[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Ef flæðigosið í Geldingadölum heldur áfram af sama krafti og um langa hríð getur orðið til nýtt fjall. Dr. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir að kvikustreymið í Geldingadölum sé af svipaðri stærðargráðu og það var í Surtsey að meðaltali yfir gostímann þar.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Ef flæðigosið í Geldingadölum heldur áfram af sama krafti og um langa hríð getur orðið til nýtt fjall. Dr. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir að kvikustreymið í Geldingadölum sé af svipaðri stærðargráðu og það var í Surtsey að meðaltali yfir gostímann þar.

Minnir á stóru dyngjurnar

Aðfærslurás eldgossins í Geldingadölum nær alveg niður á botn jarðskorpunnar og upp um hana streymir frumstæð kvika úr bráðnum möttli jarðar. „Þetta er svipað berg og er í Fagradalsfjalli og í dyngjunni Þráinsskildi,“ sagði Ármann. Hann sagði að á Reykjanesskaga væru bæði stórar og litlar dyngjur. Einkenni dyngju er að hún hefur bara eitt gosop. Þær stóru eru t.d. Sandfellshæð, Þráinsskjöldur, Hrútagjárdyngja og Heiðin há. Svo eru smærri dyngjur á Reykjanesskaga, eins og t.d. Háleyjabunga, sem ekki gusu jafn lengi og þær stóru.

Ármann sagði að kvikan í Geldingadölum sé dæmigert ólivín-þóleiít. Í því er mikið af ólivínkristöllum og minnir kvikan meira á hraunin úr stóru dyngjunum á skaganum en úr þeim minni. Í hraununum úr minni dyngjunum er meira pikrít.

Svipað kvikuflæði og í Surtsey

„Kvikan vellur jafnt og þétt upp í Geldingadölum og hefur gert það frá því á föstudagskvöld. Það sést ekkert lát á þessu,“ sagði Ármann. „Sprungugos byrja með meiri látum og eru oft snögg að ljúka sér af. Gosin í Kröflu voru t.d. snögg í byrjun. Það gaus á sprungum sem gátu verið hundruð metra að lengd og upp í nokkra kílómetra. Í Geldingadölum var sprungan um 180 metra löng sem er mjög stutt. Nú gjósa 3-4 gígar á þröngu svæði. Þar streyma upp 5-10 rúmmetrar af kviku á sekúndu. Meðal-rúmflæðið í Surtsey var alveg sambærilegt við það, þótt sumir segi að Surtseyjargosið hafi byrjað af meiri krafti. Flæðið í Surtsey var 7-10 rúmmetrar á sekúndu ef tekið er meðaluppstreymi kviku þau tæpu fjögur ár sem Surtseyjargosið stóð,“ sagði Ármann.

Hann sagði að Surtsey hefði orðið dyngja ef hún hefði ekki byrjað sem neðansjávareldgos. Vegna sjávarins tættist kvikan og eyjan byggðist hratt upp.

Ármann sagði að dyngjur væru um allt land en dyngjugos hefði ekki komið mjög lengi á Íslandi. Síðast gaus Lambahraunsdyngja fyrir um 3.500 árum. „Gosið í Geldingadölum getur hætt fjótlega eða haldið áfram árum saman. Svona göt niður í möttul eru víða til í heiminum og þar eru eldfjöll sem hafa gosið mjög lengi. Það sullast kvika upp úr þessum götum og ef það heldur áfram í mörg ár þá hleður dyngjan sig upp hægt og rólega, hraunið nær að renna lengra og lengra og þarna verður til fjall.“

Spennandi atburðarás

Ármann sagði að atburðarásin í Geldingadölum væri mjög spennandi. „Þetta er eitthvað sem við höfum aldrei séð gerast áður. Þetta er ekkert í líkingu við Kröfluelda eða Fimmvörðuháls. Ef eitthvað er líkt þessu þá er það hugsanlega Surtsey,“ sagði Ármann.