Ingunn Eyjólfsdóttir fæddist í Helgubæ við Fálkagötu í Reykjavík 14. apríl 1928. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Mörk 13. mars 2021. Foreldrar hennar voru Kristín Árnadóttir, f. 1899, d. 1974, og Eyjólfur Brynjólfsson. f. 1890, d. 1973. Ingunn var sjöunda barn foreldra sinna. Systkini hennar: Brynjólfur, María, Ásdís, Margrét, Guðrún, Ingvar, Tryggvi, Haraldur og Matthías. Guðrún og Matthías lifa systur sína.

Ingunn giftist 24. maí 1952 Valtý Hákonarsyni framkvæmdastjóra, f. 17. febrúar 1923, d. 14. september 1997. Dætur þeirra:

1) Elísabet, f. 1952, maki Gísli Skúlason, synir þeirra Kári Hrafn, sambýliskona Guðrún Valdimarsdóttir, börn þeirra Arnhildur, Oddný og Bergur Einir. Skúli, unnusta Dagný Halla Björnsdóttir, dætur Skúla Berglind Emilía og Adríana Andrá. Hákon.

2) Kristín, f. 1954, maki Þórður Daníel Bergmann, synir þeirra Valtýr, eiginkona Sigríður Theódóra Knútsdóttir, dætur þeirra Andrea Rán, Dúa Kristín og Hildur Sara. Þröstur, eiginkona Unnur Ylfa Magnúsdóttir, börn þeirra Andri Þór, Tinna og Daníel Árni. Ingvi Björn, eiginkona Karen Íris Bragadóttir, börn þeirra Óliver Orri, Birkir Gauti og Arna Lind.

3) Margrét, f. 1958, maki Henrik Zachariassen. Synir þeirra Alexander og Magnús.

4) Anna María, f. 1964. Synir hennar Snorri og Atli, kærasta hans Þórunn Eylands Harðardóttir.

Ingunn ólst upp á Smyrilsvegi 28 á Grímsstaðaholti frá tveggja ára aldri. Hún gekk í Miðbæjarskóla og Skildinganesskóla og sótti ensku- og dönskunám eftir skyldunám í Námsflokkum Reykjavíkur. Hún sótti kvöldnámskeið í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og ýmis námskeið síðar á ævinni.

Fyrsta launaða starf Ingunnar var í verslun Óla og Baldurs á Framnesvegi og síðar vann hún í Alþýðubrauðgerðinni, en eftir að þau Valtýr gengu í hjónaband var hún að mestu heimavinnandi húsmóðir þar til dæturnar uxu úr grasi. Hún vann þá m.a. í tískuvöruverslun í Miðbæjarmarkaðnum við Aðalstræti, í tískuversluninni Lilju á Laugaveginum, búsáhaldaversluninni Hamborg við Klapparstíg og var sjálfboðaliði í verslun Rauða krossins á Borgarspítala.

Ingunn og Valtýr hófu búskap í Reykjavík og bjuggu þar alla tíð utan átta ára er þau bjuggu í Kaupmannahöfn vegna starfa Valtýs.

Útför Ingunnar fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elskuleg móðir okkar er látin 92 ára að aldri. Á kveðjustund er margs að minnast og þakka.

Mamma ólst upp á barnmörgu heimili við ástúð og festu foreldra sinna. Hún bjó við gott atlæti þar sem ræktaðar voru kartöflur og rófur og haldin voru húsdýr heima í garðinum á Smyrilsvegi. Það var mikið sungið á heimilinu og mamma var m.a. í barnakórunum Sólskinsdeildinni og Söngfélaginu Hörpu og var sísyngjandi allt til enda.

Mamma var skapandi og hugmyndarík og mikill fagurkeri á mörgum sviðum. Hún hafði ríka þörf fyrir að skapa eitthvað í höndunum og fann sífellt nýjar leiðir til að fylgja löngunum sínum eftir. Hún saumaði föt á okkur dæturnar þegar við vorum börn og seinna saumaði hún út, flosaði gólfmottur, málaði myndir og skar út gler. Hún vílaði ekki fyrir sér að færa til þung húsgögn og mála veggi í nýjum litum til þess að fylgja hugmyndum sínum eftir. Það væri hægt að ímynda sér að ef hún væri ung í dag væri hún innanhúss- eða fatahönnuður. Hún sóttist eftir að fara nýjar leiðir í sköpun sinni til hinstu stundar.

Fyrsta utanlandsferð mömmu var þegar þau pabbi og elsta dóttirin sigldu með Gullfossi til Kaupmannahafnar til að setjast þar að um sinn. Þar bjuggu þau næstu átta árin vegna starfa pabba. Í Kaupmannahöfn opnaðist henni nýr heimur sem hafði mjög mótandi áhrif á hana það sem eftir var ævinnar. Þar ræktuðu þau sinn fyrsta garð frá grunni með plöntum sem voru þeim framandi. Þau voru m.a. með peru- og eplatré, stokkrósir og geislasópa. Á Hafnarárunum naut mamma þess að sumrin voru sólríkari og heitari en hún var vön og urðu þau pabbi sóldýrkendur upp frá því. Þar eignuðust þau góða vini í hópi Íslendinga og Dana sem kynntu fyrir þeim fjölbreytt menningarlíf í borginni, svo sem ballett og óperur í Konunglega leikhúsinu. Óperuáhuginn fylgdi þeim upp frá því og varð til þess að þegar Íslenska óperan hóf starfsemi sína eftir að fjölskyldan var flutt heim til Íslands voru þau meðal stofnfélaga hennar. Foreldrar okkar nutu þess að ferðast innanlands og til margra landa og heimsálfa. Eftir andlát pabba hélt mamma áfram að ferðast með dætrum sínum, systrum og vinkonum innanlands og utan. Hún lifði heilsusamlegu lífi, synti daglega í Laugardalslaug í rúm 45 ár og stundaði gönguferðir daglega.

Mamma var glaðvær, ljúf og orðvör og talaði ekki illa um fólk. Hún sýndi samkennd með öðrum og mátti ekkert aumt sjá. Umvafði alla sína með kærleik alla tíð, var góður gestgjafi og naut þess að taka á móti gestum og reiddi fram dýrindis mat og aðrar kræsingar.

Mamma glímdi við heilabilun síðustu árin sín en þekkti allt sitt fólk og tók þátt í góðum viðræðum til hins síðasta. Hún hélt reisn sinni, glaðværð og glettni allt til enda. Hún naut yndislegrar dvalar í Maríuhúsi og síðar Hjúkrunarheimilinu Mörk og er starfsfólkinu á báðum stöðum þökkuð umhyggja og vinsemd.

Mamma var okkur verðmæt fyrirmynd á mörgum sviðum og búum við að því alla ævi. Við kveðjum mömmu með þakklæti og kærleik. Guð geymi þig elsku mamma.

Elísabet, Kristín, Margrét og Anna María.

Þegar við bræðurnir minnumst ömmu er margt sem kemur í huga enda var hún áberandi hluti af lífinu á okkar yngri árum. Hún bjó steinsnar frá okkur, það var ekki nema nokkurra mínútna ganga fram hjá Borgarspítalanum niður á Sléttuveginn. Hún aðstoðaði okkur oft við að komast á íþrótta- og hljóðfæraæfingar í Laugardal og við bræðurnir vorum oft í heimsókn, hvort sem það var í sunnudagskaffi með fjölskyldunni eða í dag- eða næturpössun.

Þegar við vorum í heimsókn leið yfirleitt ekki langur tími þar til BRIO-leikfangalestarnar voru dregnar fram. Í hvert skipti stilltum við bræðurnir upp nýju leiðakerfi sem lá þvert yfir teppin í stofunni hennar ömmu. Í uppstillingu og leik við lestirnar komu í ljós ólík sérsvið okkar bræðra. Snorri var góður að skipuleggja og hanna leiðakerfið og kemur því ekkert á óvart að verkfræði hafi orðið fyrir valinu í háskólanáminu. Hins vegar var Atli ekki jafn mikið fyrir hönnunina og átti stundum erfitt með að ná endum saman þegar stóri bróðir var ekki viðstaddur. Honum þótti aftur á móti skemmtilegra að stýra lestunum og því ekki furða að í dag er hann í atvinnuflugmannsnámi að læra að stýra flugvélum.

Á sunnudögum vorum við einnig tíðir gestir en þá var amma yfirleitt með kaffiboð og fátt betra á borðstólum en pönnukökurnar hennar með sultu og sykri.

Líklega er hinn mikli sultuáhugi okkar upprunninn frá henni og þar er það hindberjasultan sem er í uppáhaldi hjá okkur ömmu.

Við bræðurnir fórum einnig oft með ömmu í göngutúra niður í Fossvogsdal og upp í Austurver enda var hún dugleg að hreyfa sig. Uppi í Austurveri fórum við að versla í Nóatúni eða Bakaríinu Austurveri en þar fékkst besta maltbrauðið í bænum ... og jú, það fór hindberjasulta ofan á það líka.

Í göngutúrum um Fossvogsdalinn benti amma okkur oft á skemmtilega og fallega garða en hún var fróð og áhugasöm um garðyrkju. Hún hirti vel um litla garðinn sinn á Sléttuvegi og hjálpaði með skólagarðareitinn okkar niðri í Fossvogsdal á sumrin. Þar kenndi hún okkur hvernig Eyjólfur langafi setti niður kartöflur og hvernig best væri að átta sig á því hvenær þær væru tilbúnar til uppskeru. Þess á milli kom hún með okkur að reyta arfa í beðinu og passaði upp á restina af matjurtunum. Segja má að stundum hafi þetta gengið betur en undirritaðir vonuðust til, sérstaklega þegar grænkálsuppskeran var vegin í kílóum frekar en grömmum og þá þurfti víst að borða kálið sitt ...

Við bræðurnir munum sakna elsku Ingu ömmu enda eigum við margar kærar minningar um hana. Við munum minnast hennar við ýmis tækifæri og ekki síst þegar við fáum hindberjasultu ofan á pönnukökur (eða maltbrauð).

Snorri og Atli.