H elgi Ingólfsson skrifar á Boðnarmjöð: „Margs konar nýjar málsháttalimrur (ort á annan í páskum 2021 til að auka frumleika páskaeggjaframleiðenda, eftir að margir fésbókarvinir mínir kvörtuðu undan því að fá sömu málshættina ár eftir ár)“:...

H elgi Ingólfsson skrifar á Boðnarmjöð: „Margs konar nýjar málsháttalimrur (ort á annan í páskum 2021 til að auka frumleika páskaeggjaframleiðenda, eftir að margir fésbókarvinir mínir kvörtuðu undan því að

fá sömu málshættina ár eftir ár)“:

Ef nútíminn næðir um hraður

með nýjasta raus sitt og blaður,

þá skýrist þín önd

með skáldverk í hönd

því: „Bljúgur er bókelskur maður.“

Að dekra við dætur og syni

er dyggðugt hjá auðrónakyni.

Já, auður og völd,

en aldrei nein gjöld,

því: „Víða á samherji vini.“

Instagramsútlit er þægðin,

en aldrei er sjálfgefin vægðin.

Eitt korter, já sko,

en kanselluð svo,

því: „Stopul er stundarfrægðin.“

Kynuslinn ku vera svona,

hvað svo sem umræddir vona.

Þetta er engin smán.

Við erum öll hán,

því: „Enginn er karl eða kona.“

Halur er heljarins glaður

og hefja að nýju má daður.

Læknast hans óvit,

laus við sitt cóvid,

Því: „Sprækur er sprautaður maður.“

Ólafur Stefánsson yrkir og kallar „Veiran“:

Hún er grýla og grettibrún,

með gíslingu þjóða og banni.

Þú smitast jafnt af hurðarhún

og hósta frá næsta manni.

Haft er eftir Gísla Marteini: „Þessi kona er fullkomið fífl.“ Helgi Ingólfsson yrkir:

Ýmsum það ætti að svíða

og alþjóð ei slíkt skyldi líða.

Ég tek því að hvísla

í takt við hann Gísla

að „fullkomin fífl“ eru víða

Maðurinn með hattinn kveður:

Margan veit ég mannsins brest.

- Ef magnast stórum vandinn,

lífs í streði er stundum best

að stinga haus í sandinn.

Halldór Halldórsson skrifar: „Þegar dótturinni tókst að finna 0% öl handa föðurnum sá ég fyrir mér hnignandi vísnagerðarmöguleika! Ég biðst samt forláts á að nýta mér upplegg Káins, án þess að biðja um leyfi!“

Ógn er afturförin stór

og illt með ljóðamennt,

er mönnum tókst að brugga bjór

í bara NÚLL prósent!

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is