[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landsliðið Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, valdi tvo nýliða í 23 manna landsliðshóp sinn sem mætir Ítalíu 13.

Landsliðið

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, valdi tvo nýliða í 23 manna landsliðshóp sinn sem mætir Ítalíu 13. apríl í vináttulandsleik á Ítalíu en hópurinn var opinberaður á blaðamannafundi í gær.

Báðir nýliðarnir koma úr röðum Breiðabliks, þær Hafrún Rakel Halldórsdóttir og markvörðurinn Telma Ívarsdóttir, en saman eiga þær að baki 50 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Ingibjörg Sigurðardóttir, ríkjandi bikar- og Noregsmeistari með Vålerenga, fékk ekki leyfi frá félagsliði sínu til þess að taka þátt í verkefninu vegna strangra sóttvarnareglna í Noregi en hún á að baki 35 A-landsleiki og hefur verið fastakona í íslenska liðinu undanfarin ár.

Berglind og Guðrún

Valið er nokkuð hefðbundið, að undanskildum nýliðunum tveimur, en þó eru leikmenn á borð við Berglindi Rós Agústsdóttur og Guðrúnu Arnardóttur sem hafa verið inn og út úr hópnum undanfarin ár.

Berglind hefur verið besti leikmaður Fylkis í úrvalsdeild kvenna undanfarin tímabil og á að baki einn A-landsleik en hún gekk til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið Örebro í desember á síðasta ári.

Guðrún Arnardóttir hefur leikið með Djurgården í Svíþjóð frá 2019 en hún gekk til liðs við sænska félagið frá Breiðabliki þar sem hún varð tvívegis Íslandsmeistari og þrívegis bikarmeistari frá 2012 til 2018.

Hún á að baki 8 A-landsleiki en hún lék síðast með íslenska kvennalandsliðinu í vináttulandsleik gegn Suður-Kóreu í Chuncheon, 9. apríl 2019, en leiknum lauk með 1:1-jafntefli.

Á blaðamannafundi gærdagsins tilkynnti Þorsteinn einnig að íslenska liðið myndi mæta öðrum andstæðingi hinn 10. apríl á Ítalíu en að ósk knattspyrnusambands mótherja íslenska liðsins verður ekki tilkynnt hverjir andstæðingarnir verða fyrr en eftir helgi.

Hefur alla burði

Hafrún Rakel, sem er 18 ára gömul, gekk til liðs við Breiðablik haustið 2019 eftir þrjú tímabil með uppeldisfélagi sínu Aftureldingu í 1. og 2. deildinni.

Þar skoraði hún 8 mörk í 42 deildaleikjum áður en hún samdi við Breiðablik en hún lék alla fimmtán leiki Breiðabliks á síðustu leiktíð þegar liðið varð Íslandsmeistari í sautjánda sinn í sögu félagsins undir stjórn Þorsteins.

„Ég þekki Hafrúnu vel sem leikmann og hún hefur alla burði til þess að verða framtíðarleikmaður í íslenska landsliðinu,“ sagði Þorsteinn meðal annars um val sitt á leikmanninum í gær. Hafrún var sjálf í skýjunum með valið þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar í gær en valið kom henni sjálfri á óvart.

„Ég er bara mjög ánægð,“ sagði Hafrún Rakel. „Það hefur verið markmiðið hjá mér að spila fyrir íslenska landsliðið alveg frá því ég var lítil stelpa og þetta kom mjög skemmtilega á óvart. Ég vissi í raun ekki að ég yrði í hópnum fyrr en hann var opinberaður á heimasíðu KSÍ þannig að þetta kom mér alveg jafn mikið á óvart og öðrum,“ bætti hún við.

Hafrún Rakel var hluti af mjög sterku U19-ára landsliði Íslands sem lagði meðal annars Þýskaland og Ítalíu að velli á alþjóðlegu móti á La Manga í mars 2020 en vegna kórónuveirufaraldursins var keppni í milliriðlum fyrir EM 2020, sem átti að fara fram í Hollandi, aflýst.

Dýrmæt reynsla með U19

„Ég fékk dýrmæta reynslu með U19-ára landsliðinu á sínum tíma og maður þekkir því aðeins þetta landsliðsumhverfi. Þetta er verkefni á vegum landsliðsins núna og ég fer inn í það eins og öll önnur verkefni með það að leiðarljósi að gera mitt besta og standa mig vel.

Steini er frábær þjálfari og hann hjálpaði mér mikið á síðustu leiktíð. Hann treysti mér strax á fyrsta degi og það er gríðarlega mikilvægt sem leikmaður að finna fyrir trausti hjá þjálfaranum. Ég hlakka mikið til að vinna með honum á nýjan leik.“

England er stóra markmiðið

Ísland tekur þátt í lokakeppni EM 2022 sem fram fer á Englandi og er eitt af markmiðum Hafrúnar að vera í lokahópnum sem fer til Englands.

„Þetta val gefur mér klárlega auka kraft, farandi inn í næsta tímabil með Breiðabliki, og þetta sýnir mér svart á hvítu að ég þarf að halda áfram á sömu braut.

Það þýðir ekkert að hætta núna og auðvitað er eitt af stóru markmiðunum að vera í lokahópnum sem fer á EM á Englandi. Hvort það mun takast þarf svo bara að koma í ljós.

Núna er ég bæði spennt og stressuð í bland en fyrst og fremst spennt að takast á við þetta verkefni með A-landsliðinu,“ bætti Hafrún við í samtali við Morgunblaðið.

Hópurinn fyrir Ítalíuferðina

MARK:

Sandra Sigurðardóttir, Val 34/0

Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Örebro, Svíþjóð 1/0

Telma Ívarsdóttir, Breiðabliki 0/0

VÖRN:

Hallbera Guðný Gísladóttir, AIK 117/3

Glódís Perla Viggósdóttir, Rosengård, Svíþjóð 89/6

Anna Björk Kristjánsdóttir, Le Havre, Frakklandi 43/0

Elísa Viðarsdóttir, Val 38/0

Guðrún Arnardóttir, Djurgården 8/0

Guðný Árnadóttir, Napoli, Ítalíu 8/0

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Breiðabliki 2/0

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Breiðabliki 0/0

MIÐJA:

Sara Björk Gunnarsdóttir, Lyon, Frakklandi 136/22

Dagný Brynjarsdóttir, West Ham, Englandi 90/29

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Orlando Pride, Bandaríkjunum 76/10

Alexandra Jóhannsdóttir, Eintracht Frankfurt, Þýskalandi 10/2

Andrea Rán Hauksdóttir, Le Havre, Frakklandi 10/2

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Bayern München, Þýskalandi 4/1

Berglind Rós Ágústsdóttir, Örebro, Svíþjóð 1/0

SÓKN:

Elín Metta Jensen, Val 54/16

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Le Havre, Frakklandi 48/6

Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki 33/2

Hlín Eiríksdóttir, Piteå, Svíþjóð 18/3

Sveindís Jane Jónsdóttir, Kristianstad, Svíþjóð 5/2