Orri Páll Ormarsson
Orri Páll Ormarsson
Orri Páll Ormarsson, blaðamaður hjá Morgunblaðinu, hlaut Blaðamannaverðlaun BÍ fyrir viðtal ársins. Þetta var tilkynnt í beinu streymi Blaðamannafélags Íslands í gær. Viðtalið tók Orri Páll við Ingva Hrafn Jónsson og birtist það í blaðinu 12. júlí 2020.

Orri Páll Ormarsson, blaðamaður hjá Morgunblaðinu, hlaut Blaðamannaverðlaun BÍ fyrir viðtal ársins. Þetta var tilkynnt í beinu streymi Blaðamannafélags Íslands í gær.

Viðtalið tók Orri Páll við Ingva Hrafn Jónsson og birtist það í blaðinu 12. júlí 2020. Þar ræðir Ingvi Hrafn um andlát bróður síns, Jóns Arnar Jónssonar, og þá ákvörðun hans að þiggja dánaraðstoð í Kanada. Í umsögn dómnefndar um viðtalið segir að þar sé „dregin upp ný hlið á annars þjóðþekktum manni. Ingvi Hrafn ræðir bróðurmissi á liðnu ári og þau djúpstæðu áhrif sem ákvörðun bróður hans um að þiggja dánaraðstoð hafði á hann. Í framhaldinu fjallaði Orri Páll nánar um dánaraðstoð og dýpkaði með umfjöllun sinni umræðu um þetta viðkvæma mál.“

Þórhildur Þorkelsdóttir hjá RÚV hlaut blaðamannaverðlaun ársins fyrir vönduð fréttatengd viðtöl þar sem sjónum er beint að einstaklingum í erfiðum aðstæðum. Ritstjórn Kjarnans var verðlaunuð fyrir umfjöllun ársins um eldsvoðann á Bræðraborgarstíg 1 og margháttaðar afleiðingar hans. Nadine Guðrún Yaghi, Stöð 2, var verðlaunuð fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins fyrir umfjöllun um umfangsmikil og afdrifarík mistök sem gerð voru við greiningar á leghálssýnum hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.