Svo gæti farið að eina matvöruverslunin á Hellu lokaði fyrir fullt og allt ef Festi nær ekki að selja hana.
Svo gæti farið að eina matvöruverslunin á Hellu lokaði fyrir fullt og allt ef Festi nær ekki að selja hana. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is „Okkur hugnaðist ekki að þeir aðilar sem í fyrstu tveimur tilraununum reyndu að kaupa reksturinn hjá Festi, tækju við verslunarrekstrinum hér á Hellu,“ segir Björk Grétarsdóttir, oddviti Rangárþings ytra, í samtali við Morgunblaðið. Sveitarfélagið á húsnæðið sem reksturinn er í og kom í veg fyrir að af sölunum yrði. „Við töldum að þessir aðilar myndu ekki geta staðið undir verslunarrekstri eins og þeim sem við viljum hafa hér í bænum. Við erum raunar á þeirri skoðun að best væri að halda þessu óbreyttu, eða sem enn betra væri, að hér yrði opnuð Krónuverslun á vegum sömu aðila og reka verslunina í dag,“ segir Björk.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is
„Okkur hugnaðist ekki að þeir aðilar sem í fyrstu tveimur tilraununum reyndu að kaupa reksturinn hjá Festi, tækju við verslunarrekstrinum hér á Hellu,“ segir Björk Grétarsdóttir, oddviti Rangárþings ytra, í samtali við Morgunblaðið. Sveitarfélagið á húsnæðið sem reksturinn er í og kom í veg fyrir að af sölunum yrði. „Við töldum að þessir aðilar myndu ekki geta staðið undir verslunarrekstri eins og þeim sem við viljum hafa hér í bænum. Við erum raunar á þeirri skoðun að best væri að halda þessu óbreyttu, eða sem enn betra væri, að hér yrði opnuð Krónuverslun á vegum sömu aðila og reka verslunina í dag,“ segir Björk.

Hún segir íbúa á svæðinu uggandi yfir þeirri stöðu sem nú er komin upp. Festi hefur lýst því yfir að í kjölfar þess að óháður kunnáttumaður, sem Samkeppniseftirlitið (SKE) skipaði til að hafa eftirlit með þeirri sátt sem Festi gerði við stofnunina í kjölfar samruna N1 og Festar, kom í veg fyrir að þriðji kaupsamningurinn sem Festi náði um sölu verslunarinnar, næði fram að ganga.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að Þórður Már Jóhannesson, stjórnarformaður Festar, hefði haldið uppi þungri gagnrýni á framgöngu Lúðvíks Bergvinssonar, óháða kunnáttumannsins fyrrnefnda, og SKE á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn var í fyrradag.

Þar var því lýst yfir að allt stefndi í að Festi myndi loka versluninni á Hellu á vori komanda þegar leigusamningur við Rangárþing ytra rynni sitt skeið á enda.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar, segir fyrirtækið hafa gert allt sem í þess valdi stendur til þess að uppfylla sáttina við SKE og koma versluninni í hendur nýs samkeppnisaðila.

„Það hefur ekki gengið og núna erum við að leita að mögulegum kaupanda meðal þeirra fyrirtækja sem nú þegar eru á þessum markaði. Ef það gengur ekki er rekstrinum sjálfhætt.“

Eggert Þór segir fyrirtækið hafa leitað á náðir SKE í fyrra þegar kórónuveirufaraldurinn setti allt úr skorðum í samfélaginu.

„Við óskuðum eftir því að sáttin yrði tekin upp og að við fengjum heimild til þess að reka verslunina áfram enda umferð um Suðurland miklu minni en verið hefur og forsendur allar breyttar. Við fengum skýrt svar við því að það kæmi ekki til greina.“

Spurður út í hvort Festi hefði áhuga á því í núverandi aðstæðum að halda rekstri Kjarvals á Hellu áfram ef SKE endurskoðaði ákvörðun sína segir Eggert Þór að staðan hafi breyst frá því sem áður var.

„Við vorum á þeirri skoðun í fyrstu en eftir að fyrsta tilraunin til að selja reksturinn í árslok 2019 gekk ekki ekki þá mátum við það í raun sem svo að við vildum ekki halda þessu gangandi lengur. Við gerðum lokatilraun til þess þegar kórónuveiran breiddist út en þegar slegið var á þá hugmynd var þetta í raun fullreynt af okkar hálfu.“

Ekki náðist í Pál Gunnar Pálsson, forstjóra SKE, í gær, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.