Rústir Brunarústir hússins við Bræðraborgarstíg í Reykjavík.
Rústir Brunarústir hússins við Bræðraborgarstíg í Reykjavík. — Morgunblaðið/Eggert
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í gær tillögur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) að úrbótum í brunavörnum í íbúðum og öðru húsnæði þar sem fólk hefur búsetu sem unnar voru í samráði við...

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í gær tillögur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) að úrbótum í brunavörnum í íbúðum og öðru húsnæði þar sem fólk hefur búsetu sem unnar voru í samráði við hagaðila. Hann fól HMS að koma með tillögur að úrbótum í málaflokknum vegna brunans á Bræðraborgarstíg í Reykjavík í júní í fyrra, þar sem þrír létust.

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins, að tillögur HMS kveði meðal annars á um að íbúðarhúsnæði verði ekki tekið í notkun nema fari fram öryggisúttekt og skilgreindar verði sérstakar stöðuskoðanir byggingarfulltrúa og slökkviliðs vegna brunavarna í opinberu byggingaeftirliti.

Heimildir fjöldaskráningar lögheimilis í íbúðarhúsnæði verða endurskoðaðar ásamt því að skráningarskylda leigusamninga verður lögfest og mismunandi tegundir útleigu skilgreindar. Einnig er lagt til að óleyfisbúseta verði kortlögð með ítarlegum hætti. Metið verður hvort og í hvaða mæli heimila skuli með lögum tímabundna aðsetursskráningu og búsetu í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir kröfur um öryggi.