[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hulda Björk Stefánsdóttir er fædd 7. apríl 1971 í Vestmannaeyjum og ólst þar upp. Hún var í sveit á sumrin hjá frænku sinni og eiginmanni hennar, Huldu Tryggvadóttur og Kjartani Halldórssyni á Rauðkollsstöðum í Eyjahreppi á Snæfellsnesi.

Hulda Björk Stefánsdóttir er fædd 7. apríl 1971 í Vestmannaeyjum og ólst þar upp. Hún var í sveit á sumrin hjá frænku sinni og eiginmanni hennar, Huldu Tryggvadóttur og Kjartani Halldórssyni á Rauðkollsstöðum í Eyjahreppi á Snæfellsnesi. „Ég kallaði þau alltaf ömmu og afa, en við systkinin erum skírð eftir þessum yndislegu hjónum.“

Hulda stundaði margar íþróttir í uppvextinum en handboltinn var númer eitt. „Ég æfði bæði hjá Tý og svo ÍBV og á margar mjög skemmtilegar minningar frá þessum tímum, eins og frá keppnisferðalögum upp á land og einnig út fyrir landsteinana. Ég keppti einnig mér til ánægju á landsmótum UMFÍ í handbolta fyrir Suðurnes.“

Hulda gekk í Barna- og Hamarsskóla Vestmannaeyja og útskrifaðist 2005 sem leikskólakennari frá Háskólanum á Akureyri í fjarnámi.

Hulda hefur unnið á leikskóla frá árinu 1994, byrjaði hjá Hjallastefnunni árið 2006 og er þar enn. Hún var leikskólastýra á Sólborg í Sandgerði 2012-2019 og nú leikskólastýra á leikskólanum Velli í Reykjanesbæ. „Ég er að vinna með yndislegu starfsfólki og ég hef ávallt unnið með einstöku fólki, enda er starfið í senn krefjandi og skapandi.“

Hulda var um tíma formaður níundu deildar leikskólakennara á Suðurnesjum og einnig var hún í stjórn körfuboltans hjá Njarðvík. Hulda er í dag varaformaður hjá Leikfélagi Keflavíkur. „Þar hef ég eignast marga góða vini og tekið þátt í frábærum verkefnum.“ Má þar nefna söngleikinn Mystery Boy sem Smári Guðmundsson samdi og Jóel Sæmunds leikstýrði, en sýningin var valin besta leiksýningin hjá áhugaleikhúsum. „Verðlaunin voru að setja upp eina sýningu í Þjóðleikhúsinu og þetta var draumur áhugaleikarans að stíga á fjalir þessa fallega húss.“

Næsta sýning leikfélagsins var Dýrin í Hálsaskógi í leikstjórn Gunnars Helgasonar og sló það aðsóknarmet og var sýnt 26 sinnum. „Forseti vor, Guðni Th. Jóhannesson, kom á sýningu sem var mjög skemmtilegt. Ég fór ekki úr búningnum allt sumarið því við sýndum út um hvippinn og hvappinn og á bæjarhátíðum. Það var orðið mjög eðlilegt að keyra á staðina sem Hérastubbur bakari.“

Síðast setti leikfélagið upp verkið Beint í æð eftir Ray Cooney í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. „Við náðum að sýna 10-11 sinnum sem var ótrúlegt með öllum þessum höftum sem eru búin að vera, en við byrjuðum á að æfa í gegnum samskiptamiðilinn Zoom.“

Helstu áhugamál Huldu eru leikhúsið, æfingar og göngur. „Dætur mínar spila báðar körfubolta með Njarðvík og ég fer á alla leiki þegar það má. Þær hafa verið með í leikfélaginu og það er yndislegt að deila áhugamálum með þeim. Ég gekk með yndislegu samstarfsfólki Hjallastefnunnar hluta Jakobsvegarins og það var ólýsanlegt og stefni á að ganga þar aftur seinna. Ég stefni á frama í gönguskíðum og jafnvel golfi seinna meir, er búin að fara á námskeið í báðum þessum greinum og svo þarf að finna tíma milli leikhússæfinga til iðkunar.

Ég er í tveimur frábærum vinahópum, sem eru æskuvinir úr Eyjum og saumóhópurinn sem ég fékk inngöngu í þegar ég var 24 ára og nýflutt í Reykjanesbæ. Inngangan tekin fyrir og ég var samþykkt sem ég verð að eilífu þakklát fyrir. Við erum öll dugleg að hittast og gerum ýmislegt saman og það er alltaf mikið stuð. Vinir og vinátta eru svo sannarlega dýrmætir eðalsteinar.“

Hulda býst við að halda sig heima í dag. „Ég ætlaði að skála í hrauninu í tilefni afmælisins, en svo opnuðust fleiri sprungur. Það er ljóst að maður á bara að vera heima en ég get brosað yfir þessu og það kemur betri tíð með blóm í haga.“

Fjölskylda

Eiginmaður Huldu er Björn Heiðar Hallbergsson, f. 12.8. 1967, starfsmaður Icelandair. Þau eru búsett í Njarðvík. Foreldrar Björns eru Herdís Debes, f. 13.6. 1938 í Færeyjum, d. 11.3. 2006, verkakona, og Kjartan Símonarson, f. 5.11. 1942, d. 25.9. 2007, bílstjóri. Þau voru búsett í Keflavík.

Börn Huldu og Björns eru 1) Þuríður Birna Björnsdóttir Debes, f. 22.9. 1998, háskólanemi, býr hjá foreldrum. Maki: Ellert Björn Ómarsson, háskólanemi í Stokkhólmi; 2) Herdís Björk Björnsdóttir Debes, f. 6.9. 2005.

Bróðir Huldu er Kjartan Freyr Stefánsson, f. 22.3. 1979, verkamaður á Reyðarfirði.

Foreldrar Huldu eru hjónin Þuríður Júlíusdóttir, f. 2.1. 1952, verkakona, og Stefán Einarsson, f. 7.8. 1951, sjómaður. Þau eru búsett í Vestmannaeyjum.