Róbert Már Róbertsson fæddist í Reykjavík 3. október 1980. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 9. mars 2021. Hann var sonur Róberts Jónssonar sem lést 2013 og Sonju Óskar Jónsdóttur, f. 1951.

Systkini Róbert samfeðra 1) Snædís, f. 1971, 2) Björn, f. 1973, 3) Karitas, f. 1988. Sammæðra: Eydís Ósk Traustadóttir, f. 23. ágúst 1983. Fóstursystur 1) Margrét Tinna Traustadóttir, f. 10. sept. 1983, sambýlismaður Brjánn Árnason. Þau eiga tvær dætur. 2) Anna Gréta, hún á tvö börn. Róbert Már átti eina dóttur, Alexöndru Melkorku, f. 31. júlí 2001. Móðir hennar er Arnheiður Melkorka Pétursdóttir.

Útförin fór fram 19. mars 2021.

Það var á fallegum sumardegi 29. maí 1984 að systkinin Róbert Már og Eydís Ósk komu í fóstur til okkar hjónanna Jóhönnu Clausen og Trausta Gunnarssonar sem þá bjuggum í Blesugróf í Reykjavík. Við flugum norður til Akureyrar og náðum í systkinin. Róbert var þá á fjórða ári en Eydís Óskníu mánaða gömul. Róbert passaði vel upp á systur sína. Þetta sumar var oft mjög gott veður og gaman að leika sér úti í garði í bílaleik eða á hjóli. Róbert gekk í Fossvogsskóla og síðan í Réttarholtsskóla. Flestar helgar yfir sumarið var farið í útilegur eða á Hofsós til afa og ömmu. Fjölskyldan byggði sér bústað Grímsnesi. Þar var gróðusett og smíðað og þar undi Róbert sér vel með krökkunum og lék sér við Lady, fallegu bordercollie-tíkina okkar í fótbolta. Trausti fósturfaðir hans rak verkstæði, þar undi Róbert sér vel, lærði viðgerðir. Hann sagði síðar að það hefði orðið til þess að núna kynni hann að gera við bílinn sinn.

Eftir grunnskóla hjá Róbert flutti fjölskyldan í Grafarvog í nýtt hús. Róbert og Trausti fóru þá í Iðnskólann í Reykjavík í rafvirkjun en Róbert lauk ekki sveinsprófi en vann samt í rafmagni árum saman. Róbert tók meirapróf og hafði að lokum próf á allar vinnuvélar og krana.

Róbert flutti að heiman að verða tvítugur og eignaðist dótturina Alexöndru Melkorku með barnsmóður sinn Arnheiði en þau slitu samvistir. Alexandra kom oft í sveitina til afa og ömmu eða austur á Selfoss eftir að við fluttum þangað. Róbert kom með sendibíl og flutti okkur þangað fyrir 10 árum. Smám saman fjarlægðist hann fjölskylduna sem skildi það alls ekki. Við söknuðum hans glaða bross og gamanyrða og fylgdumst með honum úr fjarlægð. Árið 2003 flutti Róbert til Ytri-Njarðvíkur á Borgarveg 15 þar sem hann leigði kjallarann og þegar eigandi hússins seldi það keypti Róbert húsið og gerði það að miklu leyti upp og leigði efri hæðina. Róbert gat verið glettinn og gamansamur en félagsleg samskipti voru ekki hans sterkasta hlið. Alexandra dóttir hans bjó hjá honum hátt í tvö ár, á þeim tíma fékk hann hjartaáfall. Þegar Covidið kom missti hann vinnuna. Við kveðjum Róbert Má með sorg í hjarta og þökkum fyrir allar gleðistundirnar sem við áttum með honum.

Kveðja frá fósturforeldrum,

Jóhönnu og Trausta og systrum.