Hærri skattar snöggfrystu sænska hagkerfið en leiddu líka til meiriháttar tískuslyss sem öll heimsbyggðin leið fyrir.
Hærri skattar snöggfrystu sænska hagkerfið en leiddu líka til meiriháttar tískuslyss sem öll heimsbyggðin leið fyrir. — LINDEBORG / SCANPIX SWEDEN / AFP
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Mexíkóborg ai@mbl.is Biden vill snarhækka skatta á bandarísk fyrirtæki og helst fá þjóðir heims í eitt allsherjar skattpíningarsamstarf. Af því tilefni er ágætt að rifja upp hve miklu tjóni það getur valdið þegar skattar hækka upp úr öllu valdi.

Þegar stjórnmálamenn langar að hækka skatta láta þeir sér yfirleitt nægja að klípa agnarögn af tekjum fólks og fyrirtækja, hér og þar. En fyrir Joe Biden dugar ekkert hálfkák og vinna demókratar núna að því hörðum höndum að hækka alríkisskatta á hagnað fyrirtækja úr 21% upp í 28%. Þegar ríkjasköttunum er bætt við þýðir þetta að bandarísk fyrirtæki gætu vænst þess að missa um 33,4% af hagnaði sínum til hins opinbera.

Myndi þetta gera bandaríska skattaumhverfið enn ósamkeppnishæfara, en þar í landi er skattur á hagnað nú þegar yfir heimsmeðaltalinu. Að sögn Chris Edwards hjá Cato-stofnuninni er skatthlutfallið núna 27% í Bandaríkjunum en að meðaltali 23,7% á heimsvísu. Í Asíu er meðaltalið 21,6% og í Evrópu 19%.

Til samanburðar er tekjuskattur lögaðila 20% á Íslandi, 19% í Bretlandi, tæplega 18% í Sviss, 12,5% á Írlandi og 9% í Ungverjalandi.

Fantabandalag G20-ríkjanna

En það er ekki nóg með að demókratarnir vilji kreista meiri skatta úr bandarískum fyrirtækjum heldur vilja þeir að atvinnurekendur um allan heim hafi það jafnskítt. Vill Janet Yellen fjármálaráðherra fá G20-löndin til að sammælast um alþjóðleg lágmarksviðmið í sköttun fyrirtækja – einhvers staðar í kringum 21% markið. Hún veit sem er að eftir því sem skattarnir hækka, því sterkari hvata hafa bandarísk fyrirtæki til að leita skjóls í öðrum löndum í gegnum alls konar fléttur, eða með því einfaldlega að hafa sig á brott. Í erindi sem hún flutti á mánudag hélt Yellen því fram að ef ríki heims bara samstilltu sig í fjárplokkinu myndi það ryðja brautina fyrir nýsköpun, hagvöxt og hagsæld.

Í fullkomnum heimi hefði einhver í salnum rétt upp hönd og spurt ráðherrann hvort það væri ekki kjörin leið til að fylla baðkar, að sækja vatn með fötu í annan enda karsins og hella svo vatninu ofan í hinn endann.

Þetta útspil Bandaríkjastjórnar kemur ekki til af engu. Bandarísk stjórnvöld hafa verið hömlulaus í örvunaraðgerðum sínum í kórónuveirufaraldrinum og vill Biden bæta við 2.000 milljörðum dala sem yrðu eyrnamerktir því að bæta „innviði“ í víðasta skilningi orðsins. Áætlar ríkisstjórnin að fyrirhuguð hækkun skatta á fyrirtæki muni auka tekjur ríkissjóðs um 2.000 milljarða dala á komandi 15 árum.

Vinstrimenn um allan heim fagna tillögum Bidens og Yellen enda ólmir að klekkja á þeim sem náð hafa árangri í rekstri.

En áhugamenn um háa skatta ættu að gæta sín á því að skattpíningu fylgja alls kyns neikvæðar afleiðingar sem sumar eru mjög fyrirsjáanlegar en aðrar alveg óvæntar. Er ekki hægt að finna það land sem hefur tekist að auka hagsæld með því að hækka skatta upp úr öllu valdi.

ABBA-eftirköstin

Frægasta dæmið er Svíþjóð sem vinstrimenn vilja þó oft benda á sem dæmi um land þar sem mikil hagsæld og háir skattar fara saman. En eins og sagnfræðingurinn Johan Norberg hefur bent á þá var grunnurinn að hagsæld Svíþjóðar lagður þegar skattar þar í landi voru lágir og mikið frelsi í atvinnulífinu. Svíarnir eru ekki ríkir út af heldur þrátt fyrir alla skattpíninguna. Stöðnunaráhrif sænska skatta- og velferðarmódelsins, sem ruddi sér til rúms á 8. áratugnum, voru slík að árið 2000 mátti aðeins finna eitt fyrirtæki í hópi 50 stærstu fyrirtækja Svíþjóðar sem hafði verið stofnað eftir 1970. Svíþjóð var fjórða ríkasta land heims árið 1970 en var komið niður í 14. sæti um aldamótin, og frá 1970 til 2000 jukust tekjur á mann um 72% í Bandaríkjunum, 64% í Vestur-Evrópu, en aðeins 43% í Svíþjóð.

Er áhugavert til þess að hugsa hversu mikið ríkari Svíarnir væru í dag ef þeir hefðu haldið áfram á braut frelsis og lágra skatta.

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að þung skattbyrði skyldi snöggfrysta sænskt atvinnulíf, en hitt vita færri að sænska skattastefnan hafði líka hörmuleg áhrif á tísku diskótímabilsins.

Björn Ulvaeus ljóstraði því nefnilega upp í bók sem kom út árið 2014 að það hefði verið út af sænskum skattareglum að búningar ABBA-kvartettsins urðu svona ýktir og furðulegir. Til að geta dregið tónleikafatnaðinn frá skatti þurftu meðlimir hljómsveitarinnar að klæðast búningum sem væru svo stórskrítnir að það þætti af og frá að nokkur myndi vilja klæðast þeim á götum úti. Glimmerið og glysið var fyrst og fremst tilraun einnar vinsælustu hljómsveitar allra tíma til að lágmarka hjá sér skattareikninginn.

Við lifum enn með hörmulegum afleiðingum sænskrar skattpíningar: Útlit ABBA-búninganna hafði veruleg og skelfileg áhrif á tísku 8. áratugarins og nærri hálfri öld síðar eiga hönnuðir það til að fyllast innblæstri við hlustun á „Dancing Queen“ eða „Waterloo“ og fylla hillur verslana af litríkum samfestingum og útvíðum buxum sem myndu ekki stinga í stúf í glerskápum ABBA-safnsins í Stokkhólmi.

Launþegar borga

Það er gott og blessað að hæðast að tísku diskótímabilsins en fyrir hinn almenna borgara eru hærri skattar ekkert grín. Jafnvel ef það eru fyrirtækin sem borga reikninginn þá dreifist kostnaðurinn um allt samfélagið.

Er samhljómur um það á meðal hagfræðinga að launþegar beri hluta þeirrar skattbyrði sem lögð er á fyrirtæki. Heritage Foundation reiknast til að það komi í hlut launþega að greiða 70% af sköttum á hagnað fyrirtækja, í formi lægri launa, en Tax Policy Center segir launþega axla 20% á meðan 80% lendi á hluthöfum. Ef við einfaldlega tökum meðaltalið má slumpa á að um helmingur þeirra viðbótarskatta sem ríkisstjórn Bidens vill leggja á bandarísk fyrirtæki verði í reynd greiddur af launþegum.

Þessu til stuðnings má benda á að skömmu eftir að Trump komst til valda tóku laun í Bandaríkjunum að hækka skarplega. Komu margir auga á samhengi á milli þeirrar stefnu Trumps að lækka skatta á atvinnulífið og aukinnar getu fyrirtækja til að borga fólki hærri laun fyrir vinnu sína.

Einstök geta stjórnvalda til að fara illa með peninga

Er þá eftir að mæla það tjón sem verður þegar fjármunir eru teknir frá verðmætaskapandi fyrirtækjum og þeir færðir í hendur missnjallra embættismanna. Hvatarnir til skynsamlegra ákvarðana eru einfaldlega allt aðrir hjá hinu opinbera en í einkageiranum og von á að 2.000 milljarðar dala geri samfélaginu miklu meira gagn í atvinnulífinu en ef þeim er varið til pólitískra verkefna.

Lýsandi dæmi um þetta er að af 2.000 milljarða dala innviðaátaki Bidens eiga 100 milljarðar að fara í að tryggja að allir Bandaríkjamenn hafi aðgang að háhraðaneti. Ef eitthvað er að marka leitarniðurstöður Google eru um 19 milljónir manns í Bandaríkjunum sem ekki hafa háhraðatengingu heima hjá sér, sem þýðir að kostnaðurinn við að koma þessu fólki í gott samband við Netflix og Pornhub verður um 5.200 dalir á mann. Ef við gefum okkur að þrír deili heimili að jafnaði er kostnaðurinn 15.700 dalir á fjöskyldu, sem er hér um bil bílverð.

Gott og vel – það gæti verið æskilegt og þjóðhagslega hagkvæmt að leggja ljósleiðara að hverju einasta bóndabýli og fjallakofa í Bandaríkjunum, en einkaframtakið er þegar komið með lausnina og það fyrir miklu lægri fjárhæð.

Geimflaugafyrirtæki Elons Musk, SpaceX, hefur verið að dreifa agnarsmáum fjarskiptagervihnöttum um himinhvolfið og byrjaði nýlega að bjóða fólki á afskekktum svæðum upp á háhraðanettengingu í gegnum fyrirtækið Starlink. Allt sem þarf er móttakari sem beint er í átt að stjörnunum. Tengingin er álíka hröð og fæst í gegnum venjulegt breiðband og mánaðaráskriftin álíka dýr og bandarískir netnotendur eiga að venjast.

Verkefni Bidens er því orðið úrelt áður en fyrstu verkamannahóparnir eru sendir af stað með skóflur og ljósleiðararúllu.

Ekki nóg með það heldur er áætlað að Starlink-kerfið muni samtals kosta um 10 milljarða dala, eða einn tíunda af því sem hið opinbera ætlar að spreða. Er þá eftir að taka með í reikninginn að á meðan netverkefni Bidens nær bara til 19 milljóna manns í einu landi verður kerfi Starlink aðgengilegt alls staðar á jarðkringlunni.