Tómas Láruson
Tómas Láruson
Þær töluðu nánast daglega í síma Jóna og Sigrún dóttir hennar. Sigrún býr á Selfossi, vinnur skrifstofustörf á fasteignasölu og þar eru líka lögfræðingar með aðsetur.

Þær töluðu nánast daglega í síma Jóna og Sigrún dóttir hennar. Sigrún býr á Selfossi, vinnur skrifstofustörf á fasteignasölu og þar eru líka lögfræðingar með aðsetur. Á kaffistofunni minntist Sigrún á uppgötvun mömmu sinnar á misréttinu sem hún sætti með ellilaunin. Að skjólstæðingar Vinnumálastofnunar, þeir sem fá greidd eftirlaun frá fyrirtækjum eða stofnunum og þeir sem hafa vinnu, hafi 100 þúsund króna frítekjumark atvinnutekna hjá Tryggingastofnun, en að eftirlaunagreiðslur lífeyrissjóða myndi 45 þúsund króna skerðingu á ellilaunum af sömu upphæð. Bubbi, einn lögfræðinganna, sagði að þetta gæti ekki staðist. Þetta væri hreint og klárt brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Skömmu seinna kom Bubbi með miða til Sigrúnar og benti henni á að láta mömmu sína fletta upp í lögunum. Á miðanum stóð 47. gr. almannatryggingalaga og 11. gr. stjórnsýslulaga. Hann hafði flett þessu upp og í hans huga er þetta borðleggjandi. „Eftirlauna- og lífeyrisþegar. Það er enginn lagalegur munur á milli.“ Svo bætti hann við. „Atvinnuleysisbætur eru auðvitað launatekjur, en gagnstæð skýring atvinnutekna. Orðið segir það sjálft.“

Jóna bað Sigrúnu, þegar hún hafði sagt henni viðbrögð Bubba, að senda sér þessar tölur eða leiðbeiningar í sms. Það kom fljótt. Sigrún gúglaði almannatryggingalög. Rúllaði músinni niður að 47. gr. – stjórnsýslulög. Þarna stóð svart á hvítu:

Þegar teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur samkvæmt lögum þessum gilda stjórnsýslulög nema umsækjanda eða greiðsluþega sé veittur betri réttur samkvæmt þessum lögum eða öðrum lögum sem við eiga. Gæta skal samræmis við ákvörðun sambærilegra mála.

Vesgú! Ætli sé einhvers staðar í þessum lögum eða öðrum minnst á að þeir sem fá eftirlaun eða atvinnuleysisbætur hafi betri rétt en aðrir gamlingjar? Ég þarf að skoða það hugsaði Jóna, en ef enginn betri réttur er skráður í lög þá gilda stjórnsýslulög. Þetta er athyglisvert. Best að athuga hvort eitthvað er minnst sérstaklega á eftirlaun eða atvinnuleysisbætur, tengt frítekjumarkinu.

Tómas Láruson,

hliðarsjálf ellilaunaþega.