Eldgosið í Geldingadölum hefur heillað Íslendinga og þá fáu erlendu ferðamenn sem eru á landinu. Að mörgu er að hyggja áður en lagt er af stað á gosstöðvarnar.
Eldgosið í Geldingadölum hefur heillað Íslendinga og þá fáu erlendu ferðamenn sem eru á landinu. Að mörgu er að hyggja áður en lagt er af stað á gosstöðvarnar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Eldgosið í Fagradalsfjalli, einnig kennt við Geldingadali, hefur nú staðið yfir í rúma viku.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Eldgosið í Fagradalsfjalli, einnig kennt við Geldingadali, hefur nú staðið yfir í rúma viku. Tugþúsundir Íslendinga og ferðamanna hafa barið gosið augum og viðbragðsaðilar búa sig undir enn meiri aðsókn yfir páskadagana fram undan.

Almennt stendur ekki til að loka aðgengi að gosinu, nema í óveðri eða mikilli gasmengun. Kórónuveiran hefur líka sín áhrif og hafa Almannavarnir biðlað til fólks að gæta að sóttvörnum, halda fjarlægð á milli og vera með grímu og hanska. Fólk í sóttkví á ekki að fara að gosinu.

Að öðru leyti er svo mikilvægt að fara vel útbúinn á svæðið og fylgja leiðbeiningum lögreglu og björgunarsveitarmanna sem vakta svæðið allan sólarhringinn. Hundruð manna hafa komið þar að verki og sumir átt svefnlitlar nætur.

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hefur stikað gönguleiðir að gosinu (sjá kort) og búist er við að gera þurfi þriðju gönguleiðina eftir því sem gosinu vindur fram og vindáttir breytast. Ferðafélag Íslands hefur sett á sinn vef (www.fi.is) hagnýtar leiðbeiningar fyrir þá sem hyggja á gönguferð að gosinu. Meðfylgjandi kort byggist að hluta á þeim upplýsingum.

Bæta á bílastæðamálin

Ferðamálastofa setti upp teljara við gönguleiðina að gosinu sl. miðvikudag. Í lok dags sýndi hann nærri 5.000 manns og daginn eftir um 1.200 manns. Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, telur að enn fleiri hafi séð gosið þessa daga þar sem talningin sé ekki alveg nákvæm. Hún gefi þó ágæta vísbendingu.

„Þetta er búin að vera strembin vika. Það gerði okkur erfitt fyrir að Suðurstrandarvegur er laskaður en Vegagerðin hefur lagað veginn. Í framhaldi af því ættum við að geta opnað veginn í báðar áttir. Við vonumst til að geta lagað bílastæðamálin fyrir páska,“ segir Hjálmar. Lögreglan á Suðurnesjum hefur aukið viðbúnað sinn og bætt við mannskap, einnig fengið aðstoð frá umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra.

Mikið hefur mætt á Björgunarsveitinni Þorbirni. Formaðurinn Bogi Adolfsson, sem einnig er sjúkraflutningamaður, hefur lítið sofið að undanförnu. „Þetta er eins og ef þyrla myndi hrapa í bakgarðinum hjá þér, það verða einhver læti,“ segir Bogi, spurður hvernig það var að fá eldgosið í fangið í nágrenni Grindavíkur. „Annars höfum við horft á þetta í lausnum, ekki vandamálum. Aðalmálið er að allir passi sig, búi sig vel til göngunnar og hugi að sóttvörnum.“