Blaðamannafundur Halla Bergþóra Björnsdóttir, Margeir Sveinsson og Hulda Elsa Björgvinsdóttir.
Blaðamannafundur Halla Bergþóra Björnsdóttir, Margeir Sveinsson og Hulda Elsa Björgvinsdóttir. — Ljósmynd/lögreglan
Jóhann Ólafsson Oddur Þórðarson Játning liggur fyrir vegna manndráps við Rauðagerði þegar albönskum karlmanni var ráðinn bani rétt fyrir miðnætti 13. febrúar síðastliðinn.

Jóhann Ólafsson

Oddur Þórðarson

Játning liggur fyrir vegna manndráps við Rauðagerði þegar albönskum karlmanni var ráðinn bani rétt fyrir miðnætti 13. febrúar síðastliðinn.

Þetta kom fram í máli Margeirs Sveinssonar yfirlögregluþjóns á blaðamannafundi vegna málsins, sem haldinn var síðdegis í gær. Ásamt Margeiri voru viðstaddar Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs.

Skotinn níu sinnum

Armando Bequiri, albanskur maður búsettur á Íslandi, var skotinn níu sinnum fyrir utan heimili sitt við Rauðagerði. Skotvopnið fann lögregla í sjó við höfuðborgina. Maðurinn neitaði sök í upphafi en játaði þegar hann var „kominn upp að vegg“, eins og Margeir orðaði það á fundinum.

Margeir sagði játningu passa við gögn og kenningar lögreglu um hvernig atburðarásin var en þeir sem eru taldir eiga mesta aðild að málinu eru frá Albaníu, líkt og hinn látni. Sá sem játaði kom hingað til lands frá Albaníu fyrir sjö eða átta árum.

Málið ekki að fullu upplýst

Margeir tók sérstaklega fram að fylgst yrði áfram með framvindu mála varðandi mögulegar hefndaraðgerðir eftir að játning liggur fyrir. Lögregla telur sig vita ástæðu morðsins en segir ekki tilefni til að upplýsa um hana á þessari stundu.

Enn fremur er talið að fórnarlambið í málinu hafi tengst skipulagðri brotastarfsemi.

Í samtali við mbl.is eftir fundinn í gær sagði Margeir að málið væri enn til rannsóknar. Hann lýsti því svo að málum sem þessu mætti skipta upp í þrjú stig; skipulagningu verknaðarins, framkvæmd hans og loks eftirmál af verknaðinum og framvindu málsins. Margeir segir að stig tvö, framkvæmd verknaðarins, sé nú upplýst, en stig eitt og þrjú séu enn til rannsóknar.

Áreittu lögreglumenn

Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn segir að Rauðagerðismálið hafi tekið mjög á starfsfólk innan lögreglunnar. Ekki aðeins vegna þess hve óhugnanlegur glæpurinn er heldur einnig vegna aukins álags undanfarið. Hann segir að almenningur þurfi ekki að hafa áhyggjur af skipulagðri glæpastarfsemi en staðfestir að lögreglumenn hafi orðið fyrir aðkasti af hálfu glæpamanna. Grípa þurfti til ráðstafana vegna þess að glæpamenn voru að elta lögreglu og „láta vita af sér“, eins og Margeir orðaði það í samtali við mbl.is í gær.