Alþingi Formenn flokkanna flytja saman frumvarpið um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu.
Alþingi Formenn flokkanna flytja saman frumvarpið um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Lagt er til að lögfest verði bann við nafnlausum áróðri flokka og frambjóðenda í stjórnmálabaráttu í frumvarpi sem formenn allra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi standa að og lagt hefur verið fram á þinginu. Þar eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Lagt er til að lögfest verði bann við nafnlausum áróðri flokka og frambjóðenda í stjórnmálabaráttu í frumvarpi sem formenn allra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi standa að og lagt hefur verið fram á þinginu. Þar eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

Er þar að finna ákvæði sem kveður á um að stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, sé óheimilt að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra, eins og segir í frumvarpinu. Því næst er lagt til það nýmæli „að frá þeim degi er kjördagur hefur formlega verið auglýstur vegna kosninga til Alþingis, til sveitarstjórna eða til embættis forseta Íslands, svo og vegna boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu, skulu auglýsingar og annað kostað efni, sem ætlað er að hafa áhrif á úrslit kosninga, vera merkt auglýsanda eða ábyrgðarmanni“.

Upplýsingum um þá sem hætta í flokki eytt innan tveggja ára

Markmið frumvarpsins er sagt vera að auka traust á stjórnmálastarfsemi, tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka og efla lýðræði og gagnsæi stjórnmála og jafnframt að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum frambjóðenda og stjórnmálasamtaka.

Formennirnir leggja til í frumvarpinu að ríkisskattstjóra verði falið að starfrækja sérstaka stjórnmálasamtakaskrá.

Tillögur eru settar fram um heimildir flokka til að halda félagaskrá og hvernig vinna megi með persónuupplýsingar. „Í því sambandi er lagt til að sérstaklega verði tekið fram að stjórnmálasamtökum sé óheimilt að nýta persónusnið til að beina að einstaklingum efni og auglýsingum í tengslum við stjórnmálabaráttu sem fela í sér hvatningu um að nýta ekki kosningarréttinn,“ segir í greinargerð.

Í ítarlegum skýringum á ákvæðum frumvarpsins er m.a. fjallað um hvaða persónuupplýsingar stjórnmálasamtök mega vinna með í félagatali sínu og er m.a. gert ráð fyrir að þau geti nýtt skrár sem eru aðgengilegar opinberlega, „svo sem þjóðskrá eða símaskrá, til að uppfæra þær upplýsingar sem félagar samtakanna hafa veitt þeim, t.d. upplýsingar um nöfn, símanúmer, heimilisföng, netföng eða notendanöfn á samfélagsmiðlum, svo hægt verði að tryggja órofin samskipti félaga og samtaka þeirra“.

Í frumvarpinu er ennfremur lagt til að lögfest verði að þegar skráðir flokksmenn hætta aðild að stjórnmálasamtökum skuli innan tveggja ára eyða öllum upplýsingum um þá úr félagatali.

Verði frumvarpið lögfest verður gert að skilyrði fyrir fjárframlögum úr ríkissjóði og frá sveitarstjórnum, til viðbótar við skilyrði í núgildandi lögum, að viðkomandi stjórnmálasamtök hafi verið skráð í stjórnmálasamtakaskrá skattsins. Fram kemur í umfjöllun að fara þurfi varlega í að setja skilyrði og skorður við starfsemi stjórnmálasamtaka en gild og málefnaleg rök séu þó fyrir því til að skapa gagnsæi í starfsemi þeirra að skilyrða úthlutun opinberra fjárframlaga því að þau hafi áður skráð sig á stjórnmálasamtakaskrá.