Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Fé leitar nú í meira mæli en áður inn í hlutabréfasjóði, á meðan skuldabréfafjárfestingar eru dottnar úr tísku.

Segja má að skuldabréfafjárfestingar hafi að einhverju leyti dottið úr tísku á þessu ári, að mati Agnars Tómasar Möller, sjóðstjóra hjá Kviku eignastýringu. Hann segir að fé leiti nú í meira mæli inn í hlutabréfasjóði þar sem fólk sjái meiri möguleika til ávöxtunar í því lágvaxtaumhverfi sem til staðar er í dag. Hann segir að þetta sé að gerast bæði hér á landi og ekki síður í útlöndum. „Ávöxtun bandarísku skuldabréfavísitölunnar á fyrsta fjórðungi þessa árs var neikvæð um 4% og var sú versta síðan árið 1980. Skuldabréfamarkaðir eru því minna í tísku á nýju ári eftir mjög góða ávöxtun skuldabréfa í fyrra og við sjáum það smitast til Íslands líka. Sumir fjárfestar og greinendur vilja meina að 40 ára kaupendamarkaður í skuldabréfum sé að líða undir lok nú þegar við sjáum fyrir endann á kórónuveirufaraldrinum,“ segir Agnar Tómas í samtali við ViðskiptaMoggann.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd yfir þróun á flæði í sjóði var sterkt innflæði í hlutabréfasjóði í febrúar sl. líkt og í desember 2020. Innflæði nam 4,7 milljörðum króna í hlutabréfasjóði í febrúar og það sem af er ári nemur innflæðið 7,6 milljörðum króna. Það er meira en kom inn nettó allt síðasta ár.

Agnar segir að óhætt sé að nota orðið tísku í þessu samhengi þegar horft er til hegðunar almennings sem sjái verð hlutabréfa og fasteigna hækka mikið. Því færi fólk fé í þessar áttir af innlánsreikningum sínum. „Almenningur fylgir meira stemningunni á markaðnum ef svo má að orði komast í sínum fjárfestingum og það hefur áhrif ef neikvæð umræða skapast um skuldabréfafjárfestingar. Sjálfur er ég þó ekki svartsýnn á skuldabréfin til lengri tíma.“

Agnar segir að hægt sé að fá góða raunávöxtun á skuldabréfamarkaði hér á landi. „Það er hægt að kaupa löng ríkisskuldabréf með 1% raunávöxtun, sem er talsvert hærri ávöxtun en í nær öllum vestrænum ríkjum. Víða erlendis erum við að sjá raunávöxtun frá mínus tveimur prósentum upp í núll prósent. Ávöxtun á íslenskum ríkisskuldabréfum var um 0% á fyrsta fjórðungi þessa árs sem þýðir að hún var ekki jafn slæm og víða erlendis.“

Agnar bendir á að líta beri á raunávöxtunina. Hún sé það sem máli skipti. Verðbólga á Íslandi sé hærri en í Evrópu og raunstýrivextir Seðlabankans hér því lægri en víðast hvar í álfunni. Árin fyrir veirufaraldurinn hafi verið frekar mögur á hlutabréfamarkaði hér á landi og mun slakari en víða erlendis. Hlutfallsleg áhrif vaxtalækkana Seðlabankans hafi því verið mun meiri hér á landi en annars staðar þar sem nafnvextir ekki síður en raunvextir hafi lækkað talsvert meira hér en víða annars staðar. „Það er því ekki skrýtið að ávöxtun á hlutabréfum hafi verið góð á síðasta ári, eða rúm tuttugu prósent, því að á sama tíma voru neikvæð áhrif faraldursins á ferðaþjónustuna kannski ekki eins þung á hlutabréfamarkaðnum og margir óttuðust, nema þá helst á verð fasteignafélaganna. Innlendu félögin hafa flest notið góðs af aukinni innlendri eftirspurn.“