10 Ómar Ingi Magnússon, til hægri, fór á kostum í Norður-Makedóníu.
10 Ómar Ingi Magnússon, til hægri, fór á kostum í Norður-Makedóníu. — AFP
Íslendingaliðin í Evrópudeildinni í handknattleik eru öll í vænlegri stöðu eftir fyrri leiki sína í sextán liða úrslitum keppninnar í gær.

Íslendingaliðin í Evrópudeildinni í handknattleik eru öll í vænlegri stöðu eftir fyrri leiki sína í sextán liða úrslitum keppninnar í gær.

Ómar Ingi Magnússon fór á kostum þegar lið hans Magdeburg vann átta marka stórsigur gegn Eurofarm Pelister en leiknum lauk með 32:24-sigri þýska liðsins.

Magdeburg var með tögl og hagldir á leiknum allan tímann og náði mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik. Staðan var 15:9 og Magdeburg jók forskot sitt hægt og rólega í síðari hálfleik. Ómar Ingi skoraði tíu mörk úr ellefu skotum og var markahæsti maður vallarsins en Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Magdeburg vegna meiðsla á öxl.

Þá varði Viktor Gísli Hallgrímsson tíu skot í marki GOG þegar liðið vann tveggja marka sigur gegn CSKA Moskvu í Danmörku.

Viktor Gísli var með 25% markvörslu í leiknum sem lauk með 33:31-sigri GOG eftir að danska liðið hafði leitt með þremur mörkum í hálfleik, 18:15.

Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Rhein-Neckar Löwen þegar liðið vann 27:25-útisigur gegn Nexe í Króatíu en Króatarnir leiddu með einu marki í hálfleik, 14:13.

Lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í svissneska liðinu Kadetten gerðu svo 27:27-jafntefli gegn Montpellier í Frakklandi en staðan var 15:13 í hálfleik, Montpellier í vil.

Síðari leikirnir í sextán liða úrslitum keppninnar fara fram eftir viku.