Landsréttur Hús Landsréttar
Landsréttur Hús Landsréttar — Morgunblaðið/Hanna
Landsréttur sakfelldi í gær tvo karlmenn fyrir innherjasvik í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Icelandair Group. Þriðji maðurinn var sýknaður en 20 milljóna króna ávinningingur, sem hann fékk af viðskiptunum, var gerður upptækur.

Landsréttur sakfelldi í gær tvo karlmenn fyrir innherjasvik í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Icelandair Group. Þriðji maðurinn var sýknaður en 20 milljóna króna ávinningingur, sem hann fékk af viðskiptunum, var gerður upptækur.

Kristján Georg Jósteinsson var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi og gert að sæta upptöku á rúmum 38 milljónum króna. Kjartan Jónsson var dæmdur í tveggja ára fangelsi og gert að sæta upptöku á þremur milljónum króna.

Innherjasvikin fóru þannig fram að Kristján keypti og nýtti, í gegnum félag sitt sem nú heitir Fastrek ehf., afleiður og sölurétt samkvæmt valréttarsamningum sem byggðust á verðþróun hlutabréfa í Icelandair Group. Hann nýtti sér þar innherjaupplýsingar frá Kjartani, sem starfaði sem forstöðumaður leiðakerfisstjórnunar Icelandair, var skilgreindur í hópi lykilstarfsmanna og skráður fruminnherji í móðurfélaginu, Icelandair Group.

Landsréttur segir í niðurstöðu sinni, að Kjartan hafi með brotum sínum gerst sekur um trúnaðarbrot gagnvart vinnuveitanda sínum og hafi brotin verið sérstaklega alvarleg vegna stöðu hans sem fruminnherji hjá Icelandair Group. Ásetningur hans hafi verið einbeittur.

Þá segir dómurinn að Kristján hafi framið brot sín með einbeittum ásetningi. Hann var árið 2016 dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir annað brot, þar af voru 15 mánuðir bundnir skilorði til tveggja ára en dómurinn nú var hegningarauki við þann dóm.

Landsréttur taldi að ekki hefðu verið færðar sönnur fyrir því að þriðji maðurinn hefði vitað eða mátt vita að Kristján Georg hefði búið yfir innherjaupplýsingum um Icelandair Group hf. þegar hann átti viðskipti með bréf félagsins að hans ráðum.