Duisburg Albert Guðmundsson kom inn á í fyrri hálfleik gegn Þýskalandi þegar Rúnar Már Sigurjónsson meiddist og á hér í höggi við Lukas Klostermann. Íslenska liðið kom til Jerevan í gær og mætir Armeníu á morgun.
Duisburg Albert Guðmundsson kom inn á í fyrri hálfleik gegn Þýskalandi þegar Rúnar Már Sigurjónsson meiddist og á hér í höggi við Lukas Klostermann. Íslenska liðið kom til Jerevan í gær og mætir Armeníu á morgun. — AFAP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Armenía Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Þegar flautað verður til leiks á hásléttunni við Kákasusfjöllin, í einni elstu borg heims, Jerevan, klukkan 16 á morgun að íslenskum tíma, hittir íslenska karlalandsliðið í fótbolta á einhvern versta tímann til að mæta liði Armeníu.

Armenía

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þegar flautað verður til leiks á hásléttunni við Kákasusfjöllin, í einni elstu borg heims, Jerevan, klukkan 16 á morgun að íslenskum tíma, hittir íslenska karlalandsliðið í fótbolta á einhvern versta tímann til að mæta liði Armeníu.

Armenska landsliðið hefur frá því í september gengið í gegnum sinn besta kafla í sögunni en eftir 1:0 sigur gegn Liechtenstein á útivelli í Vaduz í fyrrakvöld í fyrstu umferð undankeppni heimsmeistaramótsins eru Armenar ósigraðir í sex leikjum í röð frá 8. september og hafa unnið fjóra þeirra. Sjálfstraustið er því væntanlega eins og best getur verið í þeirra röðum.

Sigurmarkið í Vaduz í fyrrakvöld var sjálfsmark á 83. mínútu og sigurinn því naumur en kærkominn fyrir armenska liðið.

Komnir í B-deildina

Armenar unnu sér í nóvember mjög óvænt sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar, þar sem þeir gætu þá einmitt mætt Íslendingum, með því að vinna sinn riðil í C-deildinni eftir tvísýna baráttu við Norður-Makedóníu, Georgíu og Eistland.

Þeir sigruðu Norður-Makedóníu, 1:0, í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni með marki frá Hovhannes Hambardzumyan, leikmanni Anorthosis á Kýpur, og þurftu þó að spila þann heimaleik sinn á Kýpur vegna stríðsástandsins í landinu. Aðeins einn af þessum sex síðustu leikjum Armena hefur verið leikinn í Jerevan af sömu sökum en þeir hafa átt í langvarandi stríðsátökum við granna sína í Aserbaídsjan vegna héraðsins umdeilda Nagorno-Karabakh, sem er innan landamæra Aserbaídsjans.

Sakna hins armenska Gylfa

Armenar eru í svipuðum sporum og Íslendingar þessa dagana. Ísland leikur án Gylfa Þórs Sigurðssonar og Armenar leika án síns langbesta manns, Henrikhs Mkhitaryan, sem er fyrirliði liðsins, og langmarkahæstur í sögu landsliðsins með 30 mörk í 88 landsleikjum. Hann er væntanlega eini leikmaður Armena sem Íslendingar kannast almennt við eftir feril hans með Dortmund, Manchester United og Arsenal, en hann leikur nú með Roma sem lánsmaður frá Arsenal.

Lykilmaður Armena og þeirra reyndastur í þessari landsleikjatörn er Gevorg Gharzaryan, 32 ára miðjumaður sem lék sinn 73. landsleik í fyrrakvöld og er jafnframt markahæstur þeirra sem taka þátt í þessari landsleikjahrinu með 14 mörk. Reyndar næstmarkahæstur í sögu landsliðsins. Hann er samherji Theódórs Elmars Bjarnasonar hjá Lamia í Grikklandi.

Sá eini í liði Armena sem leikur með sterku liði í vesturhluta Evrópu er framherjinn Sargis Adamyan, leikmaður Hoffenheim í Þýskalandi. Þrettán af 23 í hópnum leika utan Armeníu og spila með liðum í Kasakstan, Grikklandi, Kýpur, Rússlandi, Slóvakíu, Argentínu og Lettlandi.

Tapa fyrir Gíbraltar og Möltu og bursta Danmörku

Armenar áttu mjög köflótta undankeppni EM á árinu 2019. Þeir unnu góða sigra á Grikkjum á útivelli, 3:2, og á Bosníumönnum á heimavelli, 4:2, en gerðu jafntefli í Liechtenstein, töpuðu tvisvar fyrir Finnum og fengu hrikalegan skell, 9:1, gegn Ítölum. Þeir hafa í gegnum tíðina verið óútreiknanlegir, unnið óvænta sigra en svo tapað á ólíklegum stundum, t.d. fyrir Gíbraltar á heimavelli fyrir tveimur árum. Armenar unnu einhvern sinn fræknasta sigur þegar þeir lögðu Dani 4:0 á Parken sumarið 2013, fjórum dögum eftir 0:1 tap gegn Möltu á heimavelli.

Eftir þann sigur á Dönum klifruðu Armenar upp í 35. sæti heimslista FIFA og hafa aldrei fyrr eða síðar komist svo ofarlega. Þeir hafa oft verið í kringum 100. sætið og sitja einmitt núna í 99. sæti listans, 53 sætum fyrir aftan Ísland. Það þýðir að þeir eru í 41. sæti af 55 Evrópuþjóðum en Ísland er þar í 27. sæti.

Þjálfari Armeníu er Joaquín Caparrós, 65 ára gamall Spánverji, sem tók við liðinu sumarið 2020 og hefur aðeins tapað einu sinni með því í sjö leikjum. Caparrós hefur áður m.a. stýrt spænsku liðunum Villarreal, Sevilla, Deportivo La Coruna, Athletic Bilbao, Levante, Granada og Osasuna.

Tveir sigrar og jafntefli gegn Armeníu

Ísland og Armenía hafa einu sinni áður verið saman í undanriðli stórmóts, fyrir EM árið 2000. Liðin gerðu jafntefli, 0:0, í Jerevan í október 1998, en íslenska liðið, undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar, vann seinni leikinn 2:0 á Laugardalsvellinum í júní 1999 þar sem Ríkharður Daðason og Rúnar Kristinsson skoruðu mörkin. Eftir þann sigur var Ísland taplaust í öðru sæti undanriðilsins eftir sex umferðir og stigi á undan ríkjandi heimsmeisturum Frakka.

Þá mættust Ísland og Armenía á alþjóðlegu móti á Möltu í febrúar 2008. Tryggvi Guðmundsson og Gunnar Heiðar Þorvaldsson tryggðu þar Íslandi sigur, 2:0. Tveir þeirra sem nú eru í hópi Íslands voru í byrjunarliðinu í þeim leik, Birkir Már Sævarsson og Ragnar Sigurðsson.

Langt flug austur í Asíu

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu æfði í Düsseldorf í gærmorgun áður en það hélt til Jerevan í Armeníu fyrir leikinn í undankeppni heimsmeistaramótsins sem hefst þar klukkan 16 á morgun.

Íslenska liðið ferðast með leiguflugi í þessari landsleikjatörn og það einfaldar mjög löng ferðalög. Liðið flaug frá Düsseldorf til Jerevan klukkan 14 að íslenskum tíma í gær og lenti klukkan 18.30 en vegna tímamismunarins var klukkan þá orðin 22.30 að staðartíma.

Leikurinn á morgun fer fram að kvöldlagi þarna austur frá en klukkan verður 20 í Jerevan þegar flautað verður til leiks.

Samkvæmt landafræðinni er Armenía í Asíu þótt landið teljist til Evrópuríkja á flestum sviðum og eigi aðild að margs konar evrópskum stofnunum og samtökum, þar á meðal UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu. Armenía, sem tilheyrði Sovétríkjunum til 1992, liggur að Íran til suðurs, Aserbaídsjan til austurs, Georgíu til norðurs og Tyrklandi til vesturs.