Skuldir einstaklinga sem hlutfall af eignum þeirra hafa lækkað ár frá ári á umliðnum árum og hafa þær ekki verið lægri samanborið við eignir landsmanna í tæpa þrjá áratugi eða frá 1992. Á sama tíma og skuldirnar jukust um 118 milljarða á árinu 2019 hækkuðu eignir einstaklinga á sama tíma margfalt meira eða um 444 milljarða, að mestu vegna hækkunar fasteignamats. Eigið fé einstaklinga hefur aukist jafnt og þétt á seinustu árum, samtals um 2.249 milljarða á fimm árum eða um 82,1%. Þetta kemur fram í greiningu Páls Kolbeins, rekstrarhagfræðings hjá Ríkisskattstjóra, í grein í Tíund, fréttabréfi Skattsins, um álagningu einstaklinga á seinasta ári.
827 milljarðar í innistæðum
Um áramótin 2019/2020 skuldaði 76.461 fjölskylda íbúðarlán en um 33 þúsund fjölskyldur, tæpur þriðjungur þeirra sem töldu fram fasteignir, eru taldar hafa átt þær skuldlausar.Landsmenn áttu um 827 milljarða í innstæðum í bönkum í árslok árið 2019 og þar af áttu þeir 24 milljarða á erlendum bankareikningum. Í greininni kemur fram að tæplega 38 þúsund börn áttu 20,6 milljarða á bankareikningum í lok ársins 2019 og fengu 266 milljónir í vexti. Í greininni er rakið hvernig innstæður fjölskyldna töpuðust í fjármálahruninu 2008 og á árunum þar á eftir. Innstæður barna minnkuðu þá um 5,1 milljarð á fimm ára tímabili eftir hrunið.
Enn eiga einstaklingar 152 milljörðum minna á bankareikningum en þeir áttu í árslok 2008. omfr@mbl.is 10
Tekjudreifing
» Ríflega tvöfalt hærra hlutfall karla en kvenna telst til tekjuhæstu tíundarinnar þegar tekjudreifing landsmanna árið 2019 er skoðuð.
» Það 1% framteljenda sem höfðu hæstar tekjur 2019 fékk 58 milljarða í fjármagnstekjur.