— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Másson snorrim@mbl.is Það er góðra gjalda vert að bera saman viðbrögð þjóðarinnar þegar fyrsta samkomubann sögunnar tók hér gildi 16. mars 2020 og aftur þegar strangasta samkomubann sögunnar tók gildi nú á miðnætti á miðvikudag.

Snorri Másson

snorrim@mbl.is

Það er góðra gjalda vert að bera saman viðbrögð þjóðarinnar þegar fyrsta samkomubann sögunnar tók hér gildi 16. mars 2020 og aftur þegar strangasta samkomubann sögunnar tók gildi nú á miðnætti á miðvikudag. Í fyrra flykktist ungt fólk á skemmtistaði helgina 13.-15. mars og hélt eitt allsherjarlokadjamm, svo að það sé sagt eins og það er. Þegar takmarkanir voru aftur á móti kynntar í vikunni gerði sér enginn grillur um að fá útrás á vettvangi næturlífsins, enda allir orðnir vanir hömlulausum hömlum á því sviði. Í staðinn bauðst önnur sjóðandi heit freisting: Eldgos í bakgarði Reykjavíkur. Og þar var ungt fólk alls ekki eitt um að vilja nota síðasta séns og á miðvikudaginn er talið að hátt í 6.000 manns hafi mætt á gosstað, sem gerir þetta vitaskuld að stærstu samkomu hér á landi svo árum skiptir. Þetta voru ungir sem aldnir, Íslendingar sem útlendingar, og deginum ljósara að eldgosið er síður en svo einkasamkvæmi fyrir vísindamenn. Það er fyrir fólkið í landinu og býður upp á fjölbreytt mannlíf á tímum þegar mannlíf er á miklu undanhaldi.

Eldhús náttúrunnar

Listamaðurinn og þúsundþjalasmiðurinn Kristinn Arnar Sigurðsson, Krassasig, hafði fylgst með fréttum af uppátækjasömum Íslendingum gera það gott í matreiðslu á gossvæðinu og vildi leggja sitt af mörkum til þeirrar listar þegar hann fór þangað sjálfur, ásamt Aroni Má sem er rætt við hér til hægri.

Kristinn matreiddi tagliatelle bolognese að ítölskum sið á hrauninu, eins og sjá má á myndunum. Þetta bar góðan árangur og spagettíið var að sögn Arons Más, sem fékk að smakka, einstaklega ljúffengt. Um leið gegndi það mikilvægu hlutverki í að næra mannskapinn þegar upp var komið, sem Aron segir að sé atriði sem megi fyrir alla muni ekki klikka á þegar farið er að eldgosinu.

Mesta samkoma frá því faraldurinn hófst

Aron Már Ólafsson, betur þekktur á samfélagsmiðlum sem Aronmola, var á meðal þeirra 5-6.000 sem heimsóttu Geldingadali á miðvikudaginn.

„Þetta var bara þjóðhátíð „all over again“. Við vorum þarna með gítar og héldum brekkusönginn hátíðlegan og þetta var í raun og veru bara galinn fjöldi fólks, mun fleiri en hafa áður komið saman síðan faraldurinn hófst. Það var bara frábært að upplifa svona marga á einum stað aftur og gleyma Covid-19 í smá stund,“ segir Aron.

Hann fylgdi þó tilmælum stjórnvalda og var kominn til byggða áður en hert samkomubann skall á á miðnætti og kvaðst vissulega hafa orðið nokkuð þreyttur við gönguna. „En ég get ekki beðið eftir að fara aftur,“ segir Aron.

Snyrtilegastur á gossvæðinu frá 2010

Ragnar Þorvarðarson er búsettur í Frakklandi en var heppinn að vera í löngu páskafríi heima á Íslandi þegar gosið hófst. Það eru ekki margir sem fá beinlínis áskorun um að skunda inn á hamfarasvæði við virka eldstöð en slíkt var tilfellið hjá Ragnari. Ástæðan er sú að hann gerði garðinn frægan í eldgosinu við Fimmvörðuháls 2010 þegar hann tók mynd af sér í skyrtu og með bindi við gosopið. Nú var hann hvattur til að endurtaka leikinn.

Hann rifjar upp myndatökuna við Fimmvörðuháls í samtali við Morgunblaðið. „Ég var á leiðinni út úr dyrunum þegar ég hugsaði allt í einu hvað það væri leiðinlegt að eiga bara mynd af sér í Goretex-jakka við gosið, þannig að ég kippti með mér skyrtu og bindi og fékk svo af mér mynd sem féll í kramið hjá fólki,“ segir Ragnar. Myndin var vinum hans minnisstæð, þannig að þegar nýtt gos hófst lá beinast við að halda lífi í hefðinni.

„Þegar ég var að skipta um föt núna á miðvikudaginn hélt fjölskylda sem var þarna stödd að ég væri að fara að hlaupa þarna um nakinn, eins og einn tók upp á. Þau voru voða fegin að svo var ekki. Það var eiginlega snjóstormur þarna en ég náði að flýta mér í jakkafötin á stuttum tíma og taka mynd og þetta var töluvert auðveldara en Fimmvörðuhálsinn. Það sem var samt skemmtilegra við Fimmvörðuhálsinn var sú tilfinning manns að maður ætti virkilega skilið að upplifa gosið eftir alla gönguna. En að fara að Geldingadölum er meira bara eins og að mæta í bíó,“ segir Ragnar.

Hafði annað í huga en að trúlofa sig

Sunneva Ósk Axelsdóttir féllst í vikunni á þá hugmynd kærasta síns, Ásmundar Þórs Kristmundssonar stálsmiðs, að leggja leið sína upp að eldgosinu til þess að mynda nýjan vörupakka sem hún er að setja í sölu hjá þrifafélagi sínu Óskir og þrif. Hún hafði verið að velta fyrir sér framsetningu vörunnar og vildi ná góðri mynd. Hún tók pakkann saman og hélt af stað niður á Reykjavíkurflugvöll, þar sem Ásmundur þóttist einnig vilja ná mynd, en þar beið þeirra óvænt þyrla. Hún ferjaði þau á gosstað, þar sem Sunneva vissi ekki fyrr en Ásmundur var kominn á skeljarnar, steinsnar frá glóandi kvikunni. „Þetta var bara alveg algerlega óvænt,“ segir Sunneva. „Þetta var eiginlega vandræðalegt, en ótrúlega skemmtilegt. Þetta er alveg ógleymanleg tilfinning og minning.“ Eftir ferðina er Sunneva enn að vandræðast með myndatöku á vörunum sínum en það er bót í máli að hún er unnustanum ríkari eftir ferðina.