Sigurður Hannesson
Sigurður Hannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrés Magnússon andres@mbl.is „Það ríkir vantraust atvinnulífsins í garð Samkeppniseftirlitsins,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í viðtali í Dagmálum, sem birt er í dag.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

„Það ríkir vantraust atvinnulífsins í garð Samkeppniseftirlitsins,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í viðtali í Dagmálum, sem birt er í dag. Hann segir að það sé á suman hátt gagnkvæmt, því Samkeppniseftirlitið (SKE) virðist vantreysta atvinnulífinu. „Þetta vantraust er samfélaginu stórkostlega dýrkeypt.“

Sigurður tæpti á ýmsum þeim málum, sem upp hafa komið vegna Samkeppniseftirlitsins, fjölmiðlaumfjöllun og nýlegri gagnrýni forystumanna í atvinnulífi í þess garð. Hann minnti á að það gerðu menn ekki að gamni sínu, enda veigruðu margir sér við að ýfa stofnunina, það væri of mikið í húfi fyrir þau.

„Það er erfitt að sjá lausnina á þessu, en það verður ekki gert með því einu að atvinnulífið líti í eigin barm, eins og ætla má af orðum [Páls Gunnars Pálssonar] forstjóra Samkeppniseftirlitsins,“ segir Sigurður og gagnrýnir hann fyrir skoðanagleði í fjölmiðlum.

Sigurður telur yfirstjórn stofnunarinnar hafa farið út af sporinu. „Einhvern veginn virðist það vera þannig að Samkeppniseftirlitið nær ekki að gera sig skiljanlegt, því að forstjóri þess þarf að koma fram æ ofan í æ og lýsa því yfir að einhver misskilningur sé á ferðinni í hverju málinu á fætur öðru.“

Viðtekin venja

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, sem einnig var rætt við í þættinum, tekur í sama streng. Hún benti á að það hefði þegar kostað Festi 80 milljónir króna að geta ekki selt verslun á Suðurlandi líkt og sátt við eftirlitið kveður á um, en það ætti einnig þátt í því að koma í veg fyrir sölu hennar, svo nú stefnir allt í að henni verði lokað í komandi mánuði.

Svanhildur telur raunar forstjóra Samkeppniseftirlitsins ekki einan um að fara út fyrir þann ramma, sem embættismönnum er ætlaður. „Hér á landi virðist það orðin viðtekin venja frekar en hitt,“ segir Svanhildur. „Það virðist vera vinsælt hjá ríkisstofnunum að útdeila skoðunum.“