— Unsplash
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig væri að nota páskafríið til að setja upp svuntuna og galdra fram kræsingar? Morgunblaðið tíndi til spennandi uppskriftir við allra hæfi, hollar og minna hollar, fyrir vegan og kjötætur. Njótið! Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Hvernig væri að nota páskafríið til að setja upp svuntuna og galdra fram kræsingar? Morgunblaðið tíndi til spennandi uppskriftir við allra hæfi, hollar og minna hollar, fyrir vegan og kjötætur. Njótið!

Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Heslihnetutrufflur

Um 40 trufflur

130 g heslihnetur (þar af 10 g saxaðar smátt)

60 ml hlynsíróp, hreint

1 tsk. vanilludropar

½ tsk. salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

130 g dökkt súkkulaði, með hrásykri

130 g ljóst súkkulaði, með hrásykri

nokkrir molar hvítt súkkulaði, með hrásykri til að skreyta með

lófafylli kókosmjöl og nokkrir dropar rauðrófusafi til að skreyta með

Þurrristið heslihneturnar á heitri pönnu þar til hýðið fer að dökkna og losna af. Látið kólna, nuddið lausa hýðið af með fingrunum. Saxið 10 grömm af hnetunum smátt og setjið til hliðar.

Setjið 120 grömm af heslihnetunum á pönnu ásamt hlynsírópi og salti og hrærið vel. Látið hlynsírópið sjóða á meðalhita í 10-12 mínútur og hrærið oft, þangað til sírópið hefur dökknað og þykknað. Látið kólna í um 30 mínútur á pönnunni. Skafið ofan í matvinnsluvélarskál. Maukið í um 3-4 mínútur eða þangað til blandan fer að líkjast grófu hnetusmjöri. Setjið maukið til hliðar.

Bræðið ljósa súkkulaðið á lægsta hita yfir vatnsbaði með því að setja svolítið vatn í lítinn pott, setja svo gler- eða málmskál ofan á hann þannig að skálin sitji á brúnunum en snerti ekki vatnið.

Brjótið súkkulaðið í jafnstóra bita til að tryggja jafna dreifingu hitans og setjið ofan í skálina.

Takið skálina af hellunni, hrærið varlega og bætið heslihnetumaukinu út í. Hrærið vel. Ef blandan er nokkuð stíf má útbúa kúlur strax en ef hún er mjög mjúk má setja hana í grunnt og vítt plastbox og láta stífna í kæliskáp í um 30-45 mínútur.

Bræðið dökka súkkulaðið yfir vatnsbaði. Mótið litlar kúlur úr heslihnetumaukinu (ég nota pínulitla ískúluskeið) og dýfið svo í súkkulaði. Setjið á vírgrind (ef þið eigið svoleiðis) til að súkkulaðið renni aðeins af. Dreifið svolitlu af smátt söxuðu heslihnetunum yfir á meðan súkkulaðið er blautt. Áður en súkkulaðið storknar alveg skuluð þið færa trufflurnar yfir á disk og svo í kæliskápinn. Berið þær fram við stofuhita.

Bræða má hvítt súkkulaði til að skreyta trufflurnar með en einnig er gaman að hræra nokkrum dropum af rauðrófusafa í kókosmjöl, láta svo þorna og skreyta trufflurnar með því.

Frá cafesigrun.com.

Möndlu- og cashew-konfekt

Gerir um 30 kúlur

300 g cashewhnetur

100 g haframjöl

½ tsk. salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

½ tsk. kanill

3 msk. hreint hlynsíróp

1 tsk. vanilludropar úr heilsubúð

100 g dökkt súkkulaði með hrásykri

Setjið cashewhnetur, haframjöl, salt og kanil í matvinnsluvél og malið í um tvær mínútur eða þangað til mjög fínmalað en hvorki maukað né olíukennt.

Bætið hlynsírópi og vanilludropum út í og notið „pulse“-hnappinn um tíu sinnum.

Saxið súkkulaðið smátt og setjið út í matvinnsluvélina. Notið „pulse“-hnappinn aftur um 5-10 sinnum. Deigið á að haldast vel saman ef maður klípur það milli vísifingurs og þumalfingurs.

Mótið um 30 kúlur úr deiginu og geymið í kæliskáp.

Frá cafesigrun.com

Saltkaramellu nicecream

3 frosnir bananar

4-6 ferskar döðlur

½ dl hnetusmjör

1 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn

salt

Leyfið banönunum að þiðna í nokkrar mínútur til að hlífa matvinnsluvélinni/blandaranum.

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél/blandara og blandið þar til silkimjúkt. Ef illa gengur að blanda gæti þurft meiri vökva (það fer eftir tækjum).

Setjið blönduna í skálar og skreytið að vild, t.d. með hnetusmjöri, söxuðu súkkulaði, granóla, hnetum eða kókosflögum.

Frá graenkerar.is.

Súkkulaðigrautur

1 dós þykk kókosmjólk, nota allt innihald dósarinnar

2 dl haframjöl

½ dl chia-fræ

2 msk. kakó

1 tsk. vanilla

6-8 dropar stevía, eða örlítið hlynsíróp

1 dl plöntumjólk

salt, eftir smekk

Setjið öll hráefnin nema plöntumjólkina saman í hrærivél og hrærið í um 10 mínútur.

Bætið þá plöntumjólkinni út í og hrærið áfram í um 10-20 mínútur. Með því að hræra svona vel verður grauturinn léttur og loftkenndur.

Geymið í ísskáp í um klukkutíma eða yfir nótt.

Frá graenkerar.is.

Vetrarkínóasalat

Fyrir 2 sem léttur hádegisverður eða fyrir 4 sem meðlæti á páskaborðið

400 g kínóa-korn

½ grænmetisteningur án gers

450 g rauðrófur (3 litlar)

1 granatepli

60 g pistachio-hnetur, skelflettar

1 mangó

100 g spínat eða spínatkál (takið stilkana af)

100 g fetaostur í saltvatni

Skolið kínóakornið í fíngata sigti. Látið vatnið renna af og setjið svo kornið í pott. Hellið vatni út á þannig að fljóti vel yfir og sjóðið ásamt grænmetisteningnum í um 15 mínútur. Látið kólna á hellunni á meðan þið útbúið hitt.

Afhýðið rauðrófurnar, skerið í bita og gufusjóðið í um 30 mínútur. Einnig má setja þær í djúpa pönnu og setja botnfylli af vatni og sjóða með lokinu á. Hellið svo vatninu af þeim og setjið til hliðar.

Skerið granateplið og losið fræin.

Skelflettið pistachio-hneturnar og saxið gróft.

Skerið mangóið í bita.

Skolið spínatið eða spínatkálið.

Setjið spínat á stóran grunnan disk. Setjið kínóakornið ofan á. Raðið rauðrófum, granateplafræjum, pistachio-hnetum og mangóbitum ofan á og blandið mjög varlega svo rauðrófurnar liti ekki allt annað.

Að lokum skuluð þið dreifa fetaostinum yfir, í bitum. Frábært eitt og sér eða sem meðlæti.

Frá cafesigrun.com.

Hátíðarhnetusteik

Fyrir 4-6

1 laukur

2 hvítlauksrif

400 g gulrætur

1 pakki sveppir

200 g kartöflur

200 g rauðar linsubaunir, þurrar

4 dl vatn

1 grænmetisteningur

1 sveppateningur

1 msk. tómatpúrra

1,5 msk. tamarisósa

1 tsk. hlynsíróp

100 g hakkaðar heslihnetur

1,5-2 dl haframjöl, glútenlaust ef vill

100 g pekanhnetur

1 stór stilkur ferskt rósmarín

1 msk. ferskt timjan, (garðablóðberg)

2 stór blöð fersk salvía, (um 6 lítil)

½ tsk. karrí

salt og pipar

Rífið grænmetið (lauk, hvítlauk, gulrætur, sveppi og kartöflur) niður á rifjárni eða skerið smátt niður.

Setjið linsubaunirnar í sigti og skolið.

Saxið hneturnar og þurrristið á pönnu. Hrærið vel í hnetunum og passið að þær brenni ekki. Setjið þær svo til hliðar.

Saxið fersku kryddjurtirnar smátt niður.

Mýkið lauk og hvítlauk á stórri pönnu/potti upp úr olíu þar til laukurinn brúnast.

Bætið grænmetinu út í og steikið þar til sveppirnir hafa mýkst.

Bætið vatni og linsubaunum út á pönnuna og látið malla í 10 mín. Fylgist vel með blöndunni og hrærið í henni. Reynið að bæta ekki við meira vatni nema nauðsynlegt sé.

Meðan blandan mallar er grænmetis- og sveppateningi bætt út í ásamt tómatpúrru, tamarisósu, hlynsírópi og þurrkuðu kryddi (karrí).

Þegar 10 mínútur eru liðnar frá því að linsubaunirnar voru settar á pönnuna, er ristuðu hnetunum bætt út í ásamt ferska kryddinu. Á þessu stigi er gott að smakka blönduna til og bæta við kryddi eftir smekk. Blandan er látin malla í 5 mín.

Loks er haframjölinu bætt út í. Deigið á nú að vera orðið mjög þykkt og ekki á að vera hægt að hella því. Ef deigið er of blautt þarf að bæta meira haframjöli við.

Stórt brauðform er klætt með bökunarpappír og allt úr pottinum/pönnunni er sett ofan í formið og dreift vel úr því. Formið er klætt með álpappír og svo sett inn í ofn við 180°C í klukkutíma. Síðustu 10-15 mín. er álpappírinn tekinn af forminu til að baka yfirborðið.

Þegar hnetusteikin er komin úr ofninum er henni leyft að kólna örlítið og svo er henni hvolft á disk eða bakka.

Frá graenkerar.is.

Hægeldað lambalæri

Fyrir 8

1 lambalæri, ca 3 kíló

ólífuolía

lambakjötskrydd

salt og pipar

2 sætar kartöflur

12 kartöflur

6 gulrætur

1 paprika

2 rauðlaukar

2 hvítlaukar (ég notaði solo-hvítlauka sem koma í heilu)

piparkorn

600 ml vatn

Hitið ofn í 80-100 gráður undir- og yfirhita. Snyrtið lærið, skolið og þerrið. Berið á það ólífuolíu og kryddið með lambakjötskryddi, salti og pipar. Flysjið kartöflur, sætar kartöflur og gulrætur og skerið í mátulega bita, frekar litla. Skerið einnig laukinn, papriku og hvítlaukinn. Raðið öllu í botninn á steikarpotti, hellið vatninu yfir, bætið dálitlu af piparkornum út í og leggið lærið yfir grænmetið. Lokið steikarpottinum og steikið í ca sex til sjö tíma við 80-100 gráður. Best er að stinga kjöthitamæli í lærið. Þegar það hefur náð 60-65 gráðu kjarnhita er lærið tilbúið. Þegar steikingartíminn er liðinn er gott að taka lokið af pottinum og stilla ofninn á 220 gráður og grill. Þannig er lærið grillað í ca 10 mínútur eða þar til puran er orðin dökk og stökk.

Á meðan lærið jafnar sig áður en það er skorið niður og lokið er við sósugerð er hægt að setja grænmetið í ofnskúffunni inn í ofninn við 200-220 gráður og baka það í ca 10 mínútur eða þar til það er alveg eldað í gegn.

Sósa

Síið vökvann í ofnpottinum frá kartöflunum og grænmetinu. Gott er að fleyta mestu fituna ofan af vökvanum. Því næst er útbúin smjörbolla.

40 g smjör

40 g hveiti

3 dl rjómi

2-3 tsk. lambakraftur (eða nautakraftur)

2 tsk. rifsberjahlaup

1 msk. sojasósa

sósulitur

salt og pipar

Bræðið smjörið í potti og þeytið hveitinu saman við. Því næst er síaða vökvanum bætt út í smjörbolluna smátt og smátt á meðalhita og pískað vel á meðan. Þá er rjómanum bætt út í auk lambakrafts og sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi og sojasósu. Ef sósan er þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara.

Frá eldhussogur.com.

Naut með chili-bearnaise og frönskum

Fyrir 2

2 entrecôte-steikur (ca. 1 steik eða 200-250 g á mann)

salt og nýmalaður pipar

ólífuolía

rósmaríngrein

1 hvítlaukur

Hitið ólífuolíu á pönnu, steikið kjötið við háan hita í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Kryddið til með salti og pipar. Gott er að setja rósmaríngrein og hvítlauksrif út á pönnuna rétt í lokin ásamt smjörklípu. Leyfið kjötinu að hvíla í 5 mínútur áður en þið berið það fram.

Bearnaise-sósa

5 eggjarauður

250 g smjör, skorið í teninga

1 msk. bernaise-essence

2-3 tsk. fáfnisgras, smátt saxað

salt og nýmalaður pipar

Bearnaise-essence

1 dl hvítvínsedik

8 svört piparkorn

2 tsk. fáfnisgras

3 skalottlaukar, smátt saxaðir

½ rautt chili, smátt skorið

Setjið hvítvínsedik, skalottlauk, fáfnisgras, chili og svört piparkorn í pott og sjóðið saman þar til 1 msk. af vökva er eftir. Sigtið vökvann og geymið til hliðar.

Sósan

Þeytið eggjarauður yfir vatnsbaði og bætið smjörinu smám saman við, þetta er smá handavinna en er vel þess virði. Ef skálin er of heit takið þið hana af vatnsbaðinu og kælið, en haldið alltaf áfram að hræra. Það er mjög mikilvægt að skálin sé ekki of heit því annars eldast eggjarauðurnar. Bragðbætið með bearnaise-essence, salti og pipar.

Gott er saxa niður ferskt fáfnisgras og chili og sáldra yfir sósuna rétt í lokin.

Franskar kartöflur

bökunarkartöflur

ólífuolía

salt

Skerið bökunarkartöflurnar í jafn þykka strimla og leggið í ískalt vatn í nokkrar mínútur. Þerrið kartöflurnar mjög vel og leggið í eldfast mót eða á pappírsklædda ofnplötu.

Bakið við 180°C í 30-35 mínútur eða þar til kartöflurnar eru gullinbrúnar. Snúið kartöflunum einu sinni til tvisvar á meðan þær eru í ofninum.

Frá evalaufeykjaran.is.