„Ég hef oft verið spurð hvað mér hafi fundist skemmtilegast á ferlinum. En það er bara þannig að það sem ég er að vinna að hverju sinni, það er skemmtilegast! Ég fer alltaf inn í verkefnin og verð heltekin af þeim,“ segir Helga Rún Pálsdóttir.
„Ég hef oft verið spurð hvað mér hafi fundist skemmtilegast á ferlinum. En það er bara þannig að það sem ég er að vinna að hverju sinni, það er skemmtilegast! Ég fer alltaf inn í verkefnin og verð heltekin af þeim,“ segir Helga Rún Pálsdóttir. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Klæðskerameistarinn, fatahönnuðurinn, leikmynda- og búningahöfundurinn og hattadaman Helga Rún Pálsdóttir hefur komið víða við á fjölbreyttum og litríkum ferli.

Klæðskerameistarinn, fatahönnuðurinn, leikmynda- og búningahöfundurinn og hattadaman Helga Rún Pálsdóttir hefur komið víða við á fjölbreyttum og litríkum ferli. Í dag vinnur hún hjá Össuri en vinnuna fékk hún eftir að hafa kvartað yfir útliti spelkna sem hún þurfti að nota. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Það ríkir mikil litagleði á heimili Helgu Rúnar Pálsdóttur sem tekur brosandi á móti blaðamanni í blómakjól, sem hún hefur sjálfsagt saumað sjálf. Á vegg í stofunni blasir við stórt bútasaumsteppi frá Gvatemala sem Helga Rún heldur mikið upp á, enda saga í hverjum þræði. Við setjumst í notalega stofuna og fáum okkur heitt te og ræðum lífsstarfið en Helga Rún hefur sannarlega oft verið konan á bak við tjöldin, á þönum með nál og tvinna á lofti, nú eða með handsaumavél sem henni áskotnaðist og hefur létt henni lífið.

„Líf mitt er búið að vera ansi litskrúðugt, enda segi ég alltaf að lífið sé í lit. Ég hef komið að mörgum skemmtilegum verkefnum og alltaf haft nóg að gera,“ segir Helga Rún og sýpur á heitu teinu.

Stífar skoðanir á fötum

Helga Rún var ekki há í loftinu þegar hún fór að hanna og sauma sín eigin föt.

„Ætli þetta hafi ekki allt byrjað með því að ég var lesblind og mjög góð í stærðfræði, en sniðagerð og saumskapur er í raun mikil stærðfræði. Þá fór ég að búa mér til allt mögulegt og saumaði á mig föt, alveg frá sjö ára aldri. Ég átti þó eftir að klára alls kyns nám síðar, þrátt fyrir lesblinduna,“ segir Helga Rún og segist hafa lært að sauma af sjálfri sér.

„Mamma var vonlaus að sauma! En hún átti samt saumavél. Ég hafði líka stífar skoðanir á fötum og hverju ég vildi klæðast og setti oft saman einhvern furðufatnað. Ég var strax búin að ákveða þrettán ára hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór og það hefur allt ræst og mikið meira en það. Ég ákvað að verða fatahönnuður og stofna mitt eigið fyrirtæki,“ segir Helga Rún sem kláraði menntaskóla og fór þaðan í Iðnskólann þar sem hún kláraði klæðskeranám og síðar tók hún meistararéttindi í faginu. Síðustu tíu árin hefur hún verið formaður sveinsprófsnefndar í klæðskurði.

„Eftir Iðnskólann fór ég til Danmerkur og lærði fatahönnun og þar byrjaði ég að læra hattagerð sem er ólík klæðskerafaginu. Ég stofnaði þá mitt eigið fyrirtæki, Prem, og rak það í 23 ár,“ segir Helga Rún en eftir námið í Danmörku lá leiðin til London þar sem hún lærði leikmynda- og búningahönnun, ásamt því að vera í hattagerð.

„Ég ætlaði nú aldrei að flytja aftur heim, en það var erfitt að fá atvinnuleyfi í Englandi, þannig að ég kom heim og fór að vinna við búningahönnun. Svo ílengdist ég hér eftir að ég hitti manninn minn,“ segir hún en Helga Rún er gift Alfreð Sturlu Böðvarssyni, heimspekingi og ljóshönnuði.

Hálfnakin í frakka

Eftir heimkomuna frá London starfaði Helga Rún við búningahönnun fyrir Íslensku óperuna, leikhúsin og einnig sá hún um búninga fyrir Spaugstofuna í þrettán ár. Hún tók einnig að sér búningagerð fyrir Fóstbræðraseríur og ýmsar heimildamyndir.

Var ekki gaman að vinna með Spaugstofunni?

„Jú, það var ansi gaman og þeim datt ótrúlegustu hlutir í hug. Ég þurfti oft að gera mikla og stórfenglega búninga á stuttum tíma. Það voru fundir á miðvikudagsmorgnum klukkan níu og þá var farið yfir málin. Svo hafði maður þann dag til að safna saman búningum og búa til búninga fyrir tökurnar, því það var byrjað í tökum strax á fimmtudagsmorgni,“ segir Helga Rún og segist hafa verið með þeim í tökum og hafi oft þurft að grípa í nálina til að klára eitt og annað.

„Þarna komu oft upp ansi brjálaðar hugmyndir. Einu sinni gerði ég og saumakonur RÚV, þær Ingibjörg og Stefanía, Stubbabúninga og í annað sinn hannaði ég og við saumuðum fjóra hvalabúninga og vorum að því langt inn í nóttina,“ segir hún og segir vinnuna með þeim félögum hafa verið afar skemmtilega. Einnig hafi verið mikið fjör að vinna með Fóstbræðrum.

„Það var oft lítið sofið og stundum tók það því ekki að fara heim á milli tökudaga. Búningafólkið er mætt fyrst á morgnana til að klæða leikara í fyrir smink og svo í lok dags þarf að þrífa búningana og hafa allt tilbúið fyrir næsta dag. Og stundum verða breytingar og það er aldrei sagt nei; maður bara reddar þessu, það er bara svoleiðis,“ segir Helga Rún og rifjar upp skondna sögu.

„Einu sinni var ég í tökum uppi á Mosfellsheiði þegar kallað var: „Það þarf að bæta við konu!“ Ég sagðist ekki vera með neina aukakvenbúninga. Ég þurfti því bara að fara úr fötunum og lána Randveri þau. Ég greip bara frakka sem var notaður í aðra senu og stóð hálfnakin í honum á meðan upptökurnar fóru fram,“ segir hún og hlær.

„Í annað skipti vorum við úti í bæ í tökum þegar Örn Árna kemur hlaupandi og segist þurfa stóran brjóstahaldara. Ég var ekkert með neinn aukabrjósthaldara þannig að ég vippaði mér úr mínum og lánaði honum, enda er ég með stór brjóst. Maður bara reddar þessu.“

Stóru skórnir hans Flosa

Helga Rún hefur oftar þurft að grípa til sinna ráða til að redda hlutunum á setti.

„Einu sinni lenti ég í ansi kröppum dansi en ég var þá að vinna við heimildamynd um Jón Sigurðsson forseta. Ég var búin að leggja mikið á mig við búningagerðina,“ segir Helga Rún en hún sökkti sér gjarnan ofan í söguna svo búningar yrðu sem raunverulegastir.

„Svo var brúðkaupssena í Dómkirkjunni. Flosi Ólafsson lék prestinn. Brúðhjónin áttu að krjúpa fyrir framan hann og það átti ekki að sjást í skó Flosa, en hann notaði mjög stórt númer og það var erfitt að fá svona stóra svarta spariskó. Ég hafði spurt leikstjórann hvort það væri ekki öruggt að það sæist ekki í skóna því Flosi var bara í sínum skóm. En þá breytir leikstjórinn um sjónarhorn og þá sést í skóna, sem voru brúnir og pössuðu ekki við tímabilið. Þá voru góð ráð dýr og ég hljóp út og horfði yfir Austurvöll og sá þá ungan mann í svörtum risastórum skóm. Ég hljóp að honum og bauð góðan dag og horfði niður á skóna hans og sagði svo: „Við erum að taka upp heimildamynd um Jón Sigurðsson, má bjóða þér að horfa á senu? Og get ég kannski fengið skóna þína lánaða á meðan?“ Hann svaraði að hann væri nú í sagnfræði í Háskólanum og væri alveg til í það. Ég fékk skóna hans, pússaði þá aðeins og skellti Flosa í þá. Og þeir pössuðu. Sagnfræðineminn þurfti að sitja þarna lengi á sokkaleistunum,“ segir Helga Rún og hlær.

Ég þekki þennan rosa vel!

„Ég lenti oft í sérstökum verkefnum eins og einu sinni þegar ég vann við auglýsingu við Skógafoss sem leikstjórinn Wim Wenders leikstýrði. Í auglýsingunni var maður látinn hjóla yfir fossinn á vír. Við lentum í því sem kallast veðurdagar, en það kom svo vont veður að það var ekki hægt að taka upp í þrjá sólarhringa. Þá verða allir að vera á setti og enginn má vinna því annars fá þeir ekki tryggingarnar borgaðar, en framleiðendurnir eru með veðurtryggingu. Við vorum þarna lágmark tólf tíma á dag á tökustað að gera ekki neitt. Þá var fundið upp á öllu mögulegu. Einn kenndi flugukast þótt engar væru veiðistangirnar og ein kenndi línudans, önnur sýndi svæðanudd og það var æfður kór,“ segir hún.

„Ég lenti líka í því sama seinna uppi á jökli og þá þurftum við að bíða í bíl við jökulræturnar í sólarhring,“ segir hún og segist oft hafa unnið í kringum frægt fólki en segist ekkert muna endilega nöfn þess.

„Mér finnst það fólk ekkert öðruvísi en venjulegt fólk og hef aldrei kippt mér upp við það. Ég man eftir því að ég var einu sinni í búð í London með vinkonu minni og þá koma Bob Geldof og Paula Yates inn að kaupa sér gleraugu og ég var einmitt líka að máta gleraugu. Við gáfum hvert öðru góð ráð með gleraugun og mér fannst það bara mjög eðlilegt,“ segir Helga Rún og hlær.

Þessi saga um fræga fólkið minnir Helgu Rún á tímabilið þegar hún var au-pair-stúlka í London fyrir margt löngu.

„Ég fór út eitt vorið til Bath í Englandi þegar ég var sautján ára og kom ekki heim fyrr en rétt fyrir jól,“ segir hún og segist hafa unnið hjá yfirstéttarfólki þar.

„Heimagangur á heimilinu var söngvarinn Peter Gabriel. Hann var þá að skilja við konuna sína og ég var oft að passa stelpurnar hans tvær með hinum börnunum. Hann var oft í mat og ég sá um matinn og mér fannst þetta ekkert merkilegt. Þegar ég kom heim kom út ný plata með honum og strákarnir í bekknum fóru í bæinn að kaupa plötuna. Þeir sýndu mér hana og ég sagði: „Ég þekki þennan rosa vel! Hann var alltaf í mat hjá mér og ég passaði dætur hans!“ Þeir misstu andlitið,“ segir Helga Rún og skellihlær.

Hjónin bæði vinnualkar

Fleira er það sem Helga Rún tekur sér fyrir hendur.

„Ég vinn oft efnin frá grunni og lita þau gjarnan sjálf. Ég hef sérhannað fatnað fyrir fólk og geri enn svolítið af því þegar ég kem því við. Ég hef einnig haldið mörg námskeið. Ég fæ mikið út úr því að halda alls kyns námskeið og finnst gefandi að sjá fólk vaxa og öðlast sjálfstraust,“ segir hún og segist hafa kennt bæði hattagerð, leðursaum og saumaskap.

„Nú er ég til dæmis með afar vinsæl saumanámskeið í vefnaðarvöruversluninni Saumu, og kenni ýmis námskeið hjá Heimilisiðnaðarskólanum.“

Blaðamanni verður að orði að það líti út fyrir að Helga Rún hafi unnið mikið í gegnum tíðina.

„Já, við hjónin erum bæði miklir vinnualkar. Alfreð hannar lýsingu og leikmyndir fyrir sjónvarp. Í þessum listageira er óreglulegur vinnutími, og oft unnið um kvöld og helgar. Við vorum bæði byrjuð í okkar fögum þegar við kynntumst og unnum jafnvel mikið saman áður en við eignuðumst strákana okkar,“ segir hún um synina Atla Geir, 21 árs, og verkfræðinginn Andra Pál, 25 ára.

„Þegar þeir voru litlir komu þeir oft með okkur í vinnuna og voru gjarnan notaðir í smáverk á setti og sem statistar.“

Í þeim töluðum orðum birtist yngri sonur Helgu Rúnar, Atli Geir, en hann er á öðru ári í Listaháskólanum í fatahönnun.

„Enda alinn upp á saumastofu og alltaf með okkur í vinnunni!“

Helga Rún segir að eitt hafi leitt af öðru og með tímanum hafi hún sérhæfst á ýmsum sviðum, eins og að hanna fyrir barnaleikrit, grínþætti og heimildamyndir. Hún vann á þessum tíma alltaf sjálfstætt og rak alltaf fyrirtækið sitt.

„Ég er einnig mamma flestra lukkudýra landsins, eins og Georgs mörgæsar og Snæfinns snjókarls og Masa. Svo var ég alltaf í hattagerðinni með og var líka með búningaleigu í mörg ár. Ég tók líka að mér að hanna leikmyndir og leikmuni,“ segir Helga Rún og segist hafa unnið mikið í barnaleikritum og með Möguleikhúsinu sem var fyrsta og eina barnaleikhús landsins og einnig hannaði hún búninga fyrir kvikmyndina Fíaskó.

Helga Rún segist oft hafa hannað sérkennilega og skondna búninga og hluti, svo sem Þorra þorsk fyrir Lýsi og Tomma tómat fyrir Hagkaup í Kringlunni.

„Ég saumaði líka til dæmis hinar bleiku nærbuxur Greifanna sem þeir notuðu til að auglýsa Greifaböllin,“ segir Helga Rún en þess má geta að þessar nærbuxur eru í mikilli ofurstærð.

„Ég hef líka saumað Eurovision-búninga, eins og fyrir lag Valgeir Guðjóns með Daníel Ágústi,“ segir hún og segist hreinlega ekki muna eftir helmingnum af verkefnum sem hún hefur unnið að, enda eru þau orðin ansi mörg á löngum ferli.

Spelkur sem hæfa dömu

Í dag hefur Helga Rún starfað í níu ár hjá Össuri.

„Ég var aldrei fastráðin fyrr en ég fór að vinna fyrir Össur. Það kom þannig til að ég var orðin slæm af slitgigt í hnjánum að standa alltaf upp á endann langa daga í tökum. Það er auk þess mikill burður í starfinu; maður þurfti oft að bera þunga búninga og efnisstranga, þannig að hnén voru orðin ansi léleg og ég þurfti að fá spelkur frá Össuri sem virkuðu mjög vel en mér fannst þær ansi ljótar og fyrirferðarmiklar og kvartaði mikið yfir útliti þeirra. Eftir að hafa kvartað í töluverðan tíma buðu þeir mér vinnu,“ segir Helga Rún sposk.

Þannig að það var eiginlega tilviljun að þú fékkst þessa vinnu?

„Það var algjör tilviljun! Bara af því ég kvartaði svo mikið undan útlitinu,“ segir hún og hlær.

„Þetta voru mjög fyrirferðarmiklar hnjáspelkur, en héldu vel við hnén og minnkuðu verki og bólgur. Þær voru hins vegar hræðilega ljótar og hæfðu alls ekki dömu sem vildi vera í pilsum og kjólum,“ segir Helga Rún og segist hafa tekið þátt í að hanna penni og fallegri spelkur eftir að hún fór að vinna hjá fyrirtækinu.

„Í dag vinn ég sem textíl- og vöruhönnuður í rannsóknar- og þróunardeildinni og held utan um frumgerðarsaumastofu Össurar. Þar setjum við saman nýjar hugmyndir, búum til sniðin og finnum efni eða búum þau til. Svo þegar varan er tilbúin til framleiðslu fylgi ég henni oft eftir og fer út og hjálpa til við að setja upp framleiðslulínu. Stundum þjálfa ég starfsfólkið af því þá er ég búin að prófa og æfa alla framleiðsluferla hér heima. Teymið sem ég er í hannar spelkur fyrir flesta liði líkamans en einnig aðstoða ég aðra hópa í rannsóknardeildinni,“ segir hún.

„Það er miklu meiri textíll í spelkunum en var áður og minna plast og járn; notendurnir eru orðnir kröfuharðari um þægindi og útlit á stoðtækjum,“ segir Helga Rún.

„Það sem er svo frábært í mínu starfi er að ég er ein af fáum í rannsóknar- og þróunardeildinni sem eru með í ferlinu frá upphafi til enda á vörunni; allt frá því að hugmyndirnar fæðast og þar til varan kemur tilbúin út úr framleiðslunni. Þetta er eins og meðganga og fæðing og maður fyllist stolti yfir að vera með í svona skemmtilegri nýsköpun,“ segir Helga Rún og segir að hluti af vörum Össurar sé framleiddur í Tijuana í Mexíkó og fari hún því oft þangað en einnig til Asíu.

„Það hefur orðið mikil framþróun hjá spelkuhönnunarhópnum okkar og í dag eru þessar spelkur orðnar fyrirferðarlitlar og hægt að vera í þeim undir leggings og það sést ekki að þú sért í þeim undir. Við höfum hannað mjaðmaspelkur sem sjást ekki undir jakkafötum. Þetta er allt annað líf,“ segir Helga Rún sem segist enn nota sínar spelkur þegar álagið er mikið.

Helga Rún er afar ánægð hjá Össuri.

„Ég bíð eftir því að komast út um dyrnar á morgnana til að komast í vinnuna. Þetta er mjög skapandi og gefandi vinna. Þetta er tarnavinna sem hentar mjög vel fyrir konu eins og mig sem er með bakgrunn í leikhúsi og sjónvarpi. Maður lærir að nærast á törnum; vinna undir álagi og finna adrenalínið flæða.“

Eina hattadaman á landinu

Þrátt fyrir að vera í fullri vinnu hjá Össuri lætur Helga Rún það ekki duga og vinnur oft að ýmsum aukaverkefnum, auk allra námskeiðanna.

„Ég fann það fjótt að til að halda mér skapandi yrði ég líka að vera svolítið í mínum gömlu verkefnum með. Einhvers staðar verður maður að fylla á tankinn því það er erfitt að vera hugmyndaríkur átta tíma á dag eftir pöntun. Því tek ég að mér að sérhanna fyrir fólk og gera hatta en nú vel ég mín verkefni. Ég geri oft hatta fyrir leikhúsin því í rauninni er ég eina hattadaman á landinu og þess vegna er stundum kvabbað í mér,“ segir Helga Rún og segir að tímabilið fyrir hrun hafi verið skemmtilegt.

„Það var rosalegur uppgangur og útrásarvíkingarnir voru að fara á Ascot og Wimbledon og þá gerði ég mikið af höttum á konurnar. Og það var aldrei spurt um verð. Svo voru kjólameistarar að sauma á þær kjólana. Eitt skipti á Ascot átti ég marga hatta því það voru ansi margar íslenskar konur þar það árið. Svo hef ég saumað hatta á konur sem hafa verið á leið í konungleg brúðkaup. Þá koma þær með lista, en það er alveg sérstakt „dresscode“ fyrir hvert boð. Og þú ert með höfuðfat í öll skiptin. Svo eru börðin misstór eftir því hvar þú ert í goggunarröðinni en höfuðföt í Bretlandi segja til um þína stétt og stöðu, og hefur verið þannig í gegnum aldirnar,“ útskýrir Helga Rún.

Er einhver eftirspurn eftir höttum í dag?

„Nei, ekki mikil. Kynslóðin sem notaði jarðarfarahatta er horfin,“ segir Helga Rún og segist hafa haft mikið að gera í hattagerðinni á árum áður.

„Það var hefð hér áður að konur væru með höfuðfat við sorgarathafnir og þá oft í stíl við kápuna. Þá þurftu þær heldur ekki að leggja á sér hárið. Ég gerði líka herrahatta og ég segi í dag að ég sauma fyrir öll kyn.“

Vaknar á nóttunni með hugmyndir

Helga Rún sýnir blaðamanni inn í vinnustofuna þar sem má sjá saumavélar, efnisstranga, plastbox full af dóti og stórt vinnuborð. Þarna gerast galdrarnir.

„Ég hef oft verið spurð hvað mér hafi fundist skemmtilegast á ferlinum. En það er bara þannig að það sem ég er að vinna að hverju sinni, það er skemmtilegast! Ég fer alltaf inn í verkefnin og verð heltekin af þeim. Ég vakna oft á nóttunni með hugmyndir og lausnir. Ég er allan sólarhringinn með hugann við vinnuna,“ segir Helga Rún.

Helga Rún neitar því að það sé brjálað að gera hjá sér. Hún segist hafa nógan tíma til að fara í sjósund, sund, pílates og halda matarboð. Í frítíma gerir hún einnig upp gömul húsgögn og í gegnum árin hefur hún saumað mikið á fjölskylduna; allt frá brjóstahaldara með spöngum og stuttbuxum á manninn til búninga á litlu strákana. Helga Rún segist hafa kennt drengjunum snemma að sauma, enda er annar þeirra að feta í hennar fótspor. Nú á hún tvær tengdadætur sem hún segist hlakka til að sauma meira á. Önnur fékk meira að segja útskriftarkjól um daginn.

„Þetta er ekkert mál. Ég er vön því í gegnum tíðina að nota tímann vel og skipuleggja mig. Ég er svo heppin að geta unnið við áhugamál mitt.“