Katla 1918 Frásögn af gosinu var á forsíðunni daginn eftir, við hliðina á símfregnum.
Katla 1918 Frásögn af gosinu var á forsíðunni daginn eftir, við hliðina á símfregnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Þau stórtíðindi gerðust í gær...“ Þannig byrjaði frétt Morgunblaðsins af eldgosinu í Kötlu 1918 og oft hafa fréttir af hamförum á Íslandi byrjað með líkum hætti.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Þau stórtíðindi gerðust í gær...“ Þannig byrjaði frétt Morgunblaðsins af eldgosinu í Kötlu 1918 og oft hafa fréttir af hamförum á Íslandi byrjað með líkum hætti. Eldgos eru í eðli sínu miklir atburðir og hafa oft valdið búsifjum og erfiðleikum. Síðustu rúmlega 100 árin er forvitnilegt að sjá hvernig blaðamenn hafa matreitt þessa atburði fyrir lesendur sína.

Í þessari samantekt eru skoðaðar nokkrar forsíður og sterkar fréttasíður í Morgunblaðinu í kjölfar eldgosa, en blaðið kom fyrst út árið 1913. Sumar eru einfaldar en áhrifaríkar, þar sem atburðurinn sem slíkur talar sínu máli, aðrar myndrænni og lýsa hugmyndaauðgi. Ekki eru hér tíunduð öll eldgos síðustu 100 ára, en nokkur af þeim stærstu. Tímasetningar og tækni hvers tíma hafa áhrif á frásagnir, en fyrst í stað var t.d. ekki möguleiki á að nota myndir, síðan komu þær í svarthvítu og síðustu áratugi hafa sterkar litmyndir sagt meira en mörg orð.

Óhætt er að segja að eldgos hafi oft valdið taugatitringi og hækkuðum blóðþrýstingi hjá fjölmiðlafólki. Þau hafa líka sýnt tilþrif í fréttamennsku og stórkostlegar ljósmyndir, allt til að þjóna lesendum sem best. Þar er gosið í Geldingadölum, sem hófst á föstudagskvöldi fyrir rúmri viku, engin undantekning.

„Eldur í Kötlu“ var fyrirsögn blaðsins í gosinu 1918, en ef stiklað er á stóru má sjá fyrirsagnir eins og „Háfjall Heklu logandi eldhaf“ 1947, og „Eldgos í Heimaey“ var fyrirsögn á forsíðu blaðsins er Eyjagosið hófst. „Hætta á sprengigosum á öllu Mývatnssvæðinu,“ sagði í fyrirsögn er gaus við Leirhnjúk í desember 1975, en það var fyrsta gos af níu í Kröflueldum, „Eldur í iðrum Vatnajökuls“ sagði í fyrirsögn 1996, „Sprengigos í jökli“ var fyrirsögnin við upphaf eldgoss í Eyjafjallajökli 2010 og „Grímsvötnin gretta sig“ sagði í forsíðufyrirsögn 23. maí 2011.

Farið var „að sjóða upp úr Kötlu“

Forvitnilegt er að skoða frétt Morgunblaðsins af eldgosinu í Kötlu, sem hófst 12. október 1918, fimm árum eftir að blaðið kom fyrst út. Þar segir m.a.: „Skömmu síðar sáust mekkir miklir yfir fjallinu Hettu, og vorn þá ekki í vafa um, að tekið væri að sjóða upp úr Kötlu. Ferðamenn, sem staddir voru við Múlakvísl, urðu frá að hverfa. Kvíslin ólmaðist fram með jakaferð svo mikilli, að engir menn núlifandi hafa séð annað eins og flæddi yfir alla aura. [...]

Vér náðum tali af símastöðinni í Vík kl. 6 1/2 í gærkvöldi. Er mönnum órótt innanbrjósts, sem vonlegt er, og þó munu þeir ver staddir, sem heima eiga austur á söndum, milli vatna þeirra, sem ófær eru orðin vegna flóðsins. Menn eru hræddir um, að ferðamenn hafi verið staddir á söndunum, en þess getur orðið langt að bíða, að fréttir fáist austan yfir Múlakvísl. [...]

Skömmu eftir að gosið byrjaði, sást reyk- og gufumökkurinn héðan úr Reykjavík og bar hátt á himin. Jókst hann stöðugt, og þegar tók að dimma, sáust eldglæringar og eldstrókar í mökknum. Mátti svo að orði kveða, að alt austurloftið hafi sýnzt sem eitt eldhaf, þegar dimt var orðið. Vitum vér þess engin dæmi, að nokkurt eldgos hafi sézt svo glögglega héðan úr bænum og má því draga af því þá ályktun, að þetta sé eitthvert hið mesta gos, er sögur fara af.

Símasambandi við Vík var slitið í gærkvöldi, vegna þess að stórhættulegt var að nota símalínuna sökum þess, hvað loftið var þrungið af rafmagni.“

Skipt um forsíðu um morguninn

Heklugosið 1947 kallaði á að breyta forsíðu Morgunblaðsins er tíðindin bárust laugardagsmorguninn 29. mars. Efst á forsíðunni hafði verið frétt um óeirðir víða í Þýskalandi, en í seinni prentuninni var komin frétt yfir þvera síðuna um Heklugos með þriggja dálka frétt. Enn var á forsíðunni mynd af Davies, breskum hershöfðingja í Jerúsalem, þar sem hann var að yfirheyra Gyðinga. Mynd af Heklugosi birtist daginn eftir.

Í uppfærðu fréttinni segir að Hekla hafi byrjað að gjósa skömmu fyrir kl. sjö á laugardagsmorgninum. Fólk í austursveitum hafi orðið vart við snarpan jarðskjálftakipp og skömmu síðar hafi gosið upp gosmökkur frá Heklu eða Hekluhrauni. Hálfri klukkustund síðar hafi Hekla verið umlukin gosmekki frá rótum og mökkinn borið við himin.

Aukablað um eldgosið á Heimaey

Næst verður staldrað við gosið á Heimaey, sem hófst 23. janúar 1973. Þann dag voru þrjár útgáfur af Morgunblaðinu. Upprunaleg útgáfa var með aðalfrétt úr 50 mílna landhelgisdeilu Íslendinga og Breta og var byggt á einkaskeyti til Morgunblaðsins. Á þeirri forsíðu var líka meðal annars að finna frétt um andlát Johnsons, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Gosið í Eyjum hófst um klukkan tvö að nóttu 23. janúar 1973 og er tíðindin bárust var skipt um forsíðu, fréttin um eldgos á Heimaey með stórri fyrirsögn bar uppi forsíðuna, en þorskastríðið og Johnson fengu minna vægi. Þriðja útgáfa blaðsins, tólf síðna síðdegisútgáfa án auglýsinga, kom síðan út upp úr hádegi og var þar að finna ítarlegar fréttir, m.a. um gosið og flutning fólksins til lands, viðtöl og margar myndir frá Vestmannaeyjum. Í ramma í síðdegisútgáfunni sagði að þegar fréttin um eldgosið í Vestmannaeyjum hafi borist Morgunblaðinu hafi prentvélar blaðsins verið í fullum gangi við að prenta fyrra blaðið, en vinnslu við það lauk um miðnætti. Þegar vélarnar hafi verið stöðvaðar höfðu verið prentuð 17.000 eintök. Var þá forsíðan tekin upp og síðustu 23.000 eintökin prentuð með annarri forsíðu.

Ekkert grín – heilagur sannleikur

Í 100 ára afmælisblaðið Morgunblaðsins 1973 rifja þeir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, og Magnús Finnsson, fyrrverandi fréttastjóri, upp þessa viðburðaríku fréttavakt þegar Heimaeyjargosið byrjaði.

Styrmir segir m.a. frá því að honum sé minnisstætt þegar „Árni Johnsen hringdi í mig um miðja nótt og sagði að það væri byrjað að gjósa í Vestmannaeyjum. Og ég hélt að hann væri að gera grín að mér og tók eiginlega ekki mark á því fyrst í samtalinu, sem hann var að segja mér. Svo allt í einu fór ég að gera mér grein fyrir því að hann var að segja satt.“

Það kom í hlut Magnúsar Finnssonar að skrifa fyrstu frétt blaðsins um gosið. Hann hafði verið á á innlendri fréttavakt til klukkan eitt eftir miðnætti og var kominn heim í ró, til þess eins að vera ræstur aftur til starfa röskri klukkustund síðar.

„Þá hringir Björn Jóhannsson [fréttastjóri] í mig og segir: Ég skal segja þér það, og ég er ekki að gera grín því þetta er heilagur sannleikur – það er farið að gjósa í Vestmannaeyjum! Og þú verður að fara niðureftir og gera ráðstafanir því við verðum að skipta út forsíðunni. Ég klæddi mig því aftur og var nokkuð snöggur að hafa mig til...“

Ekki var mikill tími til stefnu og hendur látnar standa fram úr ermum. Magnús heldur áfram: „Ég sat við ritvélina og vélritaði fréttina eins hratt og ég mögulega gat enda skipti tíminn nú öllu sem aldrei fyrr. Nema hvað Björn er þarna líka og hann rífur alltaf blaðið úr valsinum jafnóðum og ég er búinn að skrifa heila línu, og segir mér um leið að halda bara áfram. Það var svosem ekki þægilegt að hafa ekki yfirlit yfir það sem komið var, og hafa ekki þá samfellu til að styðjast við, en það þurfti að setja hverja setningu um leið og hún var tilbúin því það þurfti hraðar hendur til. Og á endanum varð það merkilega heilleg frétt sem kom út úr þessu,“ segir Magnús.

Nýtt blað var tilbúið um fimmleytið að morgni þriðjudagsins 23. janúar og í framhaldinu gat prentun hafist, en offsetprentun var ekki komin og textinn settur í blý. Stór hluti lesenda Morgunblaðsins fékk því fréttina um eldgosið í blaði sínu strax um morguninn. Og aukablað upp úr hádegi!