Sveinbjörn Jónsson
Sveinbjörn Jónsson
Eftir Sveinbjörn Jónsson: "Teningar eða einhvers konar tilviljanakenndur útdráttur úr þjóðskrá eða öðrum gagnabönkum gætu í mörgum tilfellum gagnast þjóðinni betur."

Undanfarin ár hefur færst í vöxt að langskólagengið fólk, sem ekki fær vinnuna sem það langar í og getur sýnt fram á, með vitnisburði annars langskólagengins fólks, að horft hafi verið fram hjá hæfni þess, reynslu, menntun eða jafnvel kyni, sæki sér skaðabætur í vasa skattgreiðenda. Þetta er að sjálfsögðu gert í samræmi við regluverk og kerfi sem búin eru til af öðrum sérfræðingum og samþykkt af Alþingi þjóðarinnar sem hefur um nokkurt skeið mestmegnis verið mannað skólabræðrum og skólasystrum viðkomandi sérfræðinga. Enginn virðist sjá nein hagsmunatengsl í þessu fyrirkomulagi og fórnarlömbin, þ.e. skattgreiðendur, hafa sig lítið í frammi, muldra í mesta lagi meðan fréttin er ný en eru svo fljót að gleyma. Undanfarið hefur hins vegar verið svo mikil samfella í viðburðum af þessu tagi að erfitt hefur verið að gleyma þeim og sýnist mér að hér sé á ferðinni enn einn speninn á ríkissjóði sem svokölluðum sérfræðingum hefur tekist að koma þar fyrir til að sjúga.

Það er okkur í fersku minni að lögfræðingar, sem nýlega höfðu fengið þriðju jötuna til að raða sér á, gerðu þetta fyrirkomulag að íþrótt sem vakti athygli á þjóðinni á heimsvísu og skapaði einnig mjög mikið starf annarra lögfræðinga við að leysa úr flækjunum, sem vonandi lýkur einhvern tíma. Undirritaður hefur engan áhuga á að blanda sér í réttmæti stöðuveitinga og starfa hins opinbera á ofangreindum forsendum og telur jafnvel að teningar eða einhvers konar tilviljanakenndur útdráttur úr þjóðskrá eða öðrum gagnabönkum gætu í mörgum tilfellum gagnast þjóðinni betur en flókin og óljós regluverk og rándýrar nefndir.

Ein myndin enn af sama meiði birtist þegar opinberum starfsmönnum er sagt upp klúðurslega af yfirmönnum sínum. Oft virðist sem ástæðurnar séu tilviljanakenndar eða pólitískar og megi þess vegna skoðast sem mistök eða valdníðsla af hálfu stjórnandans. Það er hins vegar í fæstum tilfellum hann eða hún sem borgar brúsann enda stutt í ríkissjóð til að bæta skaðann.

Mér virðist að vöxturinn í þessari „atvinnugrein“ sé orðinn svo hraður að þess verði ekki langt að bíða að neikvæðra áhrifa fari að gæta á ráðstöfun skattatekna þjóðarinnar til heilbrigðismála, menntamála, samgöngumála og tryggingamála ef svo heldur fram sem horfir. Enda hljóta allir að sjá að uppsprettan sú er ekki sjálfbær svo notað sé eitt af tískuorðum sérfræðinga um þessar mundir.

Það er líklega að bera í bakkafullan lækinn að taka eitt dæmi enn sem fjallar um smáræði sem nokkrir fyrrverandi sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar sóttu sér nýlega til hins opinbera í skaðabætur vegna uppsagnar úr starfi enda um hjóm að ræða samanborið við það tjón sem stofnunin hefur valdið þjóðinni á undanförnum áratugum. Nokkrir milljónatugir af krónum segja lítið við hliðina á allmörgum milljónum tonna sem fuðrað hafa upp í lífríki hafsins vegna langvarandi vannýtingar þorsks.

Nú þorskurinn þjáður af mæðu

þyrfti að ná sér í fæðu.

Því rýrt var í sumar

um rækju og humar

og ræfill af síli og kræðu.

Það hendir oft blessaðan bjálfann

að berjast um matarskammt hálfan,

þrá eitthvað feitt,

en þykja svo leitt

að þurfa að éta sig sjálfan.

Að ofangreindu sögðu vil ég leyfa mér að endurvekja spurningu sem ég bar fram fyrir allmörgum árum og fékk engin svör við, sem á reyndar við um flestar spurningar mínar til sérfræðinga þjóðarinnar hingað til. Ástæður spurningarinnar eru tvær. Annars vegar, að því er virðist, sjálfvirkur réttur til bóta og hins vegar vernduð sérréttindi sérfræðinga, með tilheyrandi frelsisskerðingu annarra, til að veita ákveðna þjónustu þó svo reynslan af ráðgjöf þeirra sé algjört klúður.

Af fyrrnefndum dæmum dreg ég þá ályktun að einhverjir sérfræðingar líti á menntun sína sem fötlun og ættu þar af leiðandi að svara spurningu minni játandi. Ég skal fúslega viðurkenna að það mundi auka virðingu mína fyrir þeim verulega og væntanlega stuðla að meiri tillitssemi af minni hálfu í þeirra garð.

Er menntun fötlun?

Lifið heil.

Höfundur er sjómaður og ellilífeyrisþegi. svennij123@gmail.com

Höf.: Sveinbjörn Jónsson