Eldfjall er að myndast á Reykjanesskaga og mannfólkið má sín lítils í samanburðinum við náttúruöflin.
Eldfjall er að myndast á Reykjanesskaga og mannfólkið má sín lítils í samanburðinum við náttúruöflin. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Eldgosið í Geldingadölum kom svo hægt og hljótt að það tók enginn eftir því þegar það hófst. Það var ekki fyrr en Grindvíkingar sáu roðann í austri, yfir Fagradalsfjalli, föstudagskvöldið 19.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Eldgosið í Geldingadölum kom svo hægt og hljótt að það tók enginn eftir því þegar það hófst. Það var ekki fyrr en Grindvíkingar sáu roðann í austri, yfir Fagradalsfjalli, föstudagskvöldið 19. mars að mönnum varð ljóst að eldgos var hafið.

Aðdragandinn var allt annað en hægur og hljóður. Allt frá því í desember 2019, þegar mikil jarðskjálftahrina hófst við Fagradalsfjall, höfðu íbúar Suðurnesja búið við skjálftahrinur, kvikuinnskot og landris á Reykjanesskaga. Mikil jarðskjálftahrina hófst að morgni 24. febrúar. Jarðskjálfti af stærð 5,7 með upptök 3 km suðsuðvestur af Keili fannst víða um land. Kröftugir eftirskjálftar og gikkskjálftar fylgdu. Upptök margra þeirra voru við Fagradalsfjall. Almannavarnir lýstu yfir hættustigi á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesskaga. Lítið lát var á jarðskjálftavirkni næstu daga.

Gervihnattamyndir í byrjun mars sýndu aflögun jarðskorpunnar milli Fagradalsfjalls og Keilis. Líklegasta ástæðan var talin vera kvikuinnskot. Æ fleiri vísbendingar studdu þá tilgátu og vísindamenn fylgdust grannt með því hvernig kvikugangurinn tróð sér eins og lóðrétt borðplata upp í jarðskorpuna milli Fagradalsfjalls og Keilis. Gangurinn lengdist í báða enda og hækkaði sem olli því að jarðskjálftar urðu svo ótt og títt að annars eins þekktust ekki dæmi.

Stóra spurningin var hvort þessi atburðarás endaði með eldgosi? Þegar dró úr skjálftunum og gangurinn var jafnvel talinn vera storknaður að hluta smeygði kvikan sér upp úr jarðskorpunni þar sem heita Geldingadalir. Fáir vissu af þeim áður en nú veit hvert mannsbarn á Íslandi hvar þetta örnefni er.

Gæti orðið langvinnt eldgos

„Eitt af því áhugaverða í þessu eldgosi er hvað kvikuflæðið hefur verið stöðugt. Það er lítið miðað við mörg önnur eldgos en það hefur verið stöðugt og jafnt. Það virðist vera jafnvægi á milli inn- og útflæðis úr kerfinu. Það styður við hugmyndir um að þetta getið orðið langvinnt gos,“ sagði Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.

Breytingar hafa orðið á gígunum frá því eldgosið hófst. Þorvaldur sagði að þær breytingar komi ekki á óvart. „Þessi gos byrja yfirleitt í nokkrum gígopum svo fer þetta að færa sig í færri og færri gígop. Þetta endar væntanlega í einu opi,“ sagði Þorvaldur. „Ef gosið heldur áfram nógu lengi þá verður Geldingadalur að hrauntjörn. Síðan fer að flæða út úr henni en hvert það fer verður fróðlegt að sjá. Sennilega fer það bæði þarna suður af og austur af.“

Kvikuflæðið hefur verið áætlað 5-10 rúmmetrar á sekúndu. Þorvaldur telur að ef flæðið helst meira en fimm rúmmetrar á sekúndu haldi gosið áfram en fari það niður fyrir þrjá rúmmetra muni gosið enda.

Miðað við fimm til tíu rúmmetra kvikuflæði á sekúndu geta liðið 10-30 dagar frá gosbyrjun þar til fer að flæða út úr dalnum. Svo getur mögulega lokast fyrir leiðir hraunsins út úr dalnum og þá dregst það að hraunið fari annað.

Fara þarf varlega við gosið

Fara þarf með gát þar sem eldfjallagas er. Þorvaldur sagði að virða bæri þá reglu að vera alltaf með vindinn í bakið og forðast að fara niður í lægðir heldur halda sig uppi á hæðunum.

„Ég veit að þetta er spennandi og fólk langar að komast nær gígnum. En hvað ætlar fólk að gera ef gígveggurinn hrynur og hraunið gusast fram? Hraunið er mjög þunnfljótandi, kvikan vel yfir 1.200 gráðu heit og seigjan mjög lág. Þetta er næstum því jafn þunnfljótandi og vatn,“ sagði Þorvaldur. Hann sagði að hraunkvika væri flókinn vökvi sem snöggkólnar ekki. Það myndast seigja í hrauninu og þá hægir það á sér en um leið byggist upp þrýstingur þar á bak við ef þunnfljótandi hraunkvikan hefur ekki aðra útgönguleið. Á endanum brýtur hún stífluna og þá gusast þetta fram.

„Hraunið er farið að setjast í polla og þetta er farið að mynda hrauntjörn. Þá erum við komin með allt aðrar aðstæður. Þá er eiginlega vökvi undir allri skorpunni. Ég vil því ráðleggja fólki að vera ekki að stíga mikið á hraunið. Það borgar sig að halda sig í öruggri fjarlægð og njóta lífsins,“ sagði Þorvaldur.

Myndi fylla lægðir á 3 mánuðum

Jóhann Helgason jarðfræðingur segir að þróist eldvarpið í Geldingadölum sem dyngja, eins og margir telja, muni það hafa mikil áhrif á allt hraunflæði á svæðinu.

„Dyngjur, sbr. Skjaldbreiður, hlaðast upp frá einum punkti og dreifa hrauni jafnt í 360° hring umhverfis. Dyngjur hafa þannig fullkomna lögun flestra ef ekki allra gerða eldvarpa. Þetta mun hafa áhrif á upphleðslu hrauns í Geldingadölum en lega gígsins í lægðinni skiptir einnig máli,“ skrifar Jóhann í samantekt sem Morgunblaðið fékk að styðjast við ásamt korti sem birt er í skýringarmynd í næstu opnu.

Hann bendir á að neðsti hluti lægðarinnar þar sem gýs sé í 180 metra hæð yfir sjávarmáli (m.y.s). Op er úr henni til austurs í 209 m.y.s. Aflangur hóll er í dalnum og nær hann upp í 216 m.y.s. Gígurinn er nánast í toppi hans. Fjarlægð gígsins frá skarðinu fyrir austan er aðeins um 350 metrar. Jóhann studdist við nákvæm hæðargögn frá Landmælingum Íslands þegar hann spáði í flæði hrauns frá gosstöðvunum í Geldingadölum að gefnum nokkrum forsendum varðandi rennsli og þær leiðir sem líklegt er að hraun fari.

Jóhann telur líklegt að hraunflæðið haldi sig fyrst við Geldingadali. Síðan flæði hraunið um skarðið til austurs og þaðan líklega fyrst norður í Meradali. Ekki er hægt að útiloka rennsli suður í Nátthaga á einhverju stigi. Jóhann segir að rúmmál Geldingadala sé 6,8 Mm 3 (milljónir rúmmetra), Nátthaga 4,3 Mm 3 og Meradala 44,7 Mm 3 . Samtals er stærð þessara þriggja lægða 55,8 Mm 3 .

Kvikuuppstreymið í Geldingadölum er 5-10 m 3 /sek að mati jarðfræðinga. Rætt er um að gosið geti orðið langvinnt. Hraunrennsli miðað við 5 m 3 /sek í eitt ár gefur 158 Mm 3 og ef hraunrennslið er 10 m 3 /sek verður hraunið orðið 316 Mm 3 eftir eitt ár.

„Samkvæmt þessum útreikningum myndu allar lægðirnar fyllast á innan við 3 mánuðum. Nái hraun að renna í Nátthaga er, fljótt á litið, mesta hætta á tjóni þar því sú lægð er lítil og þunnfljótandi hraunið ætti greiða leið til sjávar ef hún fylltist,“ skrifar Jóhann. Hann bendir einnig á að sunnar í Geldingadölum sé annað skarð til austurs í 229 metra hæð. Ætla má að þaðan geti lekið hraun niður í Nátthaga.

„Upphleðsla dyngju í Geldingadölum myndi ekki stöðvast þar þótt rennsli yrði um skarð að austanverðu (ofan í Meradali eða Nátthaga). Hraun héldi áfram að hlaðast upp innan lægðarinnar og reyndar má ætla að minnihluti gosefna næðu út um skarðið,“ skrifar Jóhann enn fremur í samantekt sinni.