Skipar búseta á Íslandi fólki í sérstakan peningaþvættisáhættuhóp?

Umfang peningaþvættis í heiminum er gríðarlegt og upphæðirnar svimandi. Að mati Sameinuðu þjóðanna fara á milli 800 milljarðar og tvær billjónir dollara árlega um peningaþvottavélar heimsins eða um 2-5% af heimsframleiðslunni. Er síðan bent á þá augljósu staðreynd að „vegna leynilegs eðlis peningaþvættis er erfitt að meta heildarupphæð þess fjár, sem fer í gegnum þvottakerfið“.

Í vikunni kom út áhættumat frá ríkislögreglustjóra um peningaþvætti á Íslandi. Í skýrslunni er rakið að forsagan að gerð áhættumatsins sé samstarf, sem hófst árið 1991, milli Íslands og alþjóðlegs aðgerðahóps gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem nefnist Financial Action Task Force, skammstafað FATF.

Engum sögum fer af því hvort dregið hafi úr peningaþvætti í heiminum frá því að FATF tók til starfa, en aðgerðahópurinn gerir lista yfir varasöm lönd og gefur út tilmæli. Fyrir tveimur árum lenti Ísland á gráum lista FATF. Ástæðan var sú að lögum og reglum um peningaþvætti þótti ábótavant. Engar vísbendingar voru þó um að hér færi fram stórfellt peningaþvætti eða að Ísland væri orðið lykilland í að koma illa fengnu fé alþjóðlegra glæpahringja í umferð.

FATF hefur verið gagnrýnt fyrir að einblína á fátækari ríki, en horfa fram hjá ríkari löndum. Þá hafi hópurinn lagt áherslu á það hvort lög væru til staðar frekar en að velta því fyrir sér hvort þeim væri framfylgt og farið eftir þeim, sem hlýtur að vera aðalatriðið.

Nauðsynlegt er að taka á peningaþvætti. Það er hægt að koma verulegu höggi á skipulagða glæpastarfsemi með því að koma í veg fyrir að glæpahringir geti komið feng sínum í umferð.

Áhættumatið vekur hins vegar ýmsar spurningar og forsendur eru óljósar. Í samandregnum niðurstöðum telst veruleg hætta á peningaþvætti fylgja almennum félögum og félagasamtökum, trúar- og lífsskoðunarfélögum, sjóðum og stofnunum sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, innlánastarfsemi, greiðsluþjónustu, útgáfu rafeyris, gjaldeyrisskiptum, starfsemi lögmanna, starfsemi endurskoðenda, starfsemi bifreiðaumboða og bifreiðasala og vörum og þjónustu.

Þetta er nokkuð almennt og vekur furðu hvernig það til dæmis ratar í skýrslu af þessu tagi að veruleg áhætta á peningaþvætti fylgi starfsemi heilu stéttanna án þess að nefnt sé eitt einasta dæmi til stuðnings þeirri skilgreiningu.

Af einhverjum ástæðum sjá höfundar matsins til dæmis ástæðu til að ætla að veruleg hætta á peningaþvætti fylgi starfsemi bifreiðaumboða og bifreiðasala, en lítil hætta starfsemi skipasala. Og hvers vegna gleymdust flugvélasalar? Veruleg hætta fylgir því að bjóða upp á vörur og þjónustu samkvæmt áhættumatinu, en aðeins miðlungs hætta af þeim sem höndla með eðalmálma og -steina.

Þá má velta fyrir sér hvaða ástæða sé fyrir því að nefna ekki embættismenn, stjórnmálamenn, fræðimenn, lögregluþjóna eða þess vegna fjölmiðla í áhættumatinu. Eða jafnvel að búseta á Íslandi skipi manni í sérstakan peningaþvættisáhættuhóp.

Peningaþvætti er raunverulegt vandamál og nauðsynlegt að stemma stigu við því, en það þarf að gera það með markvissum hætti. Það breytti engu í baráttunni gegn peningaþvætti að setja Ísland á gráan lista og það mun heldur ekki marka þáttaskil að segja að starfsemi heilla stétta á borð við lögmenn og bílasala fylgi hætta á peningaþvætti. Samkvæmt skýrslunni eru hætturnar á peningaþvætti út um allt og hættan mikil og veruleg á stórum sviðum íslensks athafnalífs. Það er auðvitað alltaf hætta á að eitthvað gerist.

Hér virðast skilgreiningar hins vegar orðnar svo almennar að þær verða gagnslausar. Með sama hætti mætti í skýrslu um umferðarmál segja að veruleg hætta stafaði af öllum, sem eru með bílpróf. Það væri vissulega rétt að því leyti að flestir þeir, sem brjóta af sér í umferðinni, eru með bílpróf, en engan veginn gagnlegt. Eiginlega fullkomlega fánýtt.