Hugrekki Helen Mirren með hugrekki og húmor að vopni.
Hugrekki Helen Mirren með hugrekki og húmor að vopni. — Ljósmynd/Stilla úr kvikmyndinni The Tempest
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta hafa verið mjög erfiðir tímar fyrir allar sviðslistir og hjá mörgu listafólki, leikhústæknifólki og sviðsfólki sem ævinlega hefur lifað við óvissu og óöryggi.

„Þetta hafa verið mjög erfiðir tímar fyrir allar sviðslistir og hjá mörgu listafólki, leikhústæknifólki og sviðsfólki sem ævinlega hefur lifað við óvissu og óöryggi. En ef til vill hefur eilíft óöryggi gert það hæfara til að komast af í heimsplágunni með hugrekki og húmor að vopni. Hugmyndaflug þeirra hefur þegar fundið sér nýjan farveg við nýjar kringumstæður í hugmyndaríku, skemmtilegu og hrífandi samskiptaformi, – þökk sé veraldarvefnum.“ Þannig skrifar breska leikkonan Helen Mirren í ávarpi sínu í tilefni af Alþjóðlega leiklistardeginum sem haldinn er hátíðlegur í dag, 27. mars, fyrir tilstuðlan Alþjóðaleiklistarstofnunarinnar (ITI). Íslenska ávarpið í ár samdi skáldið Elísabet Kristín Jökulsdóttir og hefði ekki komið til hertra samkomutakmarkana hefðu ávörpin tvö verið flutt á leiksviðum landsins í kvöld fyrir sýningar.

„Allar götur frá upphafi mannvistar hefur fólk sagt hvert öðru sögur og undurfalleg list leikhússins mun lifa jafn lengi og við byggjum jörðina okkar. Sköpunarþörf leikskálda, leikmyndahöfunda, dansara, söngvara, leikara, tónlistarfólks, leikstjóra – allra þessara einstaklinga – mun aldrei kafna og hún mun fyrr en varir blómstra á ný með nýja orku og með nýjan skilning á heiminum sem við öll deilum. Ég get varla beðið!“ skrifar Mirren, en Hafliði Arngrímsson íslenskaði.

Leikurinn uppspretta lífsins

„Amma, viltu hlusta á dansinn? Það er leikhúsið. Leikurinn er eldri en siðmenningin. Ljónið og býflugan hafa leikið sér lengur en við. Það gerir leikinn að uppsprettu lífsins,“ skrifar Elísabet í ávarpi sínu og heldur síðan áfram. „Úr hverju er leikhús búið til. Úr þögninni og myrkrinu. Úr þögninni rétt áðuren tjaldið er dregið frá. Úr myrkrinu sem við bíðum í áðuren tjaldið er dregið frá. Leikhúsið er tjaldið,“ skrifar Elísabet og bendir á að leikhús sé líka skvaldrið. „Skvaldrið áðuren tjaldið er dregið frá, brakið í nammibréfunum, jafnvel hringingar í farsímum. Næst skaltu hlusta á skvaldrið í áhorfendum sem snarþagnar þegar myrkrið skellur á. Ég talaði við áhorfanda og hún sagði: „Pabbi og mamma voru verkafólk en sáu alltaf til þess að við fórum í leikhúsið.“ Og hvað er leikhús spurði ég. Og hún svaraði. „Ég veit það ekki ... það var annar heimur, ... leikritið.“

Ég talaði við leikara; leikhúsið er andardráttur, hreyfing, ryþmi, texti, sagði ein, annar var að undirbúa sýningu með vændiskonum og heimilislausu fólki, þriðja sagði að í leikhúsinu mætti sýna réttarhöld, sálfræðivinnu, partavinnu, leikhúsið væri heimili tilfinninganna,“ skrifar Elísabet og rifjar upp að á sínum tíma hafi hún verið hrædd við leikhúsið þar sem henni fannst leikhúsið eiga meira í pabba hennar en hún.

Trúnaður í hjarta lítillar stúlku

„En ég skal segja þér hvað leikhús er. Trúnaður. Trúnaður á milli A og B. Trúnaður í hjarta lítillar stúlku. Leikhúsið er í hjartanu, maganum, hryggsúlunni, leikhúsið er í hryggsúlunni og auðvitað blóðinu.

Ég er með leikhúsið í blóðinu, ég ólst uppí leikhúsi og á efri hæðinni var hún Kristín sem eldaði matinn handa leikurunum, hjá henni fékk ég andabrauð þegar ég varð þreytt á að horfa á æfingar, hverja æfinguna á fætur annarri og leikararnir voru svo góðir, alltaf að faðma mig og brosa til mín. Og leikstjórinn sagði: „Tökum þetta aftur. Hljóð í salnum.“ Og ég sat stillt og prúð í sætinu mínu. Það var gaman að labba um í leikmyndinni í pásu. Ég horfði á sömu æfinguna aftur og aftur, alveg einsog ég horfði á Hamlet aftur og aftur þegar ég fékk að fylgjast með æfingum mörgum árum seinna.

Aftur og aftur því ekkert gerist aftur. Og þessvegna hljómar það aftur: Amma, viltu hlusta á dansinn? Í kjól, glimmer og glitrandi,“ skrifar Elísabet í ávarpi sínu í tilefni Alþjóðlega leiklistardagsins.

silja@mbl.is