Svavar Halldórsson
Svavar Halldórsson
Eftir Svavar Halldórsson: "Nýsköpun með líftækni er afar mikilvæg fyrir Ísland. Fyrirtækin skapa góð störf og verðmætasköpunin skiptir milljörðum króna á ári í gjaldeyri."

Við Íslendingar erum lánsamir að fjölmörgu leyti. Lífskjör eru góð, auðlindir miklar, menntunarstig hátt og þjóðin stendur saman þegar utanaðkomandi óáran herjar á okkur. En við erum líka reglulega minnt á að ekkert af þessu er sjálfgefið. Þegar jörð skelfur undir fótum okkar eða þegar samgöngur og flutningar fara úr skorðum vegna heimsfaraldurs er gott að hafa í huga að ekkert er sjálfsagt við þau miklu lífsgæði sem við njótum.

Skynsamleg auðlindanýting

Mikilvæg forsenda þess að Ísland geti verið góður staður til að búa á, er að við nýtum auðlindir okkar og hugvit til að skapa verðmæti. Undirritaður hefur að undanförnu bent á það í nokkrum greinum að tími sé kominn til að stokka upp íslenska landbúnaðarstefnu og gera umhverfismál að hornsteini sem allt annað hvílir á. Gera ætti ströng skilyrði um umhverfisábyrgð, gegnsæi og dýravelferð að forsendum þess að hið opinbera styðji við landbúnað eða aðra matvælaframleiðslu. Sem betur fer eru langflestir bændur, útgerðir og aðrir, sem að þessum greinum koma, með þessi mál í mjög fínu lagi.

Verðmætasköpun er grunnur lífskjara

Mikil verðmætasköpun á sér nú stað í ýmsum tengdum greinum og við höfum nokkur nýleg dæmi þar sem líftæknifyrirtæki sem vinna með afurðir plantna eða dýra hafa slitið barnsskónum og eru að skila milljarða gjaldeyristekjum fyrir þjóðarbúið. Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að nýta hugvit og menntun til að skapa verðmæti og útflutningstekjur úr hreinni íslenskri náttúru. Oft er þetta verðmætasköpun á sviði fæðubóta- eða lyfjaiðnaðar sem ekki var til fyrir fáeinum áratugum. Vart þarf að deila um að verðmætasköpun er grundvöllur góðra lífskjara hér á landi til lengri tíma.

Öflug líftæknifyrirtæki í sókn

Algalíf, Ísteka, Primex, Genís og Kerecis og eru dæmi um fyrirtæki af þessum toga. Öll eiga þau það sameiginlegt að nýta hugvit og líftækni til að skapa störf. Öll eru þau líka til fyrirmyndar þegar kemur að umhverfismálum, dýravelferð og öðru er lýtur að samfélagsábyrgð. Rétt er að nefna alveg sérstaklega Algalíf og Ísteka, en segja má um bæði fyrirtæki að þau séu vaxin upp úr sprotastiginu. Hvort um sig skapar nú um 40 vel launuð störf og bæði skila samfélaginu umtalsverðum gjaldeyristekjum.

Bindur kolefni og losar súrefni

Bæði þessi fyrirtæki eru einnig til fyrirmyndar í umhverfis- og samfélagsmálum. Algalíf, sem framleiðir fæðubótarefnið astaxanthín úr plöntu-örþörungum, er líklega eitt af fáum fyrirtækjum landsins sem bindur meira kolefni en það losar. Þetta skýrist af því að hliðarafurð þess er ekki kolefni sem þarf að jafna eins og hjá flestum, heldur súrefni sem losað er út í andrúmsloftið.

Sérstakir samningar um dýravelferð

Líftæknifyrirtækið Ísteka er eina afurðafyrirtækið í íslenskum landbúnaði sem gerir dýravelferðarsamninga við alla þá bændur sem það skiptir við. Fyrirtækið framleiðir verðmætt lyfjaefni úr hryssublóði. Allt ferlið er vottað og undir eftirliti dýralækna og innlendra og erlendra stofnana. Líftæknifyrirtæki af þessu tagi eru afar mikilvæg fyrir Ísland. Þau fimm fyrirtæki sem nefnd voru hér að framan, skila líklega fjórum til fimm milljörðum króna af gjaldeyri til þjóðarbúsins á ári. Fyrir utan auðvitað að skapa samanlagt um 150 störf.

Höfundur er sérfræðingur í matarmenningu, stefnumótun og markaðsmálum. svavar@rabb.is

Höf.: Svavar Halldórsson