Þórarinn Eyfjörð
Þórarinn Eyfjörð
Útfærsla á styttingu vaktavinnu fólks sem starfar hjá ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum er stóra viðfangsefnið þessa dagana á vettvangi Sameykis – stéttarfélags í almannaþjónustu, að sögn Þórarins Eyfjörð sem var kjörinn formaður félagsins...

Útfærsla á styttingu vaktavinnu fólks sem starfar hjá ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum er stóra viðfangsefnið þessa dagana á vettvangi Sameykis – stéttarfélags í almannaþjónustu, að sögn Þórarins Eyfjörð sem var kjörinn formaður félagsins nú í vikunni. Þórarinn tekur við keflinu af Árna Stefáni Jónssyni, sem lét af formennsku, rétt eins og Garðar Hilmarsson, starfandi varaformaður, sem sömuleiðis er hættur.

Þórarinn Eyfjörð hefur starfað að verkalýðsmálum í 15 ár, fyrst sem framkvæmdastjóri hjá SFR stéttarfélagi í almannaþjónustu og síðast sem framkvæmdastjóri kjara- og reksturs hjá Sameyki. Árið 2001 til 2006 var Þórarinn framkvæmdastjóri hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt. Í janúar sl. lauk Þórarinn meistaranámi við Háskóla Íslands í opinberri stjórnsýslu og fjallaði um kynbundinn launamun og hve hægt gangi að uppræta hann.

„Stytting á vinnutíma dagvinnufólks tók gildi um síðustu áramót,“ segir Þórarinn. „Vinnan sem því fylgdi gekk nokkuð vel og allir voru að reyna að ganga í sama takti. Útfærsla á styttingu vaktavinnutíma er flóknara mál sem tekur langan tíma að koma í gegn. Álitaefnin eru mörg og á vinnustöðum þarf að útfæra vaktavinnukerfin að nýjum vinnutíma og markmiðum. Allir eru þó sammála um meginmarkmiðið sem er að skapa betra jafnvægi milli starfs og fjölskyldulífs – og bæta skilyrði starfsfólks og skjólstæðinga hvað varðar öryggi og heilsu.

Fleiri stór verkefni eru í farvatninu og þá helst jöfnun launa milli markaða og launaþróunartrygging. „Með haustinu, segir Þórarinn, verður að setja í gang vinnu við stofnanasamninga hjá ríkisstofnunum, en hjá Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum þarf að taka betur utan um starfsmatskerfið þar sem horft er til eðlisþátta í störfum hvers og eins og þeir metir til launa.“

12.000 félagsmenn

Alls eru um 12.000 félagsmenn í Sameyki, sem varð til fyrir tveimur árum með sameiningu SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Þórarinn segir félagið ætla að fylgjast vel með stöðu og lífi félagsmanna á tímum kórónaveirunnar. Almennt virðist sem vel hafi verið hlúð að fólki við þessar erfiðu aðstæður og nú standi til að safna upplýsingum með könnun. Ljóst sé að störf margra hafi breyst mikið með fjarvinnu, það er þegar fólk hefur vegna sóttvarna flutt skrifstofuna á eldhúsborðið heima og rækt sín störf þaðan. Ekki sé sjálfgefið að slíkt sé gert til lengri framtíðar nema fólk fái eitthvað á móti, svo sem vegna tölvu, síma, fæðispeninga og fleira.