En svo kemur að því að sölupunktar eins og að geta unnið í náttfötunum hætta að virka. Það er í alvöru ekki jafn spennandi og það hljómar.

Mér líður eins og ég sé á bar með manni sem á ekki í góðu sambandi við áfengi og hann er að byrja aftur á löngu og rosalegu leiðinlegu sögunni sem hann var að segja áðan. Mig langar ekki til að hlusta á hana en ég veit að ég verð að sitja hérna allan tímann og láta þetta ganga yfir mig. Annars er hættan á að hann móðgist, elti mig uppi og segi mér þessar sögur og fleiri. Ég er ekki til í það.

Mér líður eiginlega líka eins og einhver ofboðslega leiðinleg hljómsveit hafi verið að tilkynna endurkomu með tónleikum um allar koppagrundir og spilun á öllum útvarpsstöðvum á þann hátt að það er engin leið að komast undan því.

Nú er tíminn til að grafa djúpt eftir þolinmæðinni. Reyna að finna þessa bölvuðu núvitund sem allir eru að tala um og sjá björtu hliðarnar. Það getur reyndar verið erfitt. Við erum búin að vera lengi í einhvers konar Pollýönnuleik að selja okkur að það hafi nú verið svo frábært að vera heima dagana langa, njóta samvista með fjölskyldunni og koma ýmsu í verk sem hefur lengi setið á hakanum.

En svo kemur að því að sölupunktar eins og að geta unnið í náttfötunum hætta að virka. Það er í alvöru ekki jafn spennandi og það hljómar. Það er heldur ekkert neitt sérstaklega spennandi að þurfa endalaust að reyna að muna í hvaða sóttvarnahólfi maður var, svo maður ráfi ekki út um allt, og fara örugglega á rétt klósett. Við hefðum bara algjörlega verið til í að sleppa þessu öllu. Líka að bíða fyrir utan búðina eftir því að réttri tölu er náð svo við getum keypt mjólk og brauð. Okkur langar að njóta frelsisins og gera allt það sem við gerum venjulega. Alveg eins og við vorum aðeins byrjuð að gera.

En svo kemur þetta. Ég veit ekki hvort er verra: Að komast ekki út eða þurfa að hlusta á alla sérfræðingana, sem að vísu hafa ekki lagt fyrir sig mikla læknis-, veiru- eða faraldursfræði en eru samt svo ofboðslega miklir sérfræðingar. Vissu nákvæmlega hvernig þetta myndi fara (að vísu bara eftir á) og eru með allar lausnirnar á hreinu.

Það er samt pínu óþægilegt að lausnirnar frá þessum hópum geta farið allt frá því að gera ekki neitt og opna allt, yfir í að skella öllu í lás, loka okkur inni og bíða veiruna af okkur. En það er ekki eini tvískinnungurinn. Þannig geta sumir ekki beðið eftir því að fá bóluefni svo þeir geti ferðast frjálsir um allan heim en geta ekki hugsað sér að taka á móti fólki sem hefur verið bólusett í öðrum löndum. Með sama bóluefni. Við eigum að hafa áhyggjur af fölsuðum bólusetningarvottorðum en það er óhugsandi að við myndum gera það sjálf!

Þetta er eitt af því sem fylgir þessari veiru og þessu ástandi. Við lokumst ekki bara inni á heimilum okkar heldur í okkar eigin huga. Við sjáum ekki til annarra landa og áttum okkur ekki á því að ástandið hér á versta degi er betra en það hefur best orðið í flestum löndum í kringum okkur.

Núna þegar svo margir líta til Bretlands sem einhvers konar fyrirmyndar í bólusetningu þá er eins og fólk gleymi því að í heilt ár hefur þessi þjóð verði í nokkurs konar stofufangelsi með gríðarlegum fjölda smita og dauðsfalla. Þar hefur varla verið eðlilegt skólahald í meira en nokkrar vikur, verslunum lokað og fólki bannað að vera á ferli. Eða sjáið þið Katrínu Jakobsdóttur í sporum Boris Johnson að segja fólki að það megi fara út fyrir hússins dyr einu sinni á dag og að hámarki í klukkutíma?

Þetta er bara eins og þetta er. Það er ekkert við þessu að gera. Við verðum bara að taka þessu. Þetta er vont en það venst. Og svo framvegis...