Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Það hrukku margir við í mars 2019 þegar fréttist að Boeing 737-MAX-vél hefði farist með manni og mús í Eþíópíu.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Það hrukku margir við í mars 2019 þegar fréttist að Boeing 737-MAX-vél hefði farist með manni og mús í Eþíópíu. Farþegaþotur brotlenda eins og önnur manngerð tól en það að þarna var á ferðinni spánný vél breytti stöðunni en ekki síður það að önnur sams konar vél hafði farið niður yfir Jövuhafi fáum mánuðum fyrr.

Fljótlega kom í ljós að mjölið var maðkað hjá Boeing, hinu stóra og stælta stolti Bandaríkjamanna. Verkferlar voru í ólagi og þrátt fyrir vitneskju um veikleika í kerfum hinna nýju véla var látið eins og ekkert væri athugavert við smíðina. Það kom þeim í koll og vélin fór í gegnum gríðarlega yfirgripsmikla skoðun og uppfærslu og nú má öruggt telja að vélin standist allar þær öryggiskröfur sem hægt er að leggja á nokkurt tæki af þessu tagi.

Boeing varð eðlilega fyrir harðri gagnrýni og stór orð látin falla. Fyrir því var rík innistæða í flestum tilvikum enda á fjórða hundrað manna látnir í slysunum tveimur og flugfélög víða um heim í sárum með vélarnar kyrrsettar á jörðu niðri.

En nýlega hófu MAX-vélarnar sig á loft á ný. M.a. þær sem Icelandair hafði keypt. Það var ánægjulegt skref fyrir félagið og mun skipta sköpum í endurreisn íslenskrar ferðaþjónustu á komandi mánuðum og misserum.

Þær munu gegna lykilhlutverki í flota félagsins á næstu árum þótt líklegt megi telja að aðrar nýjar vélar verði sóttar til þjónustu til þess að sækja á fjarlægustu markaði. Þar munu mögulega opnast ný tækifæri. Eftir því sem áfangastöðunum út frá Keflavík fjölgar aukast lífsgæði okkar Íslendinga.