Ómar Þór Helgason bifreiðastjóri, fæddist 11. júlí 1941 í Reykjavík. Hann lést 20. janúar 2021.
Foreldrar hans voru Helgi Jóhannsson Hafliðason, bifvélavirki frá Búðum í Eyrarsveit, f. 18.8. 1908, d. í Reykjavík 30.1. 1965, og kona hans Sigurbjörg Jónsdóttir húsmóðir, f. í Smádalakoti í Ölfusi 20.3. 1905, d. í Reykjavík 26.1. 1997.
Systkini Ómars: Guðbjörg Jóna Helgadóttir Ólsen, f. 8.4. 1932, d. 18.10. 2002, gift Svend A. Olsen, brúarsmið í Danmörku. Hafdís Helga, f. 12.11. 1933, giftist Gunnari Guðmundssyni, látinn, giftist Gesti Stefánssyni frá Kirkjubæ í Hróarstungu, látinn, Hulda Elvý, f. 17.2. 1940, giftist Ragnari K. Hjaltasyni, skildu, Hafþór, f. 12.1. 1945, d. 26.10. 1982, kvæntist Guðnýju Kristjánsdóttur, Helgi, f. 7.10. 1946, kona hans Rós Óskarsdóttir.
Útför Ómars Þórs hefur farið fram.
Borinn hefur verið til grafar fóstri minn Ómar Þór Helgason, og má ég til með að segja nokkur orð um þann heiðursmann. Ég kynntist fóstra fyrir um það bil 25 árum þegar mamma og hann fara að rugla saman reytum. Þá vann hann hjá Landflutningum sem lyftaramaður, ég kom þar alloft með vörur vinnu minnar vegna og fór ég að fá forgangsafgreiðslu hjá þessum viðkunnanlega manni, ekki vissi ég hvers vegna. Nokkru síðar sagði mamma mér að hún væri farin að hitta mann sem héti Ómar og ynni hjá Landflutningum og þá fór ég að átta mig á samhenginu.
Fóstri minn var afar viðkunnanlegur í öllum samskiptum gagnvart mér og minni fjölskyldu öll þessi 25 ár sem við þekktum hann. Börnin mín öll kölluðu hann afa og það veit ég að honum þótti vænt um. Hann reyndist okkur bræðrum vel alla tíð og börnum okkar. Fóstri hafði mjög gaman af því að segja sögur frá því hann var yngri og þá komu bílar oftar en ekki við sögu. Það var nú í haust að við fórum, ég, mamma og fóstri, vestur í Djúpalón að sækja steina sem hann hafði mikið yndi af að vinna með. Við komum við á bílasafni í Borgarnesi í bakaleiðinni en hann átti þá erfitt með gang en áhugi hans á þessum gömlu bílum virtist gefa honum göngustyrk. Við gengum þar um tvær skemmur með leiðsögumanni en fljótlega tók fóstri minn við hlutverki leiðsögumannsins, svo mikið vissi hann um sögu bílanna þar á safninu, og hélt hann heila ræðu um Soffíu eitt og tvö sem voru langferðabílar með mikla sögu sem hann þekkti vel.
Aðra sögu má ég til með að segja af okkur fóstra. Fyrir um 10 árum þegar hann varð sjötugur bauð ég honum að sitja aftan á mótorhjóli og lét hann ekki bjóða sér það tvisvar. Fórum við frá Hveragerði niður Ölfus að Þrengslum og var klárinn látinn leysa út öll sín hestöfl. Þegar við komum til baka vildi hann vita hversu hratt við hefðum farið og sagði ég honum að hámarkshraðinn hefði ekki farið yfir 130. Hann vildi varla trúa því en ég sagði honum að við hefðum alls ekki farið yfir 130 – en það voru reyndar mílur. Þá fékk hann sér tvær eða þrjár sígarettur hverja á eftir annarri til að róa taugarnar en sagðist þó hafa haft gaman af. Fóstra míns verður sárt saknað. Kveðjum við fóstra og afa með þessum orðum:
Öðlingur er fallinn frá
fór hann héðan rór og sáttur;
kvaddi jörð með bros á brá,
blessi för hans æðri máttur.
(PS)
Páll Sigurðsson og fjölskylda.
Ó, ljóssins faðir, lof sé þér,
að líf og heilsu gafstu mér
og föður minn og móður.
Nú sest ég upp,því sólin skín,
þú sendir ljós þitt inn til mín,
ó hvað þú, guð ert góður!
Ómar Þór ólst upp hjá foreldrum sínum og systkinum og eins og altítt var fór hann snemma að vinna eins og flest önnur börn á þessum tíma, og þá oftast nær sem sendisveinn ýmist labbandi eða á stóru sendisveinahjóli, enda voru hjól og vélar hans aðaláhugamál og það sýndi sig best þegar hann náði unglingsárum að hann var fljótur að ná sér í bílpróf og hefur varla sleppt bílnum síðan, sem hann vann mikið á, fór hann um tíma í hópferðir um landið og í þeim ferðum var myndvélin ávallt með og margar myndir teknar af landi og þjóð.
Hann kvæntist Sigurborgu Maríu Jónsdóttur frá Stykkishólmi og eignuðust þau eina dóttur, Guðbjörgu Sóley, en fyrir átti Sigurborg þrjú börn, þau skildu og fluttist Sigurborg til Hollands og fylgdi Guðbjörg Sóley henni út til Hollands og hefur ílengst þar síðan, en í gegnum árin hafa þau Ómar Þór og Guðbjörg Sóley heimsótt hvort annað, ýmist hún komið hingað til lands eða hann farið út til hennar og dvalið þar um tíma.
Þeir bræður Ómar og Helgi unnu við vöruflutninga hjá bróður sínum Hafþóri sem þá var kaupfélagsstjóri á Skriðulandi í Saurbæ, síðar Ísafirði.
Ómar bjó á Fremri-Brekku í Dölum með seinni konu sinni Guðbjörgu Jónsdóttur í nokkur ár en þau skildu.
Eftir að þeim tíma lauk fór hann að vinna hjá Vöruleiðum og þá aðallega á lyftara sem afgreiðslumaður vöruflutningabílstjóra utan af landi.
Ómar kynntist sambýliskonu sinni Klöru Guðmundsdóttur úr Staðarsveit og bjuggu þau saman í Hveragerði og nutu börn hennar góðs fóstra sem þau elskuðu og virtu og hann reyndist þeim góður fóstri og vinur.
Þegar hann fluttist til Hveragerðis fékk hann vinnu í ullarþvottastöðinni þar til hún var flutt á Sauðárkrók og síðar í Fóðurstöðinni á Selfossi þar til heilsa hans fór að bila svo hann hætti að vinna á vinnumarkaði en þess í stað tók hann sig til og lærði tréútskurð og eru margar útskurðarmyndir og hlutir til eftir hann sem gaman er að eiga.
Ekki lét hann það duga, heldur lærði að hekla og bjó hann til falleg teppi með tilsögn Klöru sem eru meistaralega vel gerð.
Ómar Þór var yfirleitt rólyndismaður sem lét ekki mikið fyrir sér fara en hann var hjálpsamur og traustur vinur.
Við sendum Klöru og börnum hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Hulda Elvý Helgadóttir og Helgi Helgason.