Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Um 60-70 manns komu að tökum á atriði fyrir stórmyndina Dungeons & Dragons hér á landi á dögunum. Talsverð eftirvænting er fyrir gerð myndarinnar og verður íslenskt landslag áberandi í hluta hennar. Stórleikarar eru í aðalhlutverkum; Chris Pine, Michelle Rodriguez, Justice Smith auk Regé-Jean Page úr Bridgerton og Hughs Grant. Leikstjórar og handritshöfundar eru Jonathan Goldstein og John Francis Daley.
Tökurnar hér á landi voru þær fyrstu fyrir myndina sem nær alfarið verður tekin í Titanic-myndverinu í Belfast. Enginn leikaranna kom til Íslands en notast var við íslenska staðgengla í þeirra stað. Um fimmtán manns komu hingað til lands sérstaklega fyrir tökurnar sem fóru fram á nokkrum stöðum á Suðurlandi. Fólkið var hér á landi í tæpa viku. Íslenska framleiðslufyrirtækið Truenorth hafði umsjón með tökunum hér. Ekki fengust nein viðbrögð frá fyrirtækinu í gær þegar eftir því var leitað.
Þetta er önnur heimsókn erlends tökuliðs hingað á stuttum tíma. Í síðasta mánuði var tekin upp stór tískusýning fyrir Yves Saint Laurent.
Dungeons & Dragons er byggð á samnefndum hlutverkaleik. Árið 2000 var gerð ævintýramynd eftir sömu fyrirmynd sem skartaði Jeremy Irons, Thora Birch og Marlon Wayans í helstu hlutverkum.