Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Þetta stöðuga og jafna flæði kviku kemur mest á óvart í þessu eldgosi,“ sagði Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands, um eldgosið í Geldingadölum.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Þetta stöðuga og jafna flæði kviku kemur mest á óvart í þessu eldgosi,“ sagði Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands, um eldgosið í Geldingadölum. Í gærkvöld var vika liðin frá því að eldgosið hófst. Hann rifjaði upp hvernig orðræðan var fyrir gosið og eftir að það hófst. Samkvæmt því hefði gosið átt að standa stutt.

„Gosið hefur haldið áfram meira og minna á sama róli frá því það hófst. Kvikan er mjög heit og hún er farin að bræða innan úr gosrásinni. Þá kemst upp meiri kvika en þetta veldur því líka að gosrásin verður stöðugri. Það er engin spenna í jarðskorpunni sem ýtir á að loka henni,“ sagði Ármann.

Hann sagði það koma mjög á óvart hvað kvikan er heit. „Kvikan sem kom upp í byrjun var 1.220-1.240°C heit. Við höfum aldrei áður séð jafn heitt efni koma upp í eldgosum á Íslandi,“ sagði Ármann.

Hann sagði að nú hefðu myndast hrauntjarnir í gígunum og einnig í hrauninu þar sem nýja kvikan blandast eldri kviku. Sú blanda er 1.160-1.180°C heit. Það stefnir í að dalurinn þar sem gýs muni fyllast af hrauni. Það nær ekki að storkna vegna kvikunnar sem streymir að jafnt og þétt og þarna er hægt og rólega að myndast risastór hrauntjörn.

Ármann telur að héðan af þurfi að verða einhver breyting efst í jarðskorpunni, t.d. vegna jarðskjálfta, til að loka gosrásinni. Áætlað er að hún sé 1-2 metrar í þvermál efst en víkki eftir því sem neðar dregur.

„Það er ekkert að trufla gosrásina eins og hún er núna. Kvikan bara flæðir upp. Þess vegna getur þetta endað eins og eldfjöllin Stromboli á Ítalíu eða Villarica í Síle. Það eru víðar svona göt á jarðskorpunni sem ná niður í möttul og þau eiga það sameiginlegt að kvika kemur þar stöðugt upp en hægt og rólega,“ sagði Ármann.

Hann sagði þetta vera mjög frábrugðið eldfjöllum eins og t.d. Heklu, þar sem kvika safnast í hólf sem svo léttir á sér í eldgosi.