[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á náttborðinu liggja þrjár bækur: Karamazovbræðurnir eftir Fjodor Dostojevskíj, Sorgargondóll eftir Tómas Tranströmer og Faire l'Amour eftir Jean-Philippe Toussaint.

Á náttborðinu liggja þrjár bækur: Karamazovbræðurnir eftir Fjodor Dostojevskíj, Sorgargondóll eftir Tómas Tranströmer og Faire l'Amour eftir Jean-Philippe Toussaint. Þær tvær fyrrnefndu fékk ég sendar frá Íslandi og reyndust báðar vera í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur. Hún er í mínum huga mikill meistari. Sorgargondól las ég fyrir nokkrum árum í þýðingu Njarðar P. Njarðvík og það er undarleg tilfinning að lesa hálfgleymt ljóð í nýrri þýðingu. Báðar þýðingar eru góðar. Þriðja bókin er belgísk skáldsaga frá 2003 um samband sögumanns og konu að nafni Marie Madeleine Marguerite de Montalte. Sagan gerist á sólarhring í Tókíó. Þetta er fyrsta bókin í fjórleik, höfundurinn hlaut Medici-verðlaunin 2005 fyrir aðra bókina. Kunningi lánaði mér hana, mér finnst hún góð.

Nýlega las ég Yosoy: Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss frá 2005 eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Mjög skemmtileg bók. Ýmsir aðilar koma saman af ýmsum ástæðum og setja upp hryllingsleik. Margar áhugaverðar persónur. Bókin rímar vel við nýrri verk Guðrúnar, sér í lagi Aðferðir til að lifa af frá 2019.

Bókin sem ég bíð eftir er framhaldið af Örlagaborginni – Brotabrot úr afrekasögu frjálshyggjunnar – fyrri hluti , eftir Einar Má Jónsson. Hún kom út 2012, hafði mikil áhrif á mig og á mikið erindi við samtímann.

Mér skilst að Einar Már sé að vinna í framhaldinu og veit að ég er ekki einn um að bíða spenntur.