[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Elvar Ásgeirsson átti stórleik fyrir Nancy þegar liðið fékk Angers í heimsókn í frönsku B-deildinni í handknattleik í gær. Leiknum lauk með 28:24-sigri Nancy en Elvar skoraði sjö mörk úr ellefu skotum og var markahæsti leikmaður vallarins.

* Elvar Ásgeirsson átti stórleik fyrir Nancy þegar liðið fékk Angers í heimsókn í frönsku B-deildinni í handknattleik í gær. Leiknum lauk með 28:24-sigri Nancy en Elvar skoraði sjö mörk úr ellefu skotum og var markahæsti leikmaður vallarins. Nancy er með 26 stig í öðru sæti deildarinnar, líkt og Saran, Cherbourg og Pontault. Sex efstu lið deildarinnar fara í umspil um laust sæti í frönsku úrvalsdeildinni en liðin í 3.-6. sæti mætast fyrst í umspili um laust sæti í undanúrslitum umspilsins þar sem liðin í efstu tveimur sætum deildarinnar bíða. Þá varði Grétar Ari Guðjónsson níu skot í marki Nice sem tapaði með minnsta mun, 32:21, gegn Cherbourg á heimavelli en Nice er í sjöunda sæti deildarinnar með 18 stig og í harðri baráttu um sæti í umspilinu.

*Real Madrid tekur á móti Liverpool í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í Madríd á Spáni hinn 7. apríl. Það var BBC sem greindi frá þessu en óvíst var hvort leikurinn myndi fara fram á Spáni vegna sóttvarnareglna þar í landi vegna kórónuveirufaraldursins. Í gær tilkynntu spænsk yfirvöld hins vegar að ferðabanni frá Bretlandseyjum yrði aflétt hinn 30. mars. Síðari leikur liðanna fer fram 14. apríl á Anfield í Liverpool.

*Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Magnússon og Grindavík hafa ákveðið að slíta samstarfi sínu. Framherjinn, sem er 29 ára gamall, lék fimmtán leiki í deild og bikar síðasta sumar með Grindvíkingum. Hann á að baki 71 leik í efstu deild þar sem hann hefur skorað átta mörk með ÍBV, Fram og Víkingi frá Ólafsvík. Þá hefur hann einnig leikið með Keflavík, HK og nú síðast Grindavík á ferlinum en framherjinn er uppalinn hjá Fram.

*Knattspyrnukonan Rakel Hönnudóttir , leikmaður Íslandsmeistara Breiðabliks, mun ekki leika með liðinu á komandi tímabili þar sem hún er barnshafandi en þetta staðfesti hún á samfélagsmiðlum í gær. Rakel á að baki 215 leiki í efstu deild og hefur skorað í þeim 125 mörk. Þá á hún að baki 103 A-landsleiki, þar sem hún skoraði níu mörk. Hér á landi hefur hún spilað með Þór/KA ásamt Breiðabliki. Þá hefur hún leikið með Bröndby, Limhamn Bunkeflo og Reading í atvinnumennsku.

*Knattspyrnumaðurinn Mason Greenwood hefur dregið sig úr enska U21-árs landsliðshópnum vegna meiðsla. England tekur þátt í lokakeppni EM 2021 sem fer fram í Ungverjalandi og Slóveníu og hefst á fimmtudaginn. Englendingar leika í D-riðli lokakeppninnar ásamt Portúgal, Króatíu og Sviss en leikir liðsins fara fram í Koper og Ljubljana í Slóveníu.

Todd Cantwell , leikmaður B-deildarliðs Norwich á Englandi, hefur verið kallaður inn í hópinn í stað Greenwoods.