[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Þetta heldur áfram að koma okkur á óvart,“ sagði dr. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við HÍ, um eldsumbrotin í Fagradalsfjalli.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Þetta heldur áfram að koma okkur á óvart,“ sagði dr. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við HÍ, um eldsumbrotin í Fagradalsfjalli. Í gær gusu bæði gígopin í Geldingadölum og eins gossprungurnar sem opnuðust fyrir ofan Meradali í fyrradag. Í fyrrinótt myndaðist um 150 metra löng yfirborðssprunga á milli þar sem gaus í gær. Þar hafði orðið um eins metra jarðsig. Það bendir til þess að þar undir hafi orðið gliðnun, mögulega vegna þess að kvikugangurinn þar undir hafi breikkað. Þorvaldur sagði það ekki óeðlilegt. Hann sagði að það væri alveg mögulegt að kvika kynni að leita þar upp á yfirborðið.

Þorvaldur minnti á að Ásta Rut Hjartardóttir jarðeðlisfræðingur og fleiri hefðu kortlagt sprungur norður af Geldingadölum fyrir fáeinum dögum sem náðu næstum að sprungunum sem fóru að gjósa í fyrradag.

„Jarðeðlisfræðingar reiknuðu út að innflæði kviku í ganginn væri 10-15 rúmmetrar á sekúndu, miðað við aflögunina sem varð. Nú vitum við að gosið í Geldingadölum var að skila 4-5 rúmmetrum á sekúndu og nýju sprungurnar skila eitthvað svipuðu og hafa tvöfaldað kvikuframleiðsluna. Innflæðið í kerfið er þó líklega meira en útflæðið. Því gæti mögulega opnast sprunga á milli gosstöðvanna eða norðan við nýju sprungurnar. Eins gæti kvikuflæðið úr gígunum aukist,“ sagði Þorvaldur. Hann sagði að ef kvikuflæði til yfirborðs myndi aukast stæði það líklega stutt og gæti bent til þess að gosið færi að taka enda.

Talsvert hrundi úr gígbarmi Suðra ofan í gíginn í gær. Þorvaldur sagði að líklega hreinsuðu gígarnir sig eftir slíkt hrun. Hrauntjörnin í Norðra lækkaði eftir að hraunáin þar fyrir framan tæmdist að hluta í fyrradag.

Gasmengun getur orðið í byggð

Brennisteinsmengun frá gosstöðvunum lagði yfir Voga á Vatnsleysuströnd að kvöldi annars í páskum. Samkvæmt síðu um loftgæði á Íslandi (loftgaedi.is) fór styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO 2 ) þar yfir 1.500 míkrógrömm/m 3 klukkan 22.00. Eftir það dró hratt úr menguninni og var hún innan marka í gær.

Heilsuverndarmörk brennisteinsdíoxíðs (SO 2 ) eru 350 míkrógrömm/m 3 að klukkustundarmeðaltali en 125 míkrógrömm/m 3 að sólarhringsmeðaltali. Veðurstofan birtir reglulega gasmengunarspá á heimasíðu sinni (vedur.is).

Kröflueldar og Fagradalsfjall – lík ásýnd en gjörólík eldgos

• Gosið nú er mjög stöðugt en það voru Kröflueldar ekki Auðvelt er að sjá líkindi með Kröflueldum (1975-1984) og eldsumbrotunum á Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga hvað varðar ytri ásýnd eldgosanna, að sögn dr. Þorvaldar Þórðarsonar, prófessors í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.

„Þegar við horfum á virknina í gígunum er auðveldlega hægt að finna samlíkingu við Kröfluelda. Aflminni gosin í Kröflu höguðu sér mjög svipað og eldgosin nú. Svipuð suða og annað. Í báðum tilvikum mynduðust klepragígar og hraunslettur komu upp,“ sagði Þorvaldur. „En ef við horfum á hvaðan kvikan kemur og hvað veldur eldgosunum þá eru þessi eldsumbrot nú mjög frábrugðin Kröflueldum. Í Kröflueldum gaus úr grunnstæðu kvikuhólfi á um þriggja kílómetra dýpi. Kvika kom inn í það og kvikuhólfið þandist út. Það endaði með að veggirnir á kvikuhólfinu rifnuðu og kvikan fór lárétt út í sprungusveiminn. Stundum leiddi það til eldgosa.

Núna horfum við á kerfi þar sem ekki er grunnstætt kvikuhólf heldur hugsanlega kvikuþró á 17-20 kílómetra dýpi. Það hefur orðið aflögun á jarðskorpunni á plötuskilum en hlutur kvikunnar í aflöguninni er tiltölulega lítill. Eldgosið nú hefur verið miklu stöðugra en Kröflueldar voru nokkurn tíma. Aflminni gosin í Kröflu stóðu mjög stutt yfir. Voru varla byrjuð þegar þau voru búin. Nú kemur kvikan af miklu dýpi og með mjög jöfnu flæði.“

gudni@mbl.is