Íslandsstofa fylgist grannt með umfjöllun erlendra fjölmiðla um Ísland. Eftir að eldgosið hófst fyrir viku rauk umfjöllunin upp líkt og gosið sjálft, samanber meðfylgjandi línurit hér til hliðar.

Íslandsstofa fylgist grannt með umfjöllun erlendra fjölmiðla um Ísland. Eftir að eldgosið hófst fyrir viku rauk umfjöllunin upp líkt og gosið sjálft, samanber meðfylgjandi línurit hér til hliðar. Í gær hafði verið minnst á gosið í nærri 11 þúsund umfjöllunum, þar af um 1.200 sinnum í stórum miðlum.

Kristjana Rós Guðjohnsen, fagstjóri almannatengsla hjá Íslandsstofu, segir mesta umfjöllun hafa verið í Bandaríkjunum, eða 38%, og þar á eftir koma Þýskaland, Ástralía og Bretland. „Mikið af stórbrotnu myndefni hefur birst í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum sem að hjálpar okkur að miðla þessum fréttum út í heim,“ segir Kristjana.

Hún segir marga hafa verið duglega að birta myndefni á samfélagsmiðlum af eldgosinu. Tekur þar dæmi af frægu myndbandi Björns Steinbekk sem hefur ratað í stóra miðla á borð við Daily Mail og ITV News , auk þess sem stórleikarinn Will Smith deildi því á sinni instagramsíðu.

„Okkar fyrstu viðbrögð eru að koma á framfæri upplýsingum um eldgosið og setja það í samhengi fyrir almenning erlendis, það skiptir máli að skilaboðin séu skýr um að gosið sé lítið og að fólki eða innviðum stafi ekki hætta af því og það hafi ekki áhrif á flug,“ segir Kristjana enn fremur en Íslandsstofa á einnig náið samstarf við utanríkisráðuneytið um alla upplýsingamiðlun. bjb@mbl.is