Á verði Úkraínskur hermaður á verði í Donetsk-héraði nálægt svæði sem aðskilnaðarsinnar ráða yfir.
Á verði Úkraínskur hermaður á verði í Donetsk-héraði nálægt svæði sem aðskilnaðarsinnar ráða yfir. — AFP
Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Rússar taka hugmyndinni að aðild Úkraínu að Atlantshafsbandalaginu (NATO) af lítilli gleði og segja hana til þess fallna að flækja enn frekar og gera ástandið í stríðshrjáðu austanverðu landinu enn erfiðara.

Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Rússar taka hugmyndinni að aðild Úkraínu að Atlantshafsbandalaginu (NATO) af lítilli gleði og segja hana til þess fallna að flækja enn frekar og gera ástandið í stríðshrjáðu austanverðu landinu enn erfiðara. Íbúar þar vildu ekki að yfirvöld í Kænugarði gengju til liðs við vesturblokkina. „Við höfum miklar efasemdir um að slíkt muni auðvelda Úkraínu að leysa innanlandsvanda sinn. Frá okkar sjónarhóli séð verður ástandið bara verra,“ sagði Dmítrý Peskov, talsmaður Moskvustjórnarinnar, í gær.

Forseti Úkraínu, Volodýmýr Zelensky, hvatti NATO í gær til þess að hraða afgreiðslu umsóknar Úkraínu um aðild að bandalaginu. Sagði hann aðild að því einustu leiðina til að binda enda á bardaga við aðskilnaðarsinna sem vildu sameinast Rússlandi.

Auknir bardagar í austurhluta Úkraínu og hernaðarlegar tilfæringar Rússa á landamærum ríkjanna hafa aukist að umfangi síðustu daga. Talið hefur verið að það geti verið undanfari harðari átaka í Austur-Úkraínu. Fór Zelensky yfir stöðuna með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, í gær og knúði við það tækifæri á um aðild að bandalaginu.

Tímabært skref

Í smáskilaboðum á samfélagsvefnum Twitter eftir samtal þeirra sagði Zelensky að kominn væri tími á að NATO stigi nokkur skref fram á við vegna langvarandi þrár Úkraínumanna eftir aðild að NATO. Sagði hann stjórnvöld í Kænugarði hafa skuldbundið sig til að framkvæma hernaðarlegar umbætur sem bandalagið setti sem skilyrði fyrir aðild.

„Umbæturnar einar og sér munu ekki stöðva Rússa,“ sagði Zelensky, en yfirvöld í Kiev hafa sagst vonast eftir því að fá boð um aðild að svonefndum MAP-áætlunum (MAP) NATO. „Bandalagið er eina leið okkar til að stöðva bardagana í Donbas og úkraínsk MAP-áætlun yrði alvöru skilaboð fyrir Rússa,“ sagði Zelenzky.

Vaxandi ótti

Ótti við verulega stigmögnun átaka í Donbas-héraðinu í austurhluta Úkraínu hefur vaxið undanfarið. Þar hafa hersveitir Úkraínuhers átt í bardögum við aðskilnaðarsinna Rússa frá 2014.

Í síðustu viku sökuðu yfirvöld í Kænugarði Rússa um gífurlegan liðssafnað, þúsundir hermanna, á landamærum ríkjanna í norðri svo og á Krímskaga sem Moskvustjórnin innlimaði í Rússland 2014.

Vestrænir bandamenn hafa komið Úkraínumönnum til varna meðal annars með fjölda viðvarana til Rússa um að halda aftur af sér. Stoltenberg sagði í gær að hann hefði hringt í Zelensky vegna alvarlegra áhyggna af umsvifum rússneska hersins í og við landamæri Úkraínu svo og endurteknum vopnahlésbrotum. „NATO styður staðfast fullveldi Úkraínu og óskert. Við hétum því að viðhalda nánu samstarfi,“ sagði hann.

Hnykkt á samstöðu

Bandaríkjamenn og Bretar hafa einnig hnykkt á samstöðunni með Úkraínu og greindi bandaríska varnarmálaráðuneytið frá því að viðbúnaður bandarískra hersveita í Evrópu hefði verið aukinn og færður á hærra stig.

Yfirvöld í Moskvu hafa ekki borið fregnir af liðsflutningum þeirra til baka. Sögðust þau engum ætla að ógna. Vaxandi mannfall hefur átt sér stað á átakalínunni í Úkraínu undanfarnar vikur. Að minnsta kosti 23 úkraínskir stjórnarhermenn hafa fallið frá síðustu áramótum samanborið við 50 allt árið 2020.