma mín og vinkona.

Mikið er sárt að kveðja.

Þú varst og verður mér alltaf svo mikilvæg.

Umhyggjan og hlýjan sem þú gafst frá þér var engu lík og þú varst engri lík. Svo lífsglöð, jákvæð og kraftmikil.

Hvar sem þú komst eða hvern sem þú hittir, það elskuðu þig allir. Þú sýndir það svo sannarlega að aldur er bara einhver tala.

Við eigum svo margar minningar saman, ótal göngutúrar, sundferðir, bústaðaferðir, utanlandsferðir og svo margt fleira. Mér er svo minnisstætt þegar við fórum saman í Vesturbæjarlaug einn sumardaginn, gleðin var svo mikil hjá þér að ég klökknaði þegar ég fylgdist með þér. Þetta gaf þér svo mikið.

Ég gleymi ekki spenningnum þegar vegabréfið kom í hús og við fórum saman öll fjölskyldan til Spánar að fagna 95 ára afmælinu þínu, þú ætlaðir sko að fá bikiní fyrir þessa ferð, enga sólarvörn, takk, það var sett á mig í gær kom upp þegar átti að bera á þig. Sólarinnar var notið í botn á daginn og svo dressað sig upp í kjól og út að borða á kvöldin. Þú varst svo mikill töffari.

Það var alltaf svo gott að koma í Álftamýrina, ef maður borðaði nóg og lagði sig í litla sófanum þá varstu ánægð.

Ég er svo þakklát fyrir að Nökkvi Snær, litli maðurinn eins og þú kallaðir hann, hafi fengið að kynnast langömmu sinni, hann elskaði að hitta þig. Hann ljómar allur þegar hann sér myndir og vídeó af þér. Ég hef svo margar sögur að segja honum af ömmu og afa í Álftamýri í framtíðinni.

Elsku amma mín, ég kveð þig með trega en ég veit að þú verður alltaf hjá mér.

Ég elska þig.

Þín

Jóna Guðný.

Elsku amma, þó svo aldurinn hafi verið hár þá fannst manni þú vera eilíf.

Og orka þín og sál mun alltaf af vera með manni því það er svo margt sem minnir á þig.

Ég var heppinn að fá að vera mikið með þér og afa á yngri árum, því væntumþykja og hlýja var eitthvað sem þið áttuð mikið af.

Það var alltaf pláss fyrir leik, spil og útiveru og maður var ávallt velkominn til ykkar og engin vogaði sér út frá þér með tóman maga.

Ekta amma eins og Kristófer frændi sagði. Það lýsir þér vel.

Ég á margar sterkar gleðiminningar úr Álftamýri frá barnæsku til fullorðinsára. Heimili ömmu og afa var miðpunktur fjölskyldunnar.

Amma var kjarnakona, blíð, lífsglöð og passaði vel upp á sína. Henni var umhugað um litla manninn og hélt ósjaldan með tapliðinu er hún fylgdist vel með öllum helstu íþróttamótum.

Amma elskaði ferðalög með fjölskyldunni og naut sín best með fólkinu sínu í sumarbústað og nálægt æskuslóðum sínum í náttúrunni.

Þegar hún var 95 ára fórum við öll fjölskyldan saman til Spánar og hún yngdist um 50 ár.

Hún elskaði sól, samveru, og fjölskyldu.

Öll börn löðuðust að ömmu. Og hún að þeim, hún var alveg einstök með þeim.

Það áttu allir einkataug hjá henni eins og Siggi bróðir orðaði það.

Það var erfitt að kveðja þig amma, en ég veit að þú ert komin á góðan stað.

Ég kveð þig að sinni og þangað til næst. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og fjölskyldu mína.

Þú varst yndisleg í alla staði.

Benedikt (Benni),

Guðrún og börn.

Í dag kveðjum við elskulega tengdamóður mína, Jónu Guðnýju Jónsdóttur, eftir langt og farsælt líf en hún náði því að verða 98 ára fyrr í ár. Hún fæddist í Skálholtsvík sem er við mynni Hrútafjarðar og bjó þar með móður sinni fram á unglingsárin. Þá fór hún í vist á öðrum bæjum og í Reykjavík þar til hún gerðist kaupakona í Heiðarbæ í Steingrímsfirði. Á þeim tíma kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, Benedikt Þórðarsyni frá Klúku í Miðdal. Þau giftust árið 1946 og fluttu skömmu síðar suður og settust að á Akranesi. Þar eignuðust þau son sem þau misstu fimm mánaða gamlan og eftir það fluttust þau til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu æ síðan. Þar eignuðust þau fjögur góð og vönduð börn og lögðu grunninn að stórri og samhentri fjölskyldu sem nú telur þrjátíu og fjóra með börnum og barnabörnum.

Ég kynntist þeim hjónunum árið 1978 þegar ég var að eltast við Guðrúnu, dóttur þeirra, og var strax afskaplega vel tekið í Álftamýrinni enda var Guðný afar mannblendin og gestrisin og hafði gaman af að hitta fólk. Þar kynntist ég einnig móður hennar, Guðrúnu Lýðsdóttur, sem þá var orðin háöldruð og hef metið þau kynni mikils ætíð síðan.

Eftir að Benedikt lést 1994 bjó Jóna Guðný áfram í Álftamýrinni og varð miðpunktur stórfjölskyldunnar sem lét sér afar annt um hana og nánast leið ekki sá dagur að einhver ætti ekki leið framhjá til að líta við í kaffi eða mat. Fátt gladdi tengdamóður mína meira en að fá einhvern í heimsókn og bjóða kaffi og kökur og hún var ekki til friðs fyrr en á öllu hafði verið smakkað og hún fullviss um að gesturinn væri saddur.

Jóna Guðný hafði yndi af útiveru og ferðalögum bæði innanlands og utan. Hún var afar fróð um Strandasýsluna þar sem hún ólst upp og þekkti hvern bæ og það fólk sem þar bjó eða hafði búið og gat rakið ættir þeirra langt aftur og tengt þær saman. Hún var ræktarsöm og hélt alltaf góðu sambandi við uppeldissystkini sín og tengslafólk og fátt fannst henni skemmtilegra en að koma á Strandirnar að sumarlagi. Þá var gjarnan gist í Strandaseli og Orkuseli við Hólmavík því einn bústaður rúmaði ekki alla þá sem vildu slást í för norður.

Seinni árin bættust við ferðir til Kanarí og Spánar með stórfjölskyldunni og þar naut hún sín til hins ýtrasta og gaf ungu stelpunum í fjölskyldunni ekkert eftir í tísku og sólböðum. Hún hafði gaman af skoðunarferðum og veitingahúsaheimsóknum og aldurinn þvældist lítið fyrir henni þótt hún væri orðin 95 ára í síðustu ferðinni.

Það er einmitt það sem kemur upp í hugann þegar ég minnist hennar hversu lífsglöð hún var alla tíð og hversu lánsöm hún var með börnin sín sem báru hana alltaf á höndum sér og gættu hennar vel. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar í glaðlegu skvaldri eins og hún kunni best við sig í og umvafin ást og umhyggju barna og barnabarna, södd lífdaga.

Öllum sem tengdust Jónu Guðnýu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og þá sérstaklega börnum, tengdabörnum og barnabörnum og þakka henni þann hlýhug og þá velvild sem hún ávallt sýndi mér og mínum.

Hjörtur Erlendsson.