Þórhallur Hjörtur Hermannsson fæddist 12. nóvember 1927. Hann lést 22. mars 2021.

Útför Þórhalls fór fram 6. apríl 2021.

Vegna mistaka í vinnslu birtist eftirfarandi grein ekki með greinum um Þórhall. Beðist er afsökunar á því.

Kynni mín af Þórhalli urðu er hann kom sem forfallakennari í Laugaskóla, S-Þing. veturinn 1949-1950 en ég var þá nemandi þar. Við unglingarnir urðum nú hálfhissa þegar þessi strákur kom til að kenna okkur. Vorum vön virðulegum eldri mönnum. Nokkrir skólabræður mínir reyndu að snúa á hann og fara út í aðra sálma. Þórhallur sá við þeim og hélt sínu striki. Næsta vetur á eftir var hann enn þá við kennslu á Laugum og fann þá Siggu sína í Húsmæðraskólanum á Laugum. Þau þekktust auðvitað áður, hún alin upp á Laugum, hann í Mývatnssveit. Siggu þekkti ég vel, bæði frændsemi og vinátta á milli okkar, það fór líka svo að Sigríður og Þórhallur urðu meðal bestu vina okkar Mána í gegnum árin. Við Þórhallur sendum hvort öðru og fjölskyldum okkar jólakort á hverju ári og hringdum hvort í annað á afmælisdögum okkar. Þetta var svo skemmtilegt og gerði daginn betri. Margar ánægjustundir áttum við fjögur saman og oft ásamt fleiri sameiginlegum vinum og frændfólki. Þá var gjarnan farið í sumarbústaði austur á landi og ferðast þar vítt og breitt. Þetta voru góðir dagar, sem gott er að minnast. Á meðan Þingeyingafélagið hélt sínar árshátíðir vorum við mætt þar ásamt fleiri góðum og skemmtilegum Þingeyingum enda var þetta aðalfjör ársins að okkar mati. Það er gott að láta hugann reika um farinn veg og minnast vina sinna í gegnum árin. Þeim fækkar nú ört, sem hverfa á braut. Minningin og væntumþykjan lifir og gott að hugsa til allra ánægjustundanna sem við höfum átt saman. Þórhallur minn, við Máni þökkum ykkur Sigríði samfylgdina og allar okkar ánægjustundirnar sem við áttum saman. Farðu vel góði vinur.

Kristín Ingibjörg

Tómasdóttir.