Skíði Hægt er að virða tveggja metra regluna á gönguskíðum.
Skíði Hægt er að virða tveggja metra regluna á gönguskíðum. — Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Áður en stjórnvöld gripu til aukinna sóttvarnaráðstafana fyrr í vikunni stóð mikið til á hótelunum á Ísafirði, Siglufirði og Akureyri nú um helgina og út páskavikuna. Von var á fjölda ferðamanna í margs konar afþreyingu. „Við áttum von á sextíu konum á skíðagöngunámskeið í gær [á fimmtudaginn] sem við afboðuðum snarlega þegar samkomutakmarkanir voru hertar. Svo voru hótelin okkar öll fullbókuð í páskavikunni fram undan. Fossavatnsgöngunni hefur verið aflýst. Ennfremur var tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður aflýst, þannig að hér verður nánast allt tómt,“ segir Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, hótelstjóri á Hótel Ísafirði, sem einnig rekur Hótel Horn og Gamla gistihúsið á Ísafirði.

Högg að missa viðskiptin

Hún segir að það sé högg fyrir fyrirtækið að missa þessi viðskipti. „Enn er kannski helmingur bókana inni fyrir páskana en þetta setur strik í reikninginn. Við vonum þó að fólk komi til að fara á gönguskíði og hafi sjálft ofan af fyrir sér. Maður er manns gaman. Fólk getur komið, hreyft sig og haldið sig í sínum „kúlum“. Veitingastaðurinn okkar verður opinn með takmörkunum. Maður reynir að vinna úr því sem maður hefur og gera gott úr því.“

Fyrir utan sumarið er páskavikan aðaltími ársins fyrir Hótel Ísafjörð. „Þá eru venjulega allir gististaðir fullir, allt upp í fimm daga. Brottfluttir Ísfirðingar streyma að, krakkar koma heim í skólafrí og bærinn fyllist af öðrum gestum. Bærinn iðar af lífi og legið er á öllum fletum um allan bæ.“

Hún segir að hin vinsælu skíðagöngunámskeið sem hótelið hefur staðið að hafi gengið vel frá áramótum. „Þau halda í okkur lífi á veturna og við getum ekki kvartað þótt þetta sé nú að gerast á síðustu metrunum,“ bætir Hólmfríður við.

„Við erum bjartsýn á að það lifni yfir hlutunum þegar fer að vora og við náum að ráða niðurlögum faraldursins. Við stefnum ótrauð á að fylla öll rúmin okkar í sumar.“

Svipað og í upphafinu

Aron Pálsson, hótelstjóri á Hótel KEA á Akureyri, segir að upplifunin nú sé svipuð og í upphafi faraldursins fyrir ári. „Þetta hefur kannski ekki áhrif jafn langt fram í tímann og þá var. Helgin núna var fullbókuð en er dottin út. Við áttum von á hátt í 200 gestum.“

Aron segir að vel hafi gengið að undanförnu og mikið hafi selst af „pökkum“ sem hótelið býður og mikil ánægja sé með. „Við höfum afbókað þá pakka sem voru í boði um næstu helgi.“

Pakkarnir sem Aron nefnir eru fjallaskíða-, gönguskíða- og alpagreinanámskeið, ásamt samstarfi hótelsins við Bjórböðin á Ársskógssandi. „Það er búið að vera fullbókað í alla pakka í allan vetur. Þetta var í raun síðasta helgin í bili sem við buðum upp á marga pakka um sömu helgi.“

Hann segir Hótel KEA stíla inn á helgarnar í sinni markaðssetningu enda sé minna streymi ferðamanna norður yfir vetrartímann á virkum dögum. „Við höfum boðið mikla dagskrá fyrir Íslendinginn sem hefur tekið henni vel. Við erum stressuð fyrir sumrinu og þurfum á því að halda að allt gangi vel,“ bætir Aron við og segir að hann styðji sóttvarnaaðgerðirnar enda muni vonandi allir njóta góðs af þeim til lengri tíma. Það sama sögðu aðrir hótelstjórar við Morgunblaðið.

Spurður um fleiri pakkatilboð í vor og sumar segir Aron að boðið verði upp á fjallaskíðanámskeið í maí og áframhald á samstarfinu við bjórböðin. „Annars vonumst við bara eftir góðu veðri í sumar. Þá kemur fólk til Akureyrar.“

Gríðarlegt áfall

Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, hótelstjóri á Sigló hóteli á Siglufirði, segir að samkomubannið núna sé gríðarlegt áfall fyrir hótelið. „Við sáum fram á góða tíð. Það var fullbókað allar helgar út maí og vel bókað á virkum dögum einnig. Við sjáum þetta núna að miklu leyti fjara út næstu tvær vikur. Það eru samt einhverjar bókanir og hótelið verður opið.“

Allir sem væntanlegir voru í stærri hópum hafa afboðað sig og eins þeir sem ætluðu að sækja skíðasvæðið. „Það koma kannski hjón og minni fjölskyldur. Þetta er högg. Hótelið var fullbókað nú um helgina. Við eigum enn eftir að sjá hvernig páskarnir verða.“

Hún segir að hótelið hafi verið búið undir annasama tíma á næstunni og ráðið inn fólk. Nú verður einhver bið á að það geti hafið störf. „Við tökum þessu samt eins og hverju öðru hundsbiti og erum bjartsýn á vorið og sumarið. Ég hvet bara fólk til að ferðast innanlands í sumar og hjálpa okkur þannig í gegnum þetta þegar aðstæður leyfa.“