Jarðeldar hófust í Geldingadölum á Reykjanesskaga fyrir liðna helgi. Íslenskur almenningur lét sig ekki vanta í náttúruhamfarirnar, þó sumir kvörtuðu undan því að þangað hefði hvorki verið gerður vegur mé mathöll samdægurs.
Jarðeldar hófust í Geldingadölum á Reykjanesskaga fyrir liðna helgi. Íslenskur almenningur lét sig ekki vanta í náttúruhamfarirnar, þó sumir kvörtuðu undan því að þangað hefði hvorki verið gerður vegur mé mathöll samdægurs. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vikan hófst með hvelli, þó strangt til tekið hafi sá hvellur komið á föstudagskvöldi.

Vikan hófst með hvelli, þó strangt til tekið hafi sá hvellur komið á föstudagskvöldi. Þrátt fyrir að eldsumbrota hafi í og með verið vænst og það í bakgarði höfuðborgarinnar, virtist vera fössari í mannskapnum og ekki allir með á nótunum fyrr en gosið hafði á annan tíma.

Gosið hófst í sprungu í Geldingadölum sunnan Fagradalsfjalls, ekki ýkja stórt, og í fyrsta sinn sem gýs á þeim slóðum í um 800 ár. Þar myndaðist skjótt strýta um gíginn og gosið tilkomumikið að sjá, en óhætt að fara nokkuð nærri því þó ekki væri vandalaust að komast að því.

Þyrluþjónusta í höfuðborginni lifnaði skyndilega við og hafði ekki undan að fara með fólk í útsýnisflug yfir gosstöðvarnar , en jafnframt lögðu þúsundir land undir fót og fylltu netið af sjálfumyndum af sér og gosinu. Þar á meðal var ungur maður sem bauð kærustunni með sér, lét lenda við hraunjaðarinn og bað hennar. Hún sagði já.

Ferðaþjónustan vonaðist til þess að gosið myndi gagnast fleirum en þyrlusamfélaginu og komu gosmyndum á framfæri í von um aukinn áhuga tilvonandi ferðamanna á landinu. Af erlendum fjölmiðlum að dæma var áhuginn á gosinu þó fremur hóflegur.

Eins og borgarskáldið Tómas Guðmundsson benti á væri landslag lítils virði, ef það héti ekki neitt. Þegar hófst því lífleg umræða um nafngiftir, en flestar báru tillögurnar með sér að mönnum þættu eldsumbrotin í minna lagi: Litla-Hraun, Ræfill og Geldingur voru þar á meðal.

Brasilískt súrálsskip kom til hafnar í Reyðarfirði, en helmingur áhafnarinnar var smitaður af kórónuveirunni.

Foreldar úr Fossvogsskóla fóru í vettvangsferð í Korpuskóla, þar sem börn þeirra áttu að sækja skóla eftir að Fossvogsskóli var loks rýmdur vegna myglu. Í Korpuskóla voru þó miklar rakaskemmdir hið fyrsta sem við blasti. Ráðhúsið sendi frá sér tilkynningu um að þar hefði engin mygla fundist, en borgarstjóri hefur ekki heldur fundist.

·Jarðfræðingar fundu vísbendingar um að gosið í Geldingadölum væri dyngjugos og hraunið úr frumstæðri kviku á miklu dýpi. Dyngjugos geta varað árum og áratugum saman. Varað var við gasmengun, sem gæti fylgt gosinu.

Almenningur hélt áfram að sækja í gosið, en þar á meðal voru ýmsir sem voru afleitlega búnir til þess og óvanir slíkum göngum. Þurfti fyrir vikið að koma á annað hundrað manns til aðstoðar í villum og vandræðum myrkrinu. Björgunarsveitin Þorbjörn frá Grindavík stikaði því bestu gönguleiðina.

Nær öll íbúafjölgun í landinu á liðnu ári varð á höfuðborgarsvæðinu og nærliggjandi sveitarfélögum; Akranesi, Suðurnesjum og allt austur á Selfoss.

Áhyggjur af kórónuveirusmitum jukust verulega eftir að plágan hafði lítið látið á sér kræla undanfarnar vikur. Þau voru þó ekki mörg innanlands eða utan sóttkvíar, en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir setti sig samt í stellingar.

Stjórn Festar skaut föstum skotum á Samkeppniseftirlitið í skýrslu sinni til aðalfundar félagsins, gagnrýndi vinnubrögð þess harðlega og fann að störfum „óháðs kunnáttumanns“ sem skipaður var til þess að fylgja eftir sátt um samruna Festar og N1 árið 2018.

·Íslendingar héldu áfram að þyrpast á gosstöðvarnar þrátt fyrir að jarðfræðingar teldu líkur á langvinnu gosi , sem varað gæti árum saman. Þeim lá samt lífið á.

Allur er varinn góður og hafa gasnemar selst upp.

Gagnrýni á Samkeppniseftirlitið hélt áfram að koma upp á yfirborið, en Sigurður Hannesson hjá Samtökum iðnaðarins sagði vantraust hafa grafið um sig milli eftirlitsins og atvinnulífsins, sem Páll Gunnar Pálsson , forstjóri þess, hefði ekkert gert til þess að draga úr. Svanhildur Hólm Valsdóttir hjá Viðskiptaráði tók í sama streng og taldi skoðanaflutning embættismanna ekki sefa þær áhyggjur.

Enn greindust ný smit , ekki ýkja mörg þó, þar á meðal hjá nokkrum grunnskólanemum í sóttkví.

Bændur hyggjast leggja af þannforna sið að fljúgast á og munu Bændasamtökin og búgreinafélög sameinast um mitt næsta ár ef allt gengur vel.

Við endurmat kom á daginn að skuldastaða ríkissjóðs er betri en gert var ráð fyrir á liðnu ári. Samt sem áður er gert ráð fyrir að skuldir ríkisins hækki um 1.500 milljarða króna á árabilinu 2019-25, sem flestum finnst víst meira en nóg.

Enn voru sagðar af því fréttir að staða bólusetninga myndi senn glæðast, en nú er miðað við að það gerist eftir páska. Á það eru menn mistrúaðir, en það væri hreint páskakraftaverk ef takast myndi að bólusetja þorra þjóðarinnar fyrir mitt ár, eins og stjórnvöld tönnlast á.

·Þátttaka Íslands í bóluefnasamstarfi Evrópu komst í uppnám þegar Evrópusambandið birti nýja reglugerð um útflutningshömlur á bóluefni, sem tóku til Íslands og 16 annarra landa. Samkvæmt henni mætti lítið ef nokkuð flytja af bóluefni til Íslands, en forseti framkvæmdastjórnar ESB fullvisaði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um það í síma, að það væri ekkert að marka reglugerðina, Íslandi yrði áfram reddað bóluefni. Katrín þakkaði kærlega fyrir velvildina, en ítrekaði að hún vildi að reglugerðinni yrði breytt. Hún gengi í berhögg við EES-samninginn.

Sama dag friku stjórnvöld út vegna lítillegrar aukninga smita og gripu til mjög hertra sóttvarnaraðgerða , þar sem landinu var svo að segja skellt í lás í þrjár vikur og páskarnir ekki alveg sú upprisuhátíð sem að var stefnt. Fermingum var frestað og bakarí landsins og veislueldhús skyndilega með mörg tonn af óseldu marsipani og majonesi undir skemmdum.

Kári Stefánsson hjá Íslenskri erfðagreiningu lét í ljós þá skoðun að gefa þyrfti ferðum Pólverja milli Íslands og Póllands betri gaum, þar væri smittíðni mjög há en margir Pólverjar þátttakendur í samfélögum í báðum löndum.

Hin nýja dyngja í Geldingadölum hélt áfram að taka á sig mynd, sprunga kom á gíginn og annar myndaðist.

Íbúðum í byggingu fækkaði milli ára, en aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir að það megi rekja til stefnu um þéttingu byggðar á kostnað nýrra hverfa.

Landið er ekki lokaðra en það að 250 manns tóku þátt í tökum á tískusýningu tískuhússins Yves Saint Laurent í Reynisfjöru.

Samkeppnisstofnun sendi frá sér langa yfirlýsingu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um sig, þar sem gagnrýni var þó aðeins að mjög litlu leyti svarað. Þar var hins vegar látið í veðri vaka, að ef Festi lokaði verslun sinni á Hellu , kynni eftirlitið að grípa til aðgerða gegn henni.

·Undanfarna viku höfðu greinst sjö ný kórónuveirusmit utan sóttkvíar.

Rannsókn er hafin á lyfi sem nota má til þess að meðhöndla íslensku blæðinguna, arfgenga heilablæðingu , sem finna má hér á landi.

Sjávarútvegsfyrirtækið Brim bættist í hóp þeirra fyrirtækja, sem gagnrýna starfshætti Samkeppniseftirlitsins . Guðmundur Kristjánsson , forstjóri Brims, segir eftirlitið skaða samkeppnishæni Íslands, það þvælist fyrir atvinnulífinu án sjáanlegrar ástæðu eða árangurs.

Vogar höfnuðu því að veita Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 , en núverandi lína er í hættu vegna landrofs.

Fræðimenn telja að veruleg gasmengun komi frá eldgosinu í Geldingadölum, þar sem þúsundir tonna af brennisteinsdíoxíði og koldíoxíði losni dag hvern, sem setur loftslagsmarkmið Íslendinga óneitanlega í annað ljós. Jafnvel upp í loft.