Hreyfimyndahátíðin Physical Cinema Festival verður haldin utandyra í miðbæ Reykjavíkur 10.-17. apríl og verða sýnd á henni valin verk eftir íslenska og erlenda höfunda.
Hreyfimyndahátíðin Physical Cinema Festival verður haldin utandyra í miðbæ Reykjavíkur 10.-17. apríl og verða sýnd á henni valin verk eftir íslenska og erlenda höfunda. Til stóð að bjóða einnig upp á dagskrá í Bíó Paradís, Tjarnarbíói og menningarhúsinu Mengi en henni var frestað vegna Covid-19. Helena Jónsdóttir setti hreyfimyndahátíðina á laggirnar fyrir tveimur árum sem sjálfstæða hátíð í samstarfi við Stockfish-kvikmyndahátíðina. Heppnaðist hún svo vel að ákveðið var að halda hana annað hvert ár. Hátíðin er fyrst og fremst hugsuð sem vettvangur fyrir heimildarmyndir, vídeólistaverk, örverk og stuttmyndir og ætlað að vera tilraunasvið og leikvöllur fyrir alls konar kvikmyndagerð. Hátíðin í ár verður á fjórum stöðum: í gluggum Bíós Paradísar, á Vatnsstíg þar sem myndum verður varpað á glugga og veggi, í Mengi við Óðinsgötu og Tjarnarbíói þar sem varpað verður á Ráðhús Reykjavíkur.