[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Kristín Sigurðardóttir fæddist 27. mars 1931 í Reykjavík og ólst þar upp. Hún lauk prófum frá Verslunarskóla Íslands 1949, einkaritaraprófi frá St.

Margrét Kristín Sigurðardóttir fæddist 27. mars 1931 í Reykjavík og ólst þar upp. Hún lauk prófum frá Verslunarskóla Íslands 1949, einkaritaraprófi frá St. Godrich's Secretarial College í London 1950, leiðsögumannaprófi 1970, stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1983 og prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1991.

Margrét var ritari hjá Ríkisspítölunum með hléum frá 1949-1966, var leiðsögumaður hjá Kynnisferðum ferðaskrifstofanna, Ferðaskrifstofu Zoega og Ferðaskrifstofu ríkisins 1970-1978, deildarstjóri launadeildar Ríkisspítalanna 1991-1995, deildarstjóri fjárreiðudeildar frá 1995 og deildarstjóri fjárhagseftirlits Landspítala-háskólasjúkrahúss 2000-2002.

Margrét er félagslynd og var alltaf treyst fyrir fjármálunum hvar sem hún kom enda glúrin á því sviði. Hún var gjaldkeri í stjórn Inner-Wheel, útbreiðslustjóri, varaforseti og forseti, var einn af stofnendum og sat í stjórn Félags leiðsögumanna, í stjórn Félags háskólakvenna og Kvenstúdentafélagsins sem varaformaður og gjaldkeri, sat í atvinnu- og jafnréttismálanefnd Bandalags kvenna í Reykjavík og varaformaður, sat í stjórn sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar og formaður, sat í stjórn stjórnar Landssambands sjálfstæðiskvenna og gjaldkeri í stjórn Hverfafélags sjálfstæðismanna Langholti. Hún sat í sóknarnefnd Áskirkju og var fjármálastjóri Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur frá 2003-2017 og fyrir það var hún gerð að heiðursfélaga Félags háskólakvenna 2018.

Börn Margrétar segja hana vera heimskonu eftir að hafa dvalið mikið erlendis. „Þegar við bjuggum í Sviss og Austurríki kom mamma fjölskyldunni í skíðaskóla og höfum við síðan notið þess að vera á skíðum.“ Við dvalirnar erlendis lærði hún ensku, dönsku og þýsku sem kom sér vel þegar hún starfaði sem leiðsögumaður þar sem hún fór í ófáar ferðir með ferðamenn að skoða Gullna hringinn.

Margrét elskar að elda góðan mat og er gestrisin með eindæmum og kom sér þá vel dvölin í húsmæðraskólanum í Kaupmannahöfn þar sem hún lærði bæði að elda danskan hversdags- og veislumat, enda var engin veisla án brúnaðra kartaflna, rauðkáls, rauðbeða og sósu. Kökubakstur og salatgerð var líka í hávegum höfð. Henni finnst maturinn smakkast betur ef gestir er til borðs. Margir vinir, ættingjar og vinir barnanna hafa notið gestrisni hennar á Laugalæknum, Laugarásveginum, Þúfu og nú í Sóltúninu. Á árum áður hikaði hún ekki við að slá upp fjölmennum veislum sem og árlegum 50 manna jólaboðum.

Margrét byggði sumarbústað við Apavatn sem var vígður á afmæli hennar 1997. Hún teiknaði hann og skipulagði alla byggingarvinnu, enda með sterkar skoðanir á hvernig hann ætti að vera.

Börnin segja Margréti vera vinur vina sinna. „Hún er alltaf tilbúin að verja minni máttar ef á þá er hallað. Hún getur líka ef svo ber undir verið skapmikil ef gengið er á hlut hennar eða hennar nánustu og er staðföst með eindæmum og eru til eru ýmsar sögur því til staðfestingar. Ein er þegar hún bjargaði kofa sem sonur hennar hafði byggt með félögum sínum. Klagað var undan að kofinn væri til lýta og komu starfsmenn borgarinnar til að fjarlægja hann. Mamma sá á tilburðum þeirra út um eldhúsgluggann hvað væri í aðsigi og hljóp á vettvang, þá kasólétt, og vildi tala þá frá frekari aðgerðum. Þegar það gekk ekki eftir gerði hún sér lítið fyrir og klifraði upp á burst kofans þar sem hún settist klofvega og sagði ákveðin: „Rífið hann nú!“ Kofinn fékk að vera í friði og einum borgarstarfsmanni varð á orði: „Svona kona kostar eitthvað.““

Barnabörnin kunna líka að meta ömmu sína og nýverið skrifaði eitt þeirra henni bréf þar sem það þakkaði henni fyrir að vera góð fyrirmynd – hjá henni hefðu þau lært að maður er aldrei of gamall til að gera eitthvað nýtt. Þeim finnst hún líka vera jákvæð, hress og ákveðin, taki mál í sínar hendur, láti verkin tala og styðji vel við bakið á þeim.

„Ég er önnum kafin við að gera ekki neitt,“ segir Margrét aðspurð. „Nú læt ég bara dekra við mig og kannski kominn tími til. Ég fer í Múlabæ þrisvar í viku, þar er yndislegt fólk og líka í heimaþjónustunni. Ég á yndisleg börn og barnabörn sem hugsa vel um mig, ég er ánægð yfir því að hafa náð þessum aldri og er þakklát fyrir öll árin.“

Fjölskylda

Eiginmaður Margrétar í 67 ár var Ragnar Stefán Halldórsson, f. 1.9. 1929, d. 8.8. 2019, verkfræðingur og forstjóri og formaður stjórnar Íslenska álfélagsins. Foreldrar Ragnars voru hjónin Halldór Stefánsson, f. 26.5. 1877, d. 1.4. 1971, alþingismaður, fræðimaður og forstjóri Slysatrygginga ríkisins og Brunabótafélags Íslands, og Halldóra Sigfúsdóttir, f. 26.6. 1909, d. 16.4. 2002, húsmóðir.

Börn Margrétar og Ragnars eru 1) Kristín Vala, f. 27.3. 1954, prófessor í jarðvísindum og sjálfbærnivísindum við HÍ, og á hún tvö börn, Tómas Ragnar, lækni og lífeðlisfræðing við University of Washington í Seattle, og Katrínu Margréti, doktor í klínískri sálfræði í Brighton; 2) Halldór Páll, f. 28.5. 1955, verkfræðingur og forstjóri Pihl í Kaupmannahöfn, kvæntur Jóhönnu Huldu Jónsdóttur, efnaverkfræðingi og viðskiptafræðingi, og eiga þau tvo syni, Matthías Ragnar verkfræðing í Álaborg og Stefán Jón samskiptafræðing í Kaupmannahöfn; 3) Sigurður Ragnar, f. 10.6. 1965, verkfræðingur og forstjóri Íslenskra aðalverktaka, í sambúð með Þórdísi Kjartansdóttur, lýtalækni hjá Deamedica, og eiga þau saman eina dóttur, Þórdísi Láru. Sigurður á tvö börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Kristínu Magnúsdóttur rekstrarhagfræðingi, Bjarka Má, margmiðlunarfræðing og nema í Kennaraháskóla Íslands, og Margréti Evu, nema í rekstrarverkfræði við HR; 4) Margrét Dóra, f. 8.4. 1974, sálfræðingur og tölvunarfræðingur, framkvæmdastjóri Mennskrar ráðgjafar, en maður hennar er Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri Grid ehf., eiga þau einn son, Ómar Huga.

Bræður Margrétar voru Hannes Þorsteinn, f. 3.7. 1929, d. 17.4. 2014, deildarstjóri hjá Sjóvá, og Axel, f. 29.8. 1933, d. 3.7. 2017, póstfulltrúi í Reykjavík.

Foreldrar Margrétar voru hjónin Sigurður Jónas Þorsteinsson, f. 10.5. 1901, d. 16.4. 1946, stórkaupmaður og iðnrekandi í Reykjavík, og Kristín Hannesdóttir, f. 12.7. 1899, d. 17.5. 1992, húsmóðir.