[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Handknattleiksmaðurinn norski Bjarte Myrhol leggur skóna á hilluna eftir Ólympíuleikana í Tókýó í sumar, en Noregur mun keppa í handknattleik í karlaflokki á Ólympíuleikunum í fyrsta skipti frá 1972.

*Handknattleiksmaðurinn norski Bjarte Myrhol leggur skóna á hilluna eftir Ólympíuleikana í Tókýó í sumar, en Noregur mun keppa í handknattleik í karlaflokki á Ólympíuleikunum í fyrsta skipti frá 1972. Myrhol, sem er 38 ára, hefur glímt við veikindi og meiðsli að undanförnu, en hann er nú heill heilsu og klár í slaginn fyrir leikana. Hann hefur undanfarin sex ár leikið með Skjern í Danmörku.

*Þýska knattspyrnufélagið Hertha Berlin hefur vikið ungverska markvarðaþjálfaranum Zsolt Petry frá störfum vegna ummæla sem hann lét falla í viðtali við Magyar Nemzet í heimalandinu. Petry talaði niðrandi til bæði samkynhneigða og útlendinga í viðtalinu. Hann kvaðst lítið skilja Péter Gulásci , markvörð Leipzig og ungverska landliðsins, þar sem Gulásci sagði á dögunum að hann styddi fólk af öllum kynjum og kynhneigð. Þá gagnrýndi Petry innflytjendastefnu Evrópuþjóða. Petry hefur beðist afsökunar á ummælum sínum, en hann hafði starfað hjá Herthu Berlin frá árinu 2015.

*Norður-Kórea mun ekki senda keppendur á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar vegna hættunnar á kórónuveirusmitum en íþróttamálaráðherra landsins tilkynnti þetta í gær. Vonir höfðu verið bundnar við að þátttaka á leikunum yrði skref í áttina að þíðu í samskiptunum við Suður-Kóreu en Norður-Kórea hefur tekið þátt í öllum Ólympíuleikum frá því landið sniðgekk leikana í Suður-Kóreu árið 1988. Norður-Kórea hefur verið harðlokuð síðan kórónuveirufaraldurinn braust út og hefur ekki verið greint frá neinu tilfelli veirunnar í landinu.

* Martin Kallen , yfirmaður Evrópumóts karla í fótbolta hjá UEFA, kveðst bjartsýnn á að áhorfendur á leikjunum í Danmörku í úrslitakeppni Evrópumótsins verði helmingi fleiri en Danir gera nú ráð fyrir. Þeir hafa stefnt á 12 þúsund manns að hámarki á leik. „Miðað við hversu vel Danir hafa unnið með faraldurinn og skipulag þeirra í skimunarmálum teljum við fulla ástæðu til að búast við minnst 18 til 20 þúsund áhorfendum á hverjum leik. Það eru jú meira en tveir mánuðir í fyrsta leikinn. Við vonumst eftir að geta nýtt allt að 60 prósent sæta og vera með í kringum 24 þúsund manns á leik,“ sagði Kallen við TV3 Sport. Hann staðfesti jafnframt að allar tólf keppnisborgir EM hefðu tilkynnt að þær gætu tekið á móti áhorfendum í sumar.

*Kórónuveiran hefur stungið sér niður í herbúðum Evrópumeistara Bayern München í knattspyrnu og mun þýski landsliðsmaðurinn Serge Gnabry missa af leiknum gegn Paris St. Germain í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Tilkynnt var í gær að Gnabry hefði greinst með veiruna en Marc Roca missir einnig af leiknum vegna meiðsla sem hann varð fyrir á sunnudaginn. Þá er markvarðahrellirinn Robert Lewandowski á sjúkralistanum eins og frá hefur verið greint.