Samstíga Kára og Þórólf greinir yfirleitt ekki á.
Samstíga Kára og Þórólf greinir yfirleitt ekki á.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, kvað skáldið. Þannig þýðir þessi nýja bylgja kórónuveirufaraldursins að við fáum að sjá meira af okkar klárasta manni á næstunni, Kára Stefánssyni.

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, kvað skáldið. Þannig þýðir þessi nýja bylgja kórónuveirufaraldursins að við fáum að sjá meira af okkar klárasta manni á næstunni, Kára Stefánssyni. Þegar ný tíðindi verða í faraldrinum fer jafnan sama ferlið af stað; fyrst talar ríkisstjórnin alvörugefin við þjóðina úr púlti, síðan þríeykið og strax að því loknu rjúka fjölmiðlar í símann og hringja í Kára til að fá hann til að votta þær aðgerðir sem gripið hefur verið til.

Ég hafði, eins og fleiri, ofboðslega gaman af Kára og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni í Kastljósinu í vikunni. Þeir eru eins og gömul hjón. Kári var algjörlega sammála Þórólfi um allt en gat samt ekki stillt sig um að vita örlítið betur. Það var samt ekki bara stoltið sem bauð honum að gera smávægilegan ágreining við Þórólf, heldur ekki síður tillitssemi við áhorfendur. Í máli hans kom sum sé fram að það væri kolómögulegt sjónvarp ef þeir Þórólfur væru gjörsamlega sammála um allt. Þegar hér var komið sögu skellti stjórnandi þáttarins, Einar Þorsteinsson, upp úr.

Vel fór á því enda hefur Kári sýnt og sannað í þessum hvimleiða heimsfaraldri að hann er ekki aðeins okkar klárasti vísindamaður, heldur ekki síður einn af okkar allra bestu skemmtikröftum.

Orri Páll Ormarsson

Höf.: Orri Páll Ormarsson